Árið 1926 var glæsileg bygging tekin í notkun í Detroit-borg sem nefnist Michigan-byggingin. Að utan lætur húsið ekki mikið yfir sér. Hefðbundinn steinsteypukassi í hefðbundinni stórborg. En saga byggingarinnar er dæmigerð fyrir Detroit-borg, sem nú er gjaldþrota.

 

Að innan var litlu til sparað, þá sérstaklega í anddyrinu, en húsið var byggt í nýendurreisnarstíl.

 

Byggingin telur 13 hæðir og framan af var til húsa í henni Michigan-leikhúsið sem tók 4.050 manns í sæti. En til að koma 4.050 manneskjum fyrir þarf oftast að koma fyrir álíka fjölda af bílum. Kaldhæðni örlaganna kom því þannig fyrir að skortur á bílastæðum gerði það að verkum að rekstur hússins fór í þrot og í dag er búið að rista húsið á hol og breyta því í bílastæðahús, eins og sjá má á myndinni fyrir ofan sem tekin er af Wikipedia.

 

Það sem gerir þessa atburði þó sérstaklega kaldhæðnislega er að húsið var byggt á lóðinni þar sem Henry Ford átti bílskúr og smíðaði í honum sinn fyrsta bíl. Bílarnir sem Ford framleiddi sköpuðu auðinn sem til þurfti til að byggja þetta glæsilega hús, en áður en yfir lauk voru það svo bílarnir sem ruddu því aftur úr vegi.

 

2179089505_c2bf7789e4_o

Byggingin. Mynd frá 1942. Ljósmyndari: Arthur Siegel. Library of Congress.