Einn magnaðasti sálarslagari poppsögunnar varð til fyrir algera slysni, eins og reyndar margt af því besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Kornfleks, kartöfluflögur, pensilín og post-it miðar, já allt varð þetta til fyrir slysni – og það sama má segja um sálarslagarann „Hold On, I’m Comin‘,“ lag sem þeir félagar Sam og Dave gerðu ódauðlegt árið 1966.

 

Höfundar lagsins voru þeir David Porter og Isaac Hayes. Tvíeykið starfaði fyrir Stax-plötufyrirtækið í Memphis, sem gekk iðulega undir nafninu Soulsville USA, til að aðgreina sig frá keppinauti sínum í Detroit, Motown Records, sem gekk undir nafninu Hitsville USA.

 

stax

Stax-upptökuverið hafði áður verið kvikmyndahús. Salnum var breytt í upptökuver árið 1959. Í dag má þar finna „Stax Museum of American Soul Music.“

 

Porter og Hayes voru upptökustjórar og lagahöfundar sem bjuggu svo að segja í upptökuveri Stax. Yfir daginn skemmtu þeir sér á Lorraine-hótelinu goðsagankennda (þar sem Martin Luther King var myrtur í apríl 1968) en á næturna unnu þeir baki brotnu, á milli þess sem þeir gæddu sér á áfengi og steiktum kjúklingi.

 

Eitt kvöldið gekk illa að semja lag og var Hayes orðinn mjög óþreyjufullur. Ekki síst vegna þess að Porter var búinn að vera á salerninu heillengi og virtist ekkert á leiðinni fram. Hayes kallaði inn á salernið „Hurry up man!“ óþolinmóður og pirraður. Porter reyndi að róa félaga sinn á meðan hann kláraði það sem klára þurfti á salerninu, og kallaði til baka: „Hold on man, I’m comin.“

 

Það var eins og kviknað hefði á ljósaperu við höfuð Porters. Um leið og hann hafði girt upp um sig hljóp hann til Hayes og lagið varð til á stundinni.

 

Hayes og Porter á góðri stund.

Hayes og Porter á góðri stund.

 

Ekki skemmdi flutningurinn fyrir, en það voru þeir Samuel Moore og Dave Prater, betur þekktir sem Sam og Dave, sem fengu að flytja lagið. Lagið komst að lokum í 21. sæti Billboard listans, sem þótti mjög gott miðað við sálarlag, en fór að sjálfsögðu beint í efsta sæti Billboard R&B listans.

 

Hér má sjá eina mögnuðustu útgáfu af laginu, frá Evróputúr Stax-listamanna. Húsband Stax, Booker T & The MG’s, sjá um hljóðfæraleik af stakri snilld, eins og þeim einum var lagið. Tékkið á dans-múvunum hjá þeim Sam og Dave. Þvílíkir meistarar!

 

Vídjó