Árið 1959 myndskreytti Tove Jansson sænska útgáfu Lísu í Undralandi.

Hinn finnski höfundur Múmínálfanna var auðvitað fjölhæfur snillingur sem samdi ekki einungis hinar stórkostlegu bækur um Múmíndalinn, heldur myndskreytti fjölda annarra bóka. Eins og Lemúrinn hefur áður sagt frá myndskreytti hún sænsku útgáfu Hobbitans eftir J.R.R. Tolkien árið 1962.

Myndirnar sem við sjáum hér eru ekki af síðri endanum frekar en fyrri daginn hjá Tove Jansson. Sköpunarkrafturinn birtist í hverju smáatriði.

Ævintýri Lísu í Undralandi eftir Bretann Lewis Carroll kom fyrst út árið 1865 og hefur komið út í óteljandi útgáfum á um 100 tungumálum. Bókin kom fyrst út á íslensku árið 1937 en þýðandi mun vera ókunnur. Sú þýðing hefst svona:


1. þáttur.
Kanínuholan.

Lísa litla hafði ekkert fyrir stafni og hún var orðin leið á að sitja á bekknum við hlið systur sinnar. Öðru hvoru gaut hún augunum til bókarinnar, sem systir hennar var að lesa. Í bókinni voru engar myndir. „Og hvað er gaman að bókum, sem engar myndir eru í“, hugsaði Lísa.

Bókin er nú fáanleg á ensku með teikningum Jansson.

Það var sólbjartur sumardagur og hitamollan gerði Lísu ákaflega lata. Hún var að hugsa um, hvort hún ætti að standa á fætur og búa til fíflafesti, en hún var svo löt, að hún nennti varla að tína fíflana. Skyndilega kom hún auga á hvíta kanínu, sem hljóp fram hjá.

Þetta var nú ekkert sérstaklega undarlegt og Lísa varð ekkert afskaplega hissa, þegar kanínan sagði: „Hamingjan góða! Hamingjan góða! Ég er að verða of seinn“. En nú tók kanínan úr upp úr vestisvasanum, leit á það og flýtti sér burtu. Og þá féll Lísu litlu allur ketill í eld. Hún spratt á fætur, höggdofa af undrun, því að hún hafði aldrei fyrr á æfi sinni séð kanínu í vesti og með vasaúr. Hún hljóp á eftir kanínunni yfir akurinn og sá hana skjótast inn í stóra kanínuholu.

Í sömu andrá var Lísa litla komin inn í holuna á eftir kanínunni, án þess að hugsa hið minnsta um það, hvernig hún kæmist út aftur.

Lísa litla í Undralandi
eftir Lewis Carroll
með myndskreytingum eftir John Tenniel
í íslenskri þýðingu frá 1937 (þýðandi ókunnur)
(tungutak.blogspot.com)