Hið klassíska íslenska sælgæti, Freyju Möndlur, hefur þann eiginleika að gera tungur neytenda skærbleikar við mikið át. Möndlurnar eru enda bleikar að lit, eða jafnvel djúprauðar (e. crimson). Þessum lit er náð með litarefninu karmín. Þetta sama litarefni er einmitt að finna í ítalska drykknum Campari, bitra líkjörnum sem fólk kann fyrst að meta með hækkandi aldri og aukinni biturð.

Var einhver að kremja Freyju Möndlu hér? Neibb, aðeins kaktuslús.


Karmín er framleitt úr kaktuslús (e. cochineal, l. Dactylopius Coccus) sem er jafnan frá Suður-og Mið-Ameríku en er einnig ræktuð víðar. Liturinn sem er fenginn úr lúsunum er eingöngu fengin frá skel og eggjum kvendýra. eru þá skordýrin soðin niður til að ná fram djúprauðu þykkni sem er síðan blandað með áloxíðsblöndu eða kalkoxíð til að ná fram réttum djúprauðum gljáa. Þessi litur gengur einnig undir nafninu cochineal, eins og lýsnar, en er auðvitað þekktari sem karmín.

Innihalds-og næringarlýsing fyrir Freyju Möndlur

Aðdáendur Freyju Mandla, eða Campari, þurfa þó ekki að örvænta að fá óþarfa klígju. Notkun karmíns hefur verið þekkt í neysluvörum um margra alda skeið. Karmín er einnig notað sem litunarefni fyrir textílvörur og fatnað, sem og snyrtivörur. Fólk sem hefur notað bleikt varagloss hefur til að mynda mjög líklega haft leifar af kaktuslús á vörunum. Þá er karmín algengt litarefni í bleiklituðum orkudrykkjum, sleikipinnum, tyggigúmmí og fleiri sætindum.



Karmínliturinn skin í gegn í hinum bitra en gómsæta Campari.