Þann 15. desember árið 1969 fór af stað herferð, sem má lýsa sem mótmælaherferð, listaviðburði og alþjóðlegri jólakveðju frá listaparinu John Lennon og Yoko Ono.

Um var að ræða stóra auglýsingaborða, lesnar útvarpsauglýsingar, heilsíðuauglýsingar í prentmiðlum, auk dreifingar á póstkortum og plakötum í 12 borgum um allan heim. Þær voru New York, Los Angeles, Amsterdam, Toronto, Aþena, Róm, Berlín, París, London, Tókýó, Hong Kong og Helsinki.

Yoko Ono og John Lennon með upprunalega dreifimiða (e. flyers) í desember 1969.

Það var fjöllistakonan Yoko Ono sem hannaði útlit herferðarinnar og parið kom sér saman um skilaboðin, sem voru einföld og grípandi. Leturgerðin var látin líkjast Franklin Gothic Extra Condensed, sem var sérstaklega algeng fyrir stórar fyrirsagnir á forsíðum dagblaða á 20. öldinni.

Þannig myndi fólk fá þá tilfinningu að um stórar fréttir væri að ræða, sérstaklega þar sem allir stafir voru hástafir. Hugmyndin að hafa síðari setninguna, IF YOU WANT TO, í smærri stærð, var með vilja gert. Þannig grípur fyrsta setning athygli lesenda, sem fá síðan tækifæri til að klára hugsunina með því að veita smá letrinu athygli.

Risastórir skilti mátti sjá á áberandi stöðum í 12 stórborgum um allan heim. Hér erum við á Times Square í New York-borg Bandaríkjanna.

Upphaflega átti lokakveðjan frá John og Yoko ekki að hafa vísanir í afmæli Krists eða jólin. En að lokum var (rétta?) niðurstaðan að óska fólki gleðilegra jóla, og jafnvel ná þar að laumast í gangverk kapítalismans fyrir þessa miklu neyslu- og kauphátið. En fyrsta uppkastið leit svona út:

Ekkert Happy Christmas, þótt kveðjan sé engu síðri.

Hér má síðan sjá hvernig skilaboðin líta út á fleiri tungumálum en ensku.

Þarna má meira að segja sjá jólakveðjuna frá John og Yoko á íslensku! Sérðu hvar?

Það var síðan tveimur árum síðar, árið 1971, mögulega eftir að Lennon hafði séð sterk viðbrögð við lagi sínu Imagine, að hann og Yoko ákváðu að hlaða í lag til að fylgja á eftir herferðinni.

Úr varð jólasmellurinn Happy Xmas (War is Over), sem kom út 24. nóvember sama ár í Bretlandi, en viku síðar, eða 1. desember vestanhafs. Lagið komst aldrei í efsta sæti vinsældalistans, hvorki í Bretlandi né Bandaríkjunum.

Hæst náði það reyndar 9 árum eftir útgáfu þess, í kjölfar þess að Lennon var myrtur fyrir utan Dakota-bygginguna í New York. Þá komst lagið í 2. sæti í Bretlandi og 28. sæti Billboard-listans bandaríska. Hvað sem því líður er lagið afar fallegt og skilaboðin einnig.

Gleðileg jól frá John og Yoko!

Vídjó

-Via fontsinuse.