Kadir Nurman, sem gekk lengi vel undir gælunafninu „Papa des Döners“ er látinn, 80 ára að aldri. Líklega eru ekki margir sem kannast við nafn Nurmans, en þrátt fyrir það má fullyrða að hann hafi verið einn áhrifamesti einstaklingur sinnar kynslóðar. Eins og gælunafnið gefur til kynna var Nurman talinn vera höfundur réttarins döner kebap, sem er umdeilanlega vinsælasti skyndibiti í Evrópu í dag.

 

Döner kebap er talinn til tyrkneska eldhússins. Það kemur því mörgum á óvart að heyra að rétturinn var í raun ekki fundinn upp í Istanbúl eða Ankara, döner kebap var nefnilega fundinn upp í Vestur-Berlín í upphafi 8. áratugs síðustu aldar.

 

Á 6. og 7. áratug síðustu aldar fluttu fjölmargir Tyrkir til Þýskalands til að taka þátt í þýska efnahagsundrinu svokallaða. Hagvöxtur var mikill í Þýskalandi þrátt fyrir að landið hafði skömmu áður verið í rjúkandi rúst eftir heimstyrjöldina síðari. En með miklum dugnaði (og böns af pening Marshall-aðstoðar) réttu Þjóðverjar úr kútnum – svo mikið að þeir þurftu á aðstoð að halda til að fylla öll störf sem voru í boði við enduruppbyggingu og í blómstrandi iðnaði.

 

Kadir Nurman var einn þessarra Tyrkja. Hann flutti fyrst til Stuttgart árið 1960 en fluttist þaðan til Vestur-Berlínar árið 1966 til að starfa í byggingariðnaði. Árið 1972 ákvað hann að opna það sem Þjóðverjar kalla Imbiss (í stuttu máli skúr með lúgu þar sem hægt er að selja mat) rétt við dýragarðinn í miðbæ Vestur-Berlínar.

 

Kadir Nurman. Síðustu ár ævi sinnar þurfti hann að lifa á ellilífeyri sem var aðeins 395 evrur á mánuði.

Kadir Nurman. Síðustu ár ævi sinnar þurfti hann að lifa á ellilífeyri sem var aðeins 395 evrur á mánuði.

 

Nurman fannst vanta rétt sem hægt væri að borða í flýti, enda tók hann eftir því að Þjóðverjar voru yfirleitt mjög önnum kafnir og ætíð á hraðferð. Honum datt í hug að taka dönerkjöt, sem er einfaldlega kjöt sem er grillað á teini, og skella því í flatbrauð (Fladenbrot) og bæta við lauk.

 

Reyndar fer tvennum sögum um uppruna dönersins í Berlín. Önnur saga segir að Mehmet Aygun hafi verið höfundurinn, en hann rak veitingastaðinn Hasir rétt við Kottbusser Tor í Kreuzberg. Aygun lést árið 2011, 87 ára að aldri, en veitingastaðurinn Hasir lifir enn góðu lífi. Útgáfa Aygun, sem átti einnig að hafa litið dagsins ljós árið 1972, er talsvert líkari þeirri útgáfu döners sem þekkist í dag. Dönerkjöt, salat, laukur, tómatar, ferskt rauð-og hvítkál og loks er mæjónesblandaðri jógúrtsósu með hvítlauk hellt yfir allt saman. Rétt er að taka fram, að Samband tyrkneskra dönerkjötframleiðenda í Evrópu (Verein Türkischer Dönerhersteller in Europa) viðurkennir þó Nurman sem faðir dönersins.

 

Hasir Restaurant við Kottbusser Tor í Kreuzberg í Berlín. Þar er enn hægt að fá döner kebap.

Hasir Restaurant við Kottbusser Tor í Kreuzberg í Berlín. Þar er enn hægt að fá döner kebap.

 

Í dag er dönerbransinn risavaxinn. Á þýska málsvæðinu er hann stærri en McDonalds og Burger King til samans. Í Þýskalandi einu eru rúmlega 16 þúsund sölustaðir fyrir döner kebap, þar af yfir 1000 einungis í Berlín. Daglega seljast um 200-300 tonn af dönerkjöti og talið er að iðnaðurinn allur velti um 3,5 milljörðum evra á ársgrundvelli.

 

Og af hverju ekki? Þessi matur er auðvitað fullkominn. Allt litróf matarlystisemda í einum kvartbúti af flatbrauði. Fæðuhringurinn mættur. Fullt af bragðmiklu grilluðu kjöti, fersku grænmeti og hollri og ferskri jógúrtsósu. Tala ekki um þegar hægt er að bæta við smá sumac og chiliflögum. Og verðið? Nurman ætti auðvitað að fá Nóbelsverðlaun fyrir að hafa búið til rétt sem hefur veitt kynslóðum ungmenna stöðuga næringu fyrir ekki meira en 2 – 3,50 evrur fyrir máltíðina. Ímyndið ykkur að fá heila máltíð á Íslandi fyrir 330 krónur!

 

doner_berlin

Týpískur Berlínardöner. Uppfullur af öllu því besta sem lífið hefur upp á að bjóða.

 

Reyndar var Kadir Nurman sjálfur ekkert ánægður með þróun dönersins, þegar hann var spurður um málið í þætti Frankfurter Rundschau árið 2011. Nurman kvaðst vera nokkuð sár, að hann hafi aldrei hlotið þá frægð og þann frama sem hann taldi sig eiga inni. „Hver hefði trúað því að dönerinn ætti eftir að verða svona stór? Hefði ég vitað það þá hefði ég fengið einkaleyfi. Þá væri ég milljónamæringur í dag,“ sagði Nurman við það tækifæri.

 

Þar að auki sagðist hann löngu hættur að borða döner kebap. Rétturinn væri honum ekki lengur að skapi, þar sem það væri búið að menga hann með of mörgum innihaldsefnum. Kjöt og laukur í brauði, var nóg fyrir Nurman.