Það er eitthvað óútskýranlega svalt við lagið „Sally Go ‘Round the Roses“ með The Jaynetts. Lagið, sem sló í gegn árið 1963 og komst alla leið í 2. sæti Billboard vinsældalistans, hafði líka ómæld áhrif á þróun popptónlistar. Þá ekki síst í þróun upptökutækni, en það gæti vel verið að það hafi einungis verið fyrir slysni.

BlablablabBlablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab BlablablabBlablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab Blablablab

 

Vídjó

 

Abner Spector hét maður, þó ekkert skyldur hinum snargeðveika Phil Spector. Abner átti það þó sameiginlegt með Phil, að vera ekkert sérstaklega nettur gaur. Hann starfaði í tónlistarbransanum við að finna unga efnilega listamenn, framan af hjá hinni goðsagnakenndu Chess plötuútgáfu í Chicago.

 

Spector sá sér leik á borði árið 1963 þar sem hann þóttist hafa orðið var við nýja bylgju vinsælla laga sem áttu það sammerkt að vera flutt af ungum stúlkum eða stúlknasveitum. Ekki furða, á árunum 1961-1963 komust lög í efsta sæti Billboard á borð við „Please, Mr. Postman“ með The Marvelettes, „Soldier Boy“ með The Shirelles, „The Locomotion“ með Little Eva, „He’s a Rebel“ með The Crystals og „He’s So Fine“ með The Chiffons.

 

Zelma Sanders. Eina myndin af henni sem internetið hefur upp á að bjóða.

Zelma Sanders. Eina myndin af henni sem internetið hefur upp á að bjóða.

Spector ætlaði sér að fá bita af þessari stóru seðlaköku sem stúlknasveitirnar voru að framreiða. Hann flutti sig til New York og stofnaði nýtt fyrirtæki, Tuff Records. Hann hafði því næst samband við Zelmu Sanders, kjarnakonu úr Harlem sem hafði fram að því átt brokkgengan feril sem bæði umboðskona fyrir söngkonur frá Bronx og Harlem, auk þess sem hún hafði sjálf fiktað við lagasmíðar.

 

Það var einmitt Sanders sem samdi lagið „Sally Go ‘Round the Roses“ og byggði það að einhverju leyti á bandarískri barnagælu, „Ring Around the Rosie.“

 

Spector setti sig næst í samband við Artie Butler, sæmilega þekktan „session“-píanista og útsetjara og bað hann að renna yfir lagið. Butler leist ágætlega á, en kvaðst nauðsynlega þurfa góðar söngkonur til að flytja lagið.

 

 

the_jaynetts

Á umslagi smáskífunnar voru aðeins þrjár stúlkur. Á upptökunni máttir heyra raddir að minnsta kosti 10 stúlkna!

 

Kom þá aftur að Zelmu Sanders. Sendi hún í hljóðverið nær allar stúlkur sem hún hafði á sínum snærum til að taka upp lagið. Raddirnar á upptökunni eru að mestu leyti frá fimm stúlkum, þeim Yvonna Bushnell, Ethel Davis, Ada Ray Kelly, Johnnie Louise Richardson og Mary Sue Wells (ekki sama Mary Wells og sló í gegn hjá Motown). Fengu þær því nafnið The Jaynetts, þótt að umslag smáskífunnar hafi einungis sýnt þrjár stúlkur af fimm!

 

 

En söngkonurnar voru miklu fleiri. Vitað er um að minnsta kosti fimm stúlkum til viðbótar sem sungu inn á upptökuna. Sagan segir reyndar, að öllum stúlkum sem gátu sungið í Bronx-hverfi New York-borgar hafi verið beint til Artie Butler sem tók upp rödd yfir rödd yfir rödd yfir rödd… uns hann fann hljóminn sem hann hafði leitað að. Sjálfur spilaði Butler á öll hljóðfærin, þótt önnur saga segi að Buddy Miles, sá hinn sami og spilaði síðar með Jimi Hendrix í Band of Gypsies, hafi séð um að berja trommurnar.

 

Eftir að Butler kláraði lagið leyfði hann Spector að heyra afraksturinn. Viðbrögðin voru ekki góð. Upptökurnar, sem höfðu staðið yfir í heila viku (ótrúlegur tími fyrir eina smáskífu á þeim tíma), höfðu kostað um 60 þúsund dollara. Spector trylltist, og var viss um að peningarnir hefðu farið í vaskinn. Eða… allt þangað til hann heyrði að Jerry Leiber og Mike Stoller, sem sömdu lög á borð við Hound Dog og Stand By Me, höfðu áhuga á að kaupa réttinn af laginu. Já, þá fattaði Spector að hann væri með eitthvað í höndunum.

Artie Butler með Louis Armstrong þegar hinn fyrrnefndi útsetti lagið „What a Wonderful World.“

Artie Butler með Louis Armstrong þegar hinn fyrrnefndi útsetti lagið „What a Wonderful World.“

 

Eins og áður segir sló lagið í gegn og komst í 2. sæti Billboard-listans. Það er reyndar athyglisvert, að lagið fékk fyrst umtalsverða spilun í hippaborginni San Francisco. Síðar sagði sýruprinsessan Grace Slick, þekktust fyrir að syngja lög á borð við „White Rabbit“ og „Somebody To Love“, að lagið „Sally Go ‘Round the Roses“ hefði hvorki meira né minna en skapað San Francisco-hljóminn.

 

 

En já, af hverju var Abner Spector ekkert sérstaklega merkilegur gaur? Tja… hann tók heiðurinn af því að hafa samið lagið og stjórnað upptökum – þrátt fyrir að hafa átt lítinn sem engan þátt í gerð lagsins. Artie Butler fékk greitt fyrir vinnuna í upptökuverinu, en ekkert meir. Zelma Sanders sömuleiðis… og má jafnvel telja líklegt að hún hafi fengið jafnvel enn minna greitt. Svo ekki sé minnst á söngkonurnar fimm. Eða 10. Eða 20. Eða 40?

 

Abner Spector lést árið 2010. Hann var 93 ára að aldri.