Breski heimspekingurinn Jeremy Bentham lést í hárri elli árið 1832. En þegar Bentham var um tvítugt hafði hann þegar ákveðið að láta varðveita lík sitt um aldur og ævi eftir dauðann. Hann er enn geymdur í skáp í háskólanum University College í London. Þar situr hann á uppáhaldsstól sínum. Hann situr kjurr. Horfir út í tómið. Á stórhátíðisstundum er hann færður til og látinn sitja til borðs á fundum með stjórn skólans. Þá er skrifað í fundarbækur að Bentham sé mættur en taki ekki þátt í atkvæðagreiðslum.

 

Screen Shot 2014-02-09 at 11.52.19 AM

Bentham á fundi með stjórnendum University College of London í júlí 2012. (Mynd: UCL)

 

Bentham undirbjó uppstoppun sína vandlega. Hann lét meðal annars útbúa fyrir sig skærblá augu, sem voru alveg eins og hans eigin, til að setja í múmíuna þegar þar að kæmi. Oft sýndi hann gestum þessi augu og sagði þeim til hvers þau yrðu notuð, þeim til mikils hryllings.

 

En eitt og annað mistókst þó á þessari leið. Þegar Bentham dó hófst lærisveinn hans Thomas Southwood Smith handa við verkið en leiðarvísir frá hinum látna fylgdi. Beinagrind Benthams var tekin og klædd í föt og hey látið fylla út í þau. Öðrum líkamspörtum var fargað en höfuðið sjálft geymt. Bentham vildi að hausinn yrði varðveittur með múmíuaðferð. Lærisveinninn beitti aðferðum sem hann hafði lært af nýsjálenskum frumbyggjum og notaði einnig brennisteinssýru til verksins.

 

bentham

 

Þetta tókst tæknilega séð. En því miður hafði höfuðið afmyndast við þennan hamagang og hinn áður gáfulegi og góðlegi Bentham leit mjög ófrýnilega út. Skraufþurrar og brenndar húðpjötlur löfðu á skelfilega ljótu andliti, sem var enn furðulegra vegna þess að það skartaði áðurnefndum gerviaugum sem voru alltof skærblá miðað við hin ósköpin. Þá var ákveðið að útbúa vaxhöfuð fyrir búkinn en nokkuð af hári Benthams var límt á það.

 

auto-icon cropped(2) (1)

 

En alvöru höfuðið var látið liggja á gólfinu fyrir framan búkinn sem var súrrealískt. Eins og Jeremy Bentham sæti fyrir framan furðulegt skrímsli sem væri ekkert nema ófrýnilegt höfuð.

 

Ákveðið var að fjarlæga höfuðið fyrir nokkrum áratugum eftir að nemendur skólans höfðu nokkrum sinnum rænt því og leikið sér með það.

 

Skoðið Bentham í nærmynd hér.

 

18_BenthamHead