Árið 1950 fundust mjög heillegar mannvistarleifar í mýri í Tollund, sem er í grennd við Silkeborg á Jótlandi í Danmörku. Mýrarmaður þessi var uppi fyrir meira en 2000 árum síðan, í kingum þriðju öld fyrir Krist. Súrefnisleysi og sýran í mónum hafði varðveitt líkið á ótrúlega góðan hátt. Andlitið sést til að mynda mjög vel. Röngtenmyndir sýndu ennfremur að flest líffæri mannsins voru mjög heilleg. Hann var um fertugt þegar hann dó. Var 161 cm á hæð.

 

Flest bendir til að maðurinn hafi verið tekinn af lífi, líklega með hengingu. Síðasta máltíð hans var grænmetissúpa eða grautur, sem hann át daginn áður en hann dó. Í súpunni var bygg, hörfræ og ýmis grös sem vaxa í námunda við mýrina þar sem hann fannst.

 

Það hlýtur að hafa verið mögnuð stund þegar menn fundu Tollund-manninn. Það kom í hlut Peters Glob, prófessors í Árósum, að grafa upp mennina. Lögreglan í Silkeborg hringdi í hann. Þetta var eins og upphafið af norrænni spennusögu. Glob var beðinn um að skoða lík sem menn, sem höfðu verið að taka upp mó, hefðu komið niður á. En líkið var ansi gamalt og málið ekki beint lögreglumál. Glob prófessor hefur sagt frá því hvernig aðkoman var en frásögnin birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1957.

 

Peter Glob.

Peter Glob.

 

Ég brást skjótt við og hélt til Tollund Mose, en það er mjótt mómýrardrag milli tveggja brattra hæða um miðbik Jótlands.

 

Í mógryfjunni og í hér um bil 7 feta dýpt, lá krepptur maður, að hálfu leyti inni í móstálinu. Fótur og öxl stóð út úr og var gjörsamlega órotið, en skinnið orðið brúnt, hafði dregið í sig lit úr mónum.

 

Við grófum varlega þar í kring og brátt kom höfuð í ljós, hneigt niður á bringu.

 

Um það er fór að rökkva, var maðurinn kominn fram. Hann var með kreppt hné og kreppta handleggi, og lá á hliðinni eins og hannhefði lagt sig til svefns. Augun voru lokuð, á enninu voru hrukkur og einhverjir drættir um munninn, eins og hann væri ekki vel ánægður með það að ró hans hafði verið raskað.

 

Þegar í stað var auðséð, að hann hafði hvílt þarna í 2000 ár. Um það bar vitni sjö feta þykkt mólagið, sem hafði myndast ofan á honum um aldirnar.

 

Tollund-maðurinn býr nú á safni í Danmörku og kannski hafa einhverjir lesendur skoðað hann þar. En reyndar hefur aðeins höfuðið varðveist. Á sjötta áratugnum var tækni til varðveislu á líkamspörtum ekki nógu góð til þess að varðveita allan líkamann. Þess í stað var höfuðið skorið af. Kroppurinn sem eftir varð hvarf fljótt þegar náttúran fékk loksins að taka við honum.

 

Moorleiche_von_Tollund_Jütland_um_100_n_Chr_hingerichtet

Maðurinn í mýrinni.

 

En fyrrnefndur prófessor Glob, sem síðar varð þjóðminjavörður Dana, vann engu að síður vel í þessu máli. Tveimur árum síðar fannst svo annar mýrarmaður á Jótlandi, sem kenndur er við bæinn Grauballe. Sá var frá svipuðum tíma og Tollundmaðurinn, eða frá um 3. öld fyrir Krist. Hann virtist einnig hafa verið tekinn af lífi, skorinn á háls. Glob eyddi lunganu úr starfsævinni í að rannsaka þessi dularfullu mál. Hann var nokkurs konar dönsk útgáfa af fornleifafræðingnum Indiana Jones. Þegar Glob varð sjötugur skrifaði Kristján Eldjárn, fornleifafræðingur og forseti Íslands, afmælisgrein um hann sem birtist í Morgunblaðinu. Þar sagði hann þessa sögu af Glob:

 

Í öllum lífsstíl sínum mun Glob verða talinn minna meira á listamann en prófessor og mörg tiltæki hans hafa þótt ævintýraleg. Til dæmis beitti hann sér fyrir áralöngum fornleifarannsóknum á eynni Bahrain á Persaflóa, þar sem sagt er að séu hundrað þúsund grafhaugar arabískra hirðingja innan um olíulindirnar. Þarna kom Glob sér í mjúkinn hjá forríkum sheik og fékk hann til að taka þátt í kostnaði við rannsóknirnar. Þá kom upp sá vandi með hverju væri hægt að gleðja velgjörðamanninn, hann átti allt til alls. Eitt var það þó sem hann langaði mikið í en taldi að ófáanlegt væri í víðri veröld: hvítur veiðihaukur.

 

Þegar þetta var ljóst hófst Glob þegar í stað handa. Hann setti öll öfl á hreyfingu uns hann komst yfir hvítan fálka frá Grænlandi, lét temja hann til veiða og hafði hann með sér til Bahrain. Þar bað hann um áheyrn hjá sheikinum, klæddist arabískum viðhafnarbúningi og gekk fyrir hann með fálkann á armi sér eftir löngum sal inn að hásætinu, hneigði sig djúpt og rétti fram hönd sína en fuglinn flutti sig yfir á framrétta hönd hins nýja eiganda. Þakkarskuldin var goldin eins og höfðingjum sæmdi, og önnur eins serimonía hafði ekki sést síðan á miðöldum.

 

Írska skáldið Seamus Heaney, sem lést árið 2013, hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Hann skrifaði mörg merkileg ljóð og eitt þeirra fjallar um umræddan manninn í mýrinni og heitir Tollundmaðurinn.

 

729041

Karl J. Guðmundsson, leikari og rithöfundur, 1924-2014. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

 

Karl J. Guðmundsson leikari og rithöfundur, sem er nýlátinn, þýddi ljóðið meistaralega:

 

Til Árósa held ég að lokum
að líta hans móbrúna haus,
mildu fræbelgi augna,
hans oddmjóa skinnhött.

 

Á flatlendinu í grennd, ­
hann var grafinn þar upp
með síðasta kornseyði vetrar
storkið í sarpi,

 

nakinn, nema með
höttinn, snöru og belti, ­
þar mun ég staldra lengi.
Brúðgumi gyðjunni,

 

hún spennti á hann men sitt
og opnaði sitt fen,
og myrkir safarnir gerðu
hann óforgengilegan smyrðling,

 

fundið fé mótekjumönnum,
sem stungu og ristu.
Nú dvelur steind ásýnd hans
í Árósum í rósemd.

 

Kannski finna menn eftir 2000 ár, í kringum árið 4000, manneskju sem nú er uppi í álíka varðveittu ástandi eins og Tollundmaðurinn. Það gæti allt eins verið þú.

 

Seamus Heaney.  Mynd: Bobbie Hanvey (Boston College).

Seamus Heaney (1939-2013), nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum.. Mynd: Bobbie Hanvey (Boston College).