Þeir klæðast heimasaumuðum hermannabuxum og mála skammstöfunina USA með rauðum lit á bera bringuna. Á öxlinni bera þeir rauðmálaða platriffla úr bambusvið. Þeir marsera berfættir í átt að Yasur, stærsta eldfjallinu á eyjaklasanum.

 

Við erum stödd á eyjunni Tanna sem tilheyrir Kyrrahafseyríkinu Vanúatú. 15. febrúar ár hvert þramma eyjarskeggjar undir heimagerðum bandarískum fánum og hylla dularfullan anda, John Frum. Hann er ýmist sagður hvítur eða svartur og birtist í myndskreytingum í bandarískum hermannaklæðum frá seinni heimsstyrjöldinni.

Isaac Wan, leið­togi John Frum-​​hreyfingarinnar, í trúarlegum hermannabúningi sínum. Ein af mögnuðum myndum Romans Kalyakin sem hægt er að skoða með því að klikka á tengilinn hér til vinstri.

 

Hér eru magnaðar myndir frá samkomum á Tanna þar sem John Frum er hylltur.

 

Melanesískir ættflokkar

Eyjaklasinn Vanúatú telur 83 eyjar er liggja norðaustur af Ástralíu og suðaustur af Filippseyjum og Malasíu. Evrópumenn lögðu undir sig eyjarnar seint á nítjándu öld og kölluðu Nýju-Suðureyjar (New-Hebrides). Það olli miklum stakkaskiptum fyrir melanesíska ættflokkasamfélagið er hafði ríkt yfir eyjunum í aldir.

 

Breskir og franskir kristniboðar sigldu til eyjanna og mynduðu stjórn yfir þeim. Þeim þótti ástæða til að banna aldagamlar hefðir frumbyggjanna og þar á meðal trúarhátíðir, dans og fjölkvæni. Auk þess bönnuðu þeir öllum frumbyggjum að taka þátt í stjórn- og dómsmálum.

 

Árið 1930 birtist hins vegar maður úr röðum svörtu frumbyggjanna í kristniboðaþorpinu og lofaði öllum löndum sínum betra lífi í friði frá menningu hvíta fólksins. Margir eyjarskeggjar ákváðu að yfirgefa kristniboðana og fylgdu manninum sem hlaut nafnið John Frum.

 

300 þúsund Kanar

Vanúatú dróst inn í síðari heimsstyrjöldina þegar Bandaríkjamenn hertóku eyjarnar. 300 þúsund hermenn voru á Vanúatú þegar mest var, helmingi fleiri en allir íbúar eyjanna. Bandaríkjamenn lögðu vegi, brýr og flugbrautir á eyjunum. Líkt og á Íslandi bjuggu erlendu hermennirnir í bröggum, sem komu innfædda fólkinu furðulega fyrir sjónir.

 

Ríkidæmi hermannanna var ótrúlegt. Úr lofti skutust kassar úr flugvélunum furðulegu, sem troðfullir voru af fötum, Coca-Cola, vopnum, niðursuðudósum og alls kyns öðrum munaði.

 

Bandarísku hermennirnir reyndust mun betri gestir en kristniboðarnir sem höfðu drottnað yfir eyjarskeggjunum. Það vakti eftirtekt og undrun Vanúatúmanna að þótt flestir hermennirnir væru hvítir að lit, rétt eins og nýlenduherrarnir frá Bretlandi og Frakklandi, voru sumir þeirra svartir á hörund. Þeir svörtu kunnu á tækin og nutu munaðarins rétt eins og þeir hvítu.

 

Bandarískir hermenn innan um pálmatré á Vanúatú í síðari heimsstyrjöldinni.

 

Meira cargo

Á hernámsárum Bandaríkjanna breyttist goðsögnin um John Frum snarlega. Frum var nú bandarískur hermaður og svartur á hörund að flestra mati. Talið var að hann byggi í eldfjallinu Yasur og kæmi einn daginn með fangið fullt af sams konar „cargo“-varningi og bandarísku hermennirnir komu með.

 

Bandaríkjamenn höfðu sig á brott í stríðslok og yfirgáfu braggahverfin sín.

 

Fólkið á Tanna-eyju hafði notið hernámsáranna einna mest og var orðið vant lífsgæðunum sem Könunum fylgdu. Þegar hernáminu lauk hættu að berast birgðir úr lofti og því voru ekki lengur til lyf, raftæki, niðursuðuvörur, sælgæti, kók, þvottavélar og jeppar.

 

Nokkrir ættflokkar á Tanna byrjuðu þá að ákalla John Frum og báðu um meira „cargo“, en orðið höfðu þeir heyrt Bandaríkjamenn nota um varninginn sem barst úr lofti og af láði. Þeir höfðu fylgst með aðferðum hermannanna í stríðinu til þess að kalla á birgðasendingar.

 


View Larger Map

 

Heyrnartól úr viði

Eyjarskeggjarnir reistu nú trúarlega flugvelli með flugstjórnarturnum og loftnetum úr bambusvið. Þeir skáru út talstöðvarheyrnartól úr viði og festu bambusloftnet við. Á hverjum degi stóðu þeir trúuðustu á gerviflugvöllunum með viðarheyrnartólin og gáfu lendingarmerki út í loftið, í þeirri von að flugvélar á himnum myndu varpa birgðum niður til þeirra. Sumir trúa því enn að John Frum muni snúa aftur einn daginn með kynstrin öll af hermannagóssi.

 

BBC ræddi við leiðtoga John Frum-hreyfingarinnar hinn 15. febrúar 2007, Isaac Wan, en þann dag var haldið upp á 70 ára afmæli guðsins. Hann sagði að John Frum væri guð sem einn daginn myndi snúa aftur. „Hann er guðinn okkar, okkar Jesús.“

 

Við sama tækifæri hvíslaði leiðsögumaður á Vanúatú heilræði að fréttamanni BBC. „Ef þú spyrð einhvern heimamann um trúarskoðanir sínar, svarar hann líklega um hæl að þitt fólk hafi beðið eftir endurkomu Messíasar í 2.000 ár á meðan Tanna-fólkið hafi aðeins beðið í 70 ár.“

 

Hér kemur fólkið úr hreyfingunni saman til að hylla John Frum.

 

Varningsdýrkun

Í dag umkringja litlir rauðmálaðir krossar þorp og garða á Tanna-eyju. Þannig tjá margir eyjarskeggjar trúarskoðanir sínar en á hernámsárunum hermdu þeir eftir rauðu krossunum á sjúkrabílum hersins.

 

John Frum-hreyfingin er talin klassískt dæmi um það sem mannfræðingar nefna „varningsdýrkun“ (e. cargo cult) – og varð til í litlum samfélögum á sunnanverðu Kyrrahafinu í síðari heimsstyrjöldinni – þegar bandarískir hermenn birtust skyndilega í hundruð þúsunda tali.

 

Tímarit Smithsonian-stofnunarinnar ræddi við mannfræðinginn Kirk Huffmann sem bjó á Vanúatú í sautján ár. „Varningsdýrkun verður til þegar utanaðkomandi veröldin, með öllum sínum efnislegu gæðum, fellur skyndilega af himnum til afskekktra frumbyggjaþjóða,“ segir Kirk.