Bandaríski rithöfundurinn Ernest Hemingway sparkar í bjórdós nálægt Ketchum í bandaríska fylkinu Idaho árið 1960. Hann lést ári síðar, framdi sjálfsmorð.

 

Myndin er táknræn því Hemingway var alki. Gunnar Smári Egilsson gerir svofellda grein fyrir stríði meistarans við drykkjuna í pistlaröðinni Harmsögum á DV (greinin er nú horfin af netinu):

 

„Hann sendi frá sér smásagnasafn og skáldsögu 27 ára og steig síðan fram þrítugur sem fullskapaður höfundur með Vopnin kvödd; frægðarsól hans reis á næstum árum og um fertugt var hann orðinn súperstjarna; bigger than life — eins og sagt er; hann var ekki bara þekktur sem rithöfundur heldur sem persóna; táknmynd nýrrar karlmennsku; óttalaus stríðsfréttaritari; lífsþyrstur kvennamaður; drykkjumaður; intellektúal ævintýramaður; óskadrykkjufélagi allra karla sem hneigðir eru fyrir röfl og tilfinningasemi á fylleríum — en auðvitað byggði þessi ímynd fremur á þeim persónum sem Ernest bjó til úr sér í ritverkum en manninum sjálfum.

 

Eftir því sem árin liðu átti hann erfiðara með að standa undir ímyndinni; hann einangraði sig æ meira eftir seinna stríð og því meir sem alkóhólsiminn þróaðist; skrifaði síðasta meistaraverkið 39 ára; svanasöng sinn 53 ára; gat ekki lengur drukkið eftir klukkunni heldur drakk á öllum stundum; fékk Nóbelsverðlaunin 55 ára; gat engu lokið eftir það; þjáðist af sykursýki, þunglyndi, lifrarbilun og öðrum afleiðingum drykkjunnar og skaut sig loks fáeinum dögum fyrir 62 ára afmælið.“

 

Tengdar greinar á Lemúrnum:

Hemingway á Kúbu