Hver kannast ekki við „mamma þín“-dónaskap? Við sjáum hann til dæmis í bandarísku uppistandi, Hollywood-myndum og í miðaldagríni hjá Monty Python. En er þetta nýlegt menningarfyrirbæri?

 

,,Móðir þín var hamstur!“ Úr Monty Python’s Holy Grail (1975).

Það er orðið sérlega vinsælt í Bandaríkjunum að særa, móðga eða hreinlega grínast í einhverjum með því að vísa í móður hans. Hún er þá ýmist sögð feit, heimsk, siðspillt eða lauslát. Vilji menn ganga langt segjast þeir hafa átt kynferðislegt samræði við hana.

 

Fjallað er um málið í rannsóknargrein frá 1965 í fræðitímaritinu Journal of American Folklore.  Greinin er eftir mannfræðingana Millicent R. Ayoub og Stephen A. Barnett, og ber heitið „Ritualized Verbal Insult in White High School Culture“ (ísl. „Munnlegir móðgunarsiðir í menningu hvítra menntaskólanema“).

 

Lemúrnum þykir sennilegt að menn hafi móðgað hver annan á þennan hátt allt frá grárri forneskju, eða frá þeim degi sem þeir lærðu fyrst að tala en báru jafnframt kærleika í móðurgarð. Heimildir um slíkar munnlegar hefðir eru hins vegar fágætar. Hversu langt aftur fyrirfinnst svona móðgun í rituðum heimildum?

 

Skáldið mikla frá Avon, William Shakespare (1564–1616), er eitt af stórmennum engilsaxneskrar ritmenningar, smiður ótaldra nýyrða og auk þess höfundur með skyngáfu bæði fyrir alþýðlegri kímni og heimspeki efri stéttanna.

 

Í þrjátíu og átta leikritum Shakespeares kemur „mamma þín“-móðgunin tvisvar fyrir. Eftirfarandi brot er úr fyrsta atriðinu í leikritinu Tímon frá Aþenu:

 

Painter: „Y’are a dog.“

Apemantus: „Thy mother‘s of my generation. What’s she, if I be a dog?“

 

Íslenska:

Málari: „Þú ert hundur.“

Apemantus: „Móðir þín er í ætt við mig; hvað er hún, ef ég er hundur?“

 

Auk þess eiga sér stað eftirfarandi orðskipti í 4. hluta leikritsins Titus Andronicus:

 

Demetrius: „Villain, what hast thou done?“

Aaron: „That which thou canst not undo.“

Chiron: „Thou hast undone our mother.“

Aaron: Villain, I have done thy mother.“

 

Íslenska:

Demetríus: „Hvað hefur þú gert, hundur?“

Aron: „Það sem þú aldrei getur steypt í glötun.“

Kíron:  „Í glötun hefur þú steypt móður okkar.“

Aron: „Ég hef steypt mér í móður þína, fífl.“

 

Fátt er nýtt undir sólinni. Ekki er hægt að ætla annað en að mæðramóðganir hafi tíðkast — eða að þær hafi að minnsta kosti verið þekktar — í Englandi í byrjun nýaldar.

 

Íslensk þýðing á þessum línum Shakespeares er að sjálfsögðu eftir Helga Hálfdanarson.