Í janúar 1952 lést í embætti Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands.

 

Fyrstu forsetakosningar Íslandssögunnar fóru því fram vorið það ár. (En Sveinn hafði verið kjörinn af Alþingi við lýðveldisstofnun og þjóðkjörinn án atkvæðagreiðslu 1945 og 1949.)

 

Og eins og alltaf var það í fyrstu alls óvíst hver myndi verða næsti forseti. Fjölmargir voru nefndir sem forsetaefni, rétt eins og núna árið 2012.

 

Penninn „Ajax“ skrifaði mjög skemmtilega greiningu um þessar spekúlasjónir í Mánudagsblaðið í febrúar 1952.

 

Orðræðan og stemningin er ansi kunnugleg. Einn var of gamall, annar talaði engin tungumál, hinn var í ónáð Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknar. Og gamlar konur voru sagðar vilja biskupinn á Bessastaði og kommúnistar Halldór Kiljan.

 

Ýmist voru nefndir pólitískir eða ópólitískir frambjóðendur. En engin kona var þó nefnd til sögunnar og virðist á þessum tímapunkti langt í land að Íslendingar gætu hugsað sér að kona gegndi embættinu.

 

Svo fór að Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn, með miklum naumindum, annar forseti Íslands hinn 29. júní 1952, „gegn vilja og valdi forystumanna tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins [Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks]“ . Keppinautar hans voru Bjarni Jónsson og Gísli Sveinsson.

 

FORSETAEFNIN

 

Nú er mjög um það rætt manna á meðal, hver verði næsti forseti Íslands, og meðal stjórnmálamanna munu þegar vera hafnir klíkufundir um þetta.

 

Fjölda manna hefur borið á góma sem líkleg forsetaefni, og ekki er að efa, að þeir Íslendingar skipta hundruðum, sem hafa látið sér detta í hug, að þeir muni hljóta hnossið.

 

Í stórum dráttum má skipta þessum forsetaefnum í tvo aðalflokka, stjórnmálamenn og menn, sem lítil eða engin skipti hafa haft af stjórnmálum.

 

Í fyrra flokknum eru flestir þeir menn, sem aðgangsharðastir eru í baráttunni um embættið.

 

Ef forsetakosningin verður pólitísk, en á því eru nú því miður allar horfur, er eftir að vita, hvort samkomulag tekst milli tveggja eða fleiri flokka um forsetaefni, eða hvort hver flokkur býður fram fyrir sig.

 

Sjálfsagt verða einhverjar tilraunir gerðar til sambræðslu, hvernig sem þær takast.

 

Ef svo fer, að hver flokkur býður fram sitt forsetaefni, má telja víst, að frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins yrði kosinn.

 

Hörðustu flokksmennirnir í Sjálfstæðisflokknum eru þess líka mjög fýsandi, að flokkurinn neyti hér aflsmunar.

„Talið er, að Gísli Sveinsson muni þess ekki ófús að takast vandann á hendur. Þó er heldur ólíklegt, að hann verði fyrir valinu.“

 

Fleiri munu þó þeir Sjálfstæðismenn vera, sem vilja reyna að ná um þetta einhverju samkomulagi við Framsóknarflokkinn eða Alþýðuflokkinn.

 

Í Sjálfstæðisflokknum er margt manna sem líta hýru auga til forsetaembættisins.

 

Talið er, að Gísli Sveinsson muni þess ekki ófús að takast vandann á hendur. Þó er heldur ólíklegt, að hann verði fyrir valinu.

 

Veldur því meðal annars aldur hans, en Gísli er kominn á áttræðisaldur, þótt hann sé enn hinn sprækasti.

 

Flest bendir til þess, að Gísli eigi ekki ýkja mikið fylgi, jafnvel ekki í Sjálfstæðisflokknum.

 

Þó gæti svo farið, að hann yrði eins konar þrautalending ef ekki næst samkomulag um önnur forsetaefni.

 

Gísli er líka einn af þeim Sjálfstæðismönnum sem Framsóknarmenn fella sig hvað bezt við.

 

Annar Sjálfstæðismaður, sem ekki mundi banda hendinni gegn forsetaembættinu, er Jón Pálmason.

 

Jón kann vel að meta mannaforráð og þessa heims gæði, og er þetta ekki sagt honum til lasts.

 

„Jón Pálmason er typa, sem oftast hefur verið vinsæl af Íslendingum, hinn hreyfi, smároggni, hagmælti stórbóndi. Hressilegur í fasi og vörpulegur á velli.“

Margt er vel um Jón, hann er hressilegur í fasi og vörpulegur á velli.

 

Sem forseti sameinaðs þings hefur hann marga kosti. Jón er typa, sem oftast hefur verið vinsæl af Íslendingum, hinn hreyfi, smároggni, hagmælti stórbóndi.

 

En þótt þessir kostir njóti sín vel í alþingisforsetaembættinu, er ég ekki viss um, að svo yrði í embætti forseta Íslands.

 

Tungumálakunnátta hans er líka af svo skornum skammti, að það mundi gera honum mjög óhægt um vik í slíku embætti.

 

Æskilegast væri, að forseti Íslands gæti lýtalítið talað Norðurlandamálin, ensku og frönsku, og það virðist lágmarkskrafa, að hann geti talað eitt heimsmálanna.

 

Að vísu er það kannske ekki óhugsandi, að forsetinn gæti haft túlk, er hann ræddi við útlendinga, en heldur væri það lágkúrulegt.

 

Jón Pálmason hefur einnig þann ókost, að mjög er ólíklegt, að Framsóknarmenn fengjust til að styðja hann.

 

Hann hefur gengið meir í berhögg við Framsóknarflokkinn en flestir aðrir Sjálfstæðismenn, og til fárra Sjálfstæðismanna bera Framsóknarmenn jafn þungan hug og Jóns.

 

Margir Sjálfstæðismenn mundu vilja styðja Ólaf Thors til forsetatignar. En það er talið ósennilegt, að Ólafur gefi kost á sér. Sennilega unir hann sér betur í ráðherrasæti en í forsetastól.

 

Sá Sjálfstæðismaður, sem mestar líkur hefur til að verða forseti, er Thor Thors. Sumir ætla einnig, að hann sé ekki með öllu ófús til þess, sé farinn að þreytast á sendiherrastörfunum.

 

Hins vegar hefur Thor aflað sér svo mikillar reynslu og álits í alþjóðamálum, einkum á vettvangi sameinuðu þjóðanna, að maður í hans stað mundi verða vandfundinn.

„Thor Thors væri mjög fram­bæri­legur for­seti, ef ekki væri hin póli­tíska for­tíð hans.“

 

Annars er alls ekki óhugsandi að Framsóknarmenn og Alþýðuflokksmenn fengjust til að styðja Thor til forsetatignar.

 

Hann hefur einnig þann kost að hafa ekki tekið virkan þátt í íslenzkum stjórnmálum í meira en áratug.

 

Thor væri líka mjög frambærilegur forseti, ef ekki væri hin pólitíska fortíð hans.

 

Úr hópi Framsóknarmanna hafa ýmsir verið nefndir.

 

Einn þeirra er Steingrímur Steinþórsson, forsætisráðherra.

 

Ekki er óhugsandi, að Sjálfstæðismenn fengjust til að styðja hann.

 

Hins vegar er talið óvíst, að Steingrímur hafi mikinn hug á forsetaembættinu.

 

Svipað er að segja um þá Pálma Hannesson og Bjarna Ásgeirsson, sem einnig hafa verið til nefndir.

 

En einn er sá Framsóknarmaður, sem mundi taka við embættinu báðum höndum, ef hann ætti þess kost.

 

Það er Vilhjálmur Þór. En Vilhjálmur er ekki vinsæll maður, og sterk öfl í Framsóknar- og Sjálfstæðisfl mundu verða á móti honum.

 

Möguleikar Vilhjálms virðast ekki miklir.

 

Þó má ekki gleyma því, að hann á um sig harðsnúna klíku, sem trúir á hann í blindni sem ofurmenni.

 

En Vilhjálmur á líka fleiri óvini en flestir aðrir Íslendingar.

 

 

Einn er sá maður, sem heyrzt hefur nefndur sem forsetaefni, bæði í gamni og alvöru. Það er Jónas Jónsson frá Hriflu.

 

Jónas frá Hriflu. „Svo sagði mér danskur stjórnmálamaður, að þrír væru þeir íslenzkir ráðherrar, sem í mestum metum hefðu verið við dönsku hirðina sökum fágaðrar framkomu og konversationsgáfu, þeir Hannes Hafstein, Sigurður Eggerz og Jónas Jónsson.“

Við lýðveldisstofnunina 1944 hefur Jónas kannske látið sér detta forsetatignina í hug, en nú er hann sjálfsagt hættur öllu slíku.

 

Jónas hefur haft ýmsa skapbresti sem stjórnmálamaður, en hann mundi hafa marga kosti sem forseti, ef hann gæti þá hætt öllu pólitísku brölti.

 

Hann er tungumálamaður góður, hefur víða farið og kann vel að umgangast höfðingja.

 

Svo sagði mér danskur stjórnmálamaður, að þrír væru þeir íslenzkir ráðherrar, sem í mestum metum hefðu verið við dönsku hirðina sökum fágaðrar framkomu og konversationsgáfu, þeir Hannes Hafstein, Sigurður Eggerz og Jónas Jónsson.

 

Af Alþýðuflokksmönnum er aðeins rætt um einn mann að ráði, Ásgeir Ásgeirsson.

 

Að líkindum mundi nokkur hluti Sjálfstæðisflokksins vera fús til að styðja Ásgeir, en hann á þar þó einnig andstæðinga.

 

Og Framsóknarmenn mundu verða tregir til að styðja Ásgeir, sem þeim hefur verið meinilla við, allt frá því, að hann gekk úr flokki þeirra.

 

Þó kann að vera, að sumir Framsóknarmenn. hafi það í huga, að þeir mundu að öllum líkindum vinna Vestur Ísafjarðarsýslu, ef Ásgeir drægi sig út úr stjórnmálum.

 

Að öllu athuguðu er það ekki óhugsandi, að Ásgeir geti orðið forseti.

 

„Framsóknarmenn mundu verða tregir til að styðja Ásgeir, sem þeim hefur verið meinilla við, allt frá því, að hann gekk úr flokki þeirra.“

Kommúnistar bjóða að öllum líkindum fram, ef í kjöri verður stjórnmálamaður úr hinum flokkunum.

 

Við þau skilyrði mundu þeir hafa ýmis tromp á hendinni. Meðal andstæðinganna mundi líklega alltaf verða einhver óánægja með forsetaefnið eða forsetaefnin, en kommúnistar eru kunnir að því að halda alltaf öllu fylgi sínu til haga, og þeir mundu kannske fá einhvern slæðing af óánægðum flokksleysingjum í lið með sér.

 

Meðal kommúnista er aðallega rætt um tvo frambjóðendur, Halldór Kiljan Laxness og Einar Olgeirsson.

 

Margir telja þó hæpið að Kiljan mundi vilja vera í kjöri. Hann kvað um þessar mundir vera mjög að hugsa um bókmenntaverðlaun Nobels, og sennilega mundi framboð fyrir kommúnista heldur spilla fyrir honum á þeim vettvangi.

 

Það er nátúrlega engin hætta á því, að frambjóðandi kommúnista yrði kjörinn forseti, en þó er ekki að leyna, að Kiljan mundi kunna betur að representera en margir aðrir.

 

Sagt er að fáir eða engir Íslendingar séu eins vel að sér í hárfínum etikettuspursmálum og hann.

 

Ef Kiljan fæst ekki í framboð, er sennilegast, að kommúnistar bjóði Einar Olgeirsson fram.

 

 

Þá skulum við líta dálítið á ópólitísku forsetaefnin, sem nefnd hafa verið.

 

Þar hefur mest verið rætt um Sigurð Nordal.

 

Sumir þykjast hafa fyrir satt, að skipun hans í sendiherraembættið í Kaupmannahöfn hafi verið forleikur að því að gera hann að forseta, en þetta er áreiðanlega tilhæfulaust.

 

Flestir íslenzkir stjórnmálamenn eru algerlega á móti því að fá hann í forsetaembættið, því að þeir vilja ekki ópólitíska forseta.

 

Þeir halda því líka fram að hann hafi lítið vit á stjórnmálum og atvinnumálum.

 

Hins vegar efast enginn um, að Nordal kunni manna bezt að umgangast útlenda höfðingja.

 

Stungið hefur verið upp á fjölda mörgum öðrum forsetaefnum.

 

Einn er Jón Ásbjörnsson, núverandi forseti Hæstaréttar og því einn af handhöfum forsetavalds. Jón er að líkindum bezt innrættur maður allra núlifandi Íslendinga, heiðursmaður, sem ekki má vamm sitt vita í stóru né smáu.

 

Jón Ásbjörnsson, forseti Hæstaréttar. „Hann er látlaus og lítillátur, laus við allar ambitionir, hljóðlát sál, sem lifir innan um bækurnar sínar.“

En hann er látlaus og lítillátur, laus við allar ambitionir, hljóðlát sál, sem lifir innan um bækurnar sínar.

 

Jón mundi víst áreiðanlega ekki vilja verða forseti, þótt hann ætti þess kost.

 

Jónatan Hallvarðsson hefur einnig heyrzt tilnefndur, en hann er hinn eini af hæstaréttardómurunum, sem að ráði hefur starfað á alþjóðavettvangi.

 

Það mundi æra óstöðugan að telja upp öll þau forsetaefni, sem nefnd hafa verið manna á meðal.

 

Sumir eru að tala um Rósinkranz, flestallir í gamni, en einstaka maður þó í alvöru.

 

Og sumir vilja Vilhjálm Þ. Gíslason, og hann væri svo sem sléttur og felldur forseti.

 

Sumir vilja menntamann í embættið og nefna Alexander Jóhannesson eða Ólaf Lárusson. Björn Þórðarson er líka nefndur.

 

Sumir vilja skáld eða listamann, t.d. Gunnar Gunnarsson eða Pál Ísólfsson.

 

Og sumar gamlar konur hef ég heyrt mæla með Sigurgeiri biskupi.

 

Sigurgeir Sigurðsson biskup. „Sumar gamlar konur hef ég heyrt mæla með Sigurgeiri biskupi.“

Sumir vilja bónda eins og Þorstein á Vatnsleysu, formann Búnaðarfélags Íslands.

 

Sumir vilja sjómann og nefna Pétur Björnsson á Gullfossi, sem hefur umgengizt margt hefðarfólk um dagana, eða Ásgeir á Heklu.

 

En nú erum við komin út fyrir alla praktiska pólitík.

 

Hvað sem öllu þessu líður, hver sem hreppir hnossið, eru margir Íslendingar þungt hugsandi um framtíð forsetaembættisins.

 

Allar líkur benda til þess, að einhverjum pólitíkusi verði þröngvað upp á þjóðina, og að virðing forsetaembætisins setji stórlega niður. Eftir nokkur ár getur verið svo komið, að öll þjóðin taki undir með Þorsteini Erlingssyni: „Aldrei var því um Álftanes spáð, að ættjörðin frelsaðist þar.“

 

-Ajax.