Franski stórleikarinn Gerard Depardieu er orðinn Rússi, eins og varla hefur farið framhjá mörgum. Í bréfi sem Depardieu skrifaði rússneska ríkissjónvarpinu eftir að honum var veittur ríkisborgararéttur sagðist Depardieu „elska Vladimír Pútín forseta mjög mikið“, og að þessar tilfinningar hans væru gagnkvæmar.

 

Vafalaust. Rússar elska Depardieu, sem hér að ofan sést í hlutverki rússneska munksins Raspútíns í franskri sjónvarpsmynd, og Depardieu elskar vafasama þjóðarleiðtoga — hann var góður vinur Fídels Castró Kúbuleiðtoga, þeir eru víst báðir mikið fyrir kæfu.

 

Og Pútín er ekki eini valdhafinn í austri sem Depardieu er hrifinn af. Í október í fyrra var leikarinn heiðursgestur í stórfenglegri afmælisveislu Ramzan Kadyrovs, forseta rússneska sjálfstjórnarlýðveldisins Téténíu. Leikarinn fór upp á svip og hrópaði „Dýrð sé Grosní! Dýrð sé Téténíu! Dýrð sé Ramzan Kadyrov!“ af mikilli innlifun.

 

 

Ramzan Kadyrov.

Kadyrov er umdeildur maður, fyrrum uppreisnarmaður sem gerðist hliðhollur Kreml og hefur komið sér þægilega fyrir í forsetastól Téténíu. Mannréttindasamtök saka stjórn hans um ótal mannréttindabrot og spillingu.

 

(Annars heldur Kadyrov helst ekki upp á afmælið sitt nema að borga einhverjum Hollywood-stjörnum að sitja við hlið hans. Árið 2011 komust Hilary Swank og Jean-Claude Van Damme í klandur fyrir að hafa mætt í partíið og eflaust þegið formúu fyrir.)

 

Að launum hefur Kadyrov nú boðið nýslegna Rússanum Depardieu að setjast að í Grosní. Depardieu hefur sjálfur sagst vilja frekar setjast að í einhverju þorpi en í Moskvu, sem sé of stór. Kannski Grosní, íbúafjöldi um 270.000 og ört að ná sér eftir stríðshrylling tíunda áratugarins, sé ágætis meðalvegur? Lemúrinn getur altjént bent leikaranum á bestu verslunarmiðstöðvar og snyrtistofur borgarinnar.

 

Hinn víðförli Depardieu er líka kunnugur málum í Úsbekistan. Hann er allavega góður vinur hennar Gulnöru Karimovu, elstu dóttur Íslams Karimov, forseta landsins. Karimov hefur verið forseti Úsbekistan frá árinu 1990, þegar landið klauf sig frá Sovétríkjunum. Fyrir þann dag var hann aðalritari úsbekska Sovétlýðveldisins.

 

Gulnara Karimova.

Karimov er forhertur einræðisherra sem alþjóðleg mannréttindasamtök hafa sakað um alla mögulega glæpi — meðal annars barnaþrælkun, pyntingar og fjöldamorð á andófsmönnum.

 

Dóttir hans, Gulnara, hefur líka fengist við ýmislegt. Hún var eitt sinn fastafulltrúi Úsbekistans í Sameinuðu þjóðunum og sendiherra á Spáni. Þá stjórnar hún miklu viðskiptaveldi og er vafalaust ein ríkasta manneskja landsins. Viðskiptaveldið er hún talin hafa byggt upp með ansi vafasömum leiðum. Í skrifum bandarískra sendifulltrúa sem Wikileaks komust yfir er Gulnöru lýst sem „hötuðustu manneskjunni í Úsbekistan“.

 

Hún virðist þó láta það lítið á sig fá. Gulnara er líka tískuhönnuður, og svo poppstjarna og gengur þá undir listamannsnafninu Googoosha. Hér kemur vinur okkar Depardieu aftur til sögunnar, en í byrjun desember í fyrra gaf Googoosha út nýtt lag, Nebo molchit, sem er hvorki meira né minna en dúett með leikaranum fræga. Hún syngur lyftulega tóna á rússnesku og svo birtist Gerard og fer með texta á frönsku. Þetta eru Serge Gainsbourg og Jane Birkin okkar daga:

 

Vídjó

 

Samstarf þeirra mun halda áfram, því Depardieu hefur líka tekið að sér hlutverk úsbekskri kvikmynd, Þjófnaður hvíta lirfuhýðisins, sem gerist á silkiveginum í Mið-Asíu á sjöttu öld. Hin fjölhæfa Gulnara Karimova skrifar handrit. Spennandi.

 

Gulnara og Gerard á góðri stundu.