Árið 1943 var í Reykjavík haldið upp á að 32 ár voru liðin frá falli keisarastjórnarinnar í Kína. Ísland var, eins og allir vita, á yfirráðasvæði bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni. Kínverjar voru bandamenn Bandaríkjanna í stríðinu gegn Japönum og því var haldin mikil samkoma í húsakynnum Bandaríkjahers til að fagna á þessum kínverska þjóðahátíðardegi. Jón Sen, íslensk-kínverskur tónlistarmaður, lék á fiðlu á samkomunni.

 

Japanir réðust inn í Kína í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar og lögðu landið í rúst. Áður en að þeirri innrás kom ríkti þó lítill friður í þessu fjölmennasta landi veraldar en flókið borgarastríð ríkti í landinu þar sem stríðandi fylkingar börðust um völdin í því tómarúmi sem myndaðist eftir fall keisarastjórnarinnar árið 1911. Chiang Kai-shek, úr Kuomintang-flokki, var leiðtogi Kína í stríðinu.

 


Þjóðhátíðarhöld Kínverja í Reykjavík


Kínverjar, sem nú eru staddir hjer á Íslandi hjeldu hátíðlega 32 ára sjálfstæðisafmæli Kína hjer í bæ s.l. sunnudag.

 

Voru saman komnir í einu samkomu húsi hersins um 100 Kínverjar, sem eru í Bandaríkjaher og flota og ennfremur nokkrir Kínverjar sem eru á amerískum kaupskipum hjer við land.

 

Frú Oddný Sen og börn hennar voru einnig viðstödd og Jón Sen skemti með einleik á fiðlu, en Skúli Guðmundsson ljek undir.

 

Allmargir foringjar úr her og flota voru á hátíðinni, þar á meðal Key hershöfðingi og Wentworth flotaforingi.

 

Margar ræður voru fluttar á kínverskur og ensku og ýmislegt til skemtunar.

 

Byrns skipherra sýndi kvikmyndir frá ferð sem hann fór í til Kína og að lokum var framreiddur kínverskur matur.

 

Eftirfarandi skeyti var sent frá samkomunni til Shiang Kai Shek hershöfðingja og forseta Kína og frúar hans:

 

„Við Kínverjar í her, flota og kaupskipaflota Bandaríkjanna í hinu fjarlæga Íslandi, sem höfum komið saman til að minnast 32 ára sjálfstæðisafmælis Kína, sendum yður og kínverska hernum og þjóðinni kveðjur okkar og sigurheit“

 

Morgunblaðið, 12. október 1943

 

 

 

 

 

 

 

Jón Sen.

Á þessari mynd sjáum við Jón Sen (1924-2007). Hann var sonur Oddnýjar Erlendsdóttur Sen og Kwei Ting Sen, kínversks prófessors. Hann bjó fyrstu ár ævi sinnar í Kína en flutti til Íslands árið 1937 eftir innrás Japana í Kína. Hér má lesa bráðskemmtilegt viðtal við hann sem birtist í Morgunblaðinu árið 1995: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1826646


 

Chiang Kai-shek, Franklin D. Roosevelt og Winston Churchill hittust í Kaíró í Egyptalandi í nóvember 1943.