Síðla árs 1987 var vesturþýska íshokkíliðið ECD Iserlohn á barmi gjaldþrots. Liðið, nefnt eftir heimaborg sinni Iserlohn í Norðurrín-Vestfalíu, hafði átt góðu gengi að fagna undanfarin ár og var orðið eitt af sterkustu liðunum í fyrstu deild. Liður í þessari velgengni voru kaup á snjöllum leikmönnum að utan, sem reyndust aðeins og dýrir og léku fjárhag liðsins grátt.

 

Með gjaldþrot fyrir dyrum greip framkvæmdarstjóri liðsins, Heinz nokkur Weifenbach, til örþrifaráðs. Hann settist upp í flugvél og fór beinustu leið til Trípólí, höfuðborgar einræðisríkisins Líbíu. Og þegar þangað var komið biðlaði hann til æðstu yfirvalda — Múammars Gaddafís sjálfs — um að bjarga íshokkíliðinu hans.

 

Ekki fylgir sögunni hvernig Weifenbach datt í hug að Gaddafí gæti leyst fjárhagsvanda hans. Sjálfur var hann ekki sérstaklega kunnugur Líbíu, sem er eyðimerkurland og íshokkí þar lítið spilað.

 

Gaddafí og „Stóri Heinz“ Weifenbach á góðri stund.

 

En þessi fáránlega hugmynd bar árangur — En Gaddafí tók á móti Weifenbach, og tók svona líka vel í hugmyndina að hann yrði sérstakur stuðningsaðili íshokkíliðs í Vestur-Þýskalandi. Einræðisherrann gaf Weifenbach um níu hundruð þúsund dollara, og aðeins viku síðar skautuðu leikmenn ECD Iserlohn inn á hokkísvellið í nýjum treyjum: framaná þeim voru stórar auglýsingar fyrir ‘Grænu bókina’ eftir Múammar Gaddafí — eða Das Grüne Buch, eins og þetta öndvegisrit um stjórnmálaspeki og skoðanir Gaddafís á hinu og þessu, nefnist á þýsku.

 

Búningar leikmanna vöktu samstundis skandal, enda bannaði vesturþýska íshokkísambandið pólitískar auglýsingar. Að auki voru líbísk stjórnvöld ekki sérstaklega vinsæl í Vestur-Þýskalandi þessi misserin — árið áður, 1986, hafði líbíska leyniþjónustan sprengt skemmtistað í Vestur-Berlín í loft upp með þeim afleiðingum að þrír gestir létust og meira en 200 manns til viðbótar særðust. Og nú var Gaddafí búinn að kaupa vesturþýskt íshokkífélag?

 

Önnur tveggja Grænubókartreyja ECD Iserlohn sem hafa varðveist.

 

Forsvarsmenn ECD Iserlohn neituðu því að auglýsingin á treyjum liðsmanna væri pólitísk. Gaddafí þessi væri bara “rithöfundur”, sagði Weifenbach, sem ákveðið hefði að styrkja liðið. Vesturþýska íshokkísambandið tók þessa skýringu ekki gilda (Ætli hafi verið mikið um það að rithöfundar auglýsi bækur sínar á íshokkítreyjum?). ECD Iserlohn var loks lagt niður og tekið til gjaldþrotaskipta. Í borginni Iserlohn spilar nú íshokkíliðið Iserlohn Roosters.

 

Heinz Weifenbach kom hinsvegar svo vel saman við Gaddafí að þegar skandalinn var afstaðinn fór hann í aðra heimsókn til Líbíu, og voru það miklir fagnaðarfundir. Hann stofnaði síðar útgáfufélag sem gaf út speki Gaddafís á þýsku.

 

Vinirnir.