Eyja með hvítum sandi og pálmatrjám eru ekki náttúruleg heimkynni Ómars Ragnarssonar. En hvernig má vera að texti eftir hann rataði á plötu hljómsveitar frá Bermúdaeyjum í miðju Bítlaæðinu? Flugvélin TF Frú og Bermúda-þríhyrningurinn koma reyndar ekki við sögu.

 

Byrjum á byrjuninni:

 

Bítlarnir ruddu veginn en í kjölfar þeirra slógu The Rolling Stones í gegn. Hvíta millistéttin í Bandaríkjunum uppgötvaði loks tónlist svörtu fátækrahverfanna, R&B tónlist. Bílskúrar um allan heim fylltust af unglingsstrákum sem höfðu eytt vasapeningnum í hljóðfæri, támjóa skó með kúbönskum hæl, þröngar gallabuxur, aðsniðna jakka en spöruðu á móti tíma hjá rakaranum og söfnuðu hári.

 

Þessi bílskúrssena fékk ekki tíma til að slípast og þjálfa spilamennskuna á næturklúbbum Hamborgar eða Lundúna og var því hrárri en fyrirmyndirnar. Söngurinn varð stundum grófari en hjá Jagger og gítarleikurinn bjagaðri en hjá Richards. Sumum tókst meira að segja að verða svalari en Brian Jones.

 

Örfá bílskúrsbönd náðu þó einhverjum árangri. Sum náðu að vinna hæfileikakeppni í heimabænum og nutu hylli í nágrenninu, önnur náðu vinsældum um allt heimaríkið og einstaka hljómsveit að koma lagi inn á vinsældalista sem náðu yfir öll Bandaríkin.

The Savages, villimennirnir, var vinsælasta bílskúrsbandið á Bermúdaeyjum.

 

Í dag er talað um garage rock um amerísku senuna sem reyndar má skipta niður í næstum óteljandi undirflokka, freakbeat um þá bresku, nederbeat um þá hollensku og lengi mætti telja.

 

Hér á Íslandi voru það hinir íslensku Bítlar, Hljómar frá Keflavík, sem ríktu yfir senunni en úr bílskúrum mátti líka heyra í Tempó frá Reykjavík sem meðal annars hitaði upp fyrir The Kinks ásamt Bravó.

 

Á Bermúdaeyjum nefndust „Hljómar“ staðarins The Savages. Þeir nutu góðs af ferðamennsku amerískra háskólanema og höfðu vel upp úr spilamennsku fyrir þá. Járnið var hamrað á meðan það var heitt og var skellt í plötu sem var tekin upp „live“ fyrir framan áhorfendur þann 6. febrúar 1966.

 

Platan sem ber heitið Live’n’Wild er ekki aðeins merkileg vegna fágætis heldur líka vegna tengingu við Hljóma frá Keflavík.

 

Því annað lag annarrar hliðar plötunnar ber nafnið He’s a man en höfundar þess eru titlaðir Ómar Ragnarsson og Gunnar Þórðarson. Þar er á ferðinni cover af laginu Ertu með? af EP plötu Hljóma samnefndri hljómsveitinni frá 1965. Gunnar hafði samið lagið en Ómar textann. Thor’s Hammer, útflutningsarmur Hljóma tók síðan sitt eigið cover á ensku undir heitinu If You Knew í maí 1966.

 

Vídjó

The Savages – He’s a man. Texti: Ómar Ragnarsson. Lag: Gunnar Þórðarson.

 

Þetta er lítill heimur og hefur minnkað töluvert með tilkomu netsins. Íslenskir tónlistarmenn sem gefa út tónlist sína í dag geta átt von á því að lagið þeirra verði sett á Youtube af aðdáendum í Belgíu í dag og á morgun hafi áhorfandi á Indlandi tekið upp sína útgáfu og sett inn á netið.

 

En hvernig kom það til að þetta lag Hljóma ferðaðist til Bermúdaeyja? Svarið er að það má sennilega finna Íslending alls staðar í heiminum.

 

Umboðsmaður sveitarinnar var Íslendingurinn Bev Welsh sem hafði Hljómaplötuna í farteskinu, spilaði hana fyrir The Savages og bað þá um að taka lagið upp.

 

Vídjó

Thor’s Hammer – If You Knew.