Gríðarlegar deilur voru um byggingu höfuðstöðva Seðlabanka Íslands. Ýmsar teikningar voru lagðar fram og átti upphaflega að byggja stórhýsi bankans við tjarnarbakkann á Fríkirkjuvegi en á endanum var byggingunni fundinn staður við Arnarhól. Halldór Laxness lagðist gegn þeim áformum og kallaði eftir baráttu gegn slíkri „ábyrgðarlausri hégómadýrð“.

 

Seðlabanki Íslands var stofnaður sem sjálfstæð stofnun árið 1961. Deildi hann húsnæði sínu með Landsbankanum í þremur húsum við Austurstræti og Hafnarstræti. En svo var ákveðið að svo mikilvæg stofnun skyldi fá eigin höfuðstöðvar.

 

Ákveðið var að byggja seðlabankahús við Fríkirkjuveg 11 og lauk samkeppni um hönnun hússins haustið 1968. Veruleg andstaða var við að byggja á þessum stað og að rífa hús Thors Jensens. Var því hætt við þessa áætlun.

 

Árið 1971 var Seðlabankanum úthlutað lóð við Sölvhólsgötu norðan Arnarhóls þar sem bílastæði höfðu verið í mörg ár og þar áður kolaport og veiðarfærageymsla.

 

Stuttu eftir að framkvæmdir hófust árið 1973 heyrðust margar óánægjuraddir. Beindist gagnrýnin einkum að því að byggingin myndi skemma útsýnið af Arnarhóli og svo voru aðrir sem voru ekki hrifnir af útliti hennar og töldu hana minna á pýramída á hvolfi.

 

Voru meðal annars skrifuð ljóð um húsið líkt og eftirfarandi:

 

„Efst á Arnarhólstúni

sem orðuð var við sláttumenn

hátimbruð peningahlaðan

mót himni guðs rís senn.

Þar verður fjós undir fjölum

og fráleitt sérlega hljótt:

þúsund beljur úr blikki

baula þar dag og nótt.

Taðhlaðastíllinn er sterkur

og stendur enn um sinn

fræg verður hlaðan og fjósið

og fjósameistarinn.“

 

Þann 10. september 1973 fór fram mótmælafundur gegn framkvæmdinni á Arnarhól. Lesin voru ávörp eftir þrjú þjóðskáld, Gunnar Gunnarsson, Tómas Guðmundsson og Halldór Laxness.

 

 „Tek þátt í mótmælum landsmanna gegn ábyrgðarlausri hégómadýrð, með sóun á almannafé til að reisa afkárlegt monthús yfir fjárhagsvanmátt og verðbólgu, skerða stolt höfuðborgarinnar og byrgja náttúrufegurð höfuðstaðarins.“ Halldór Laxness

„Tek þátt í mótmælum landsmanna gegn ábyrgðarlausri hégómadýrð, með sóun á almannafé til að reisa afkárlegt monthús yfir fjárhagsvanmátt og verðbólgu, skerða stolt höfuðborgarinnar og byrgja náttúrufegurð höfuðstaðarins.“
Halldór Laxness

 

Hófst þá undirskriftasöfnun gegn húsinu, og birtar voru auglýsingar í bæjarblöðunum með reitum fyrir nokkur nöfn sem síðan voru send póstleiðina.

 

Þá var dreift undirskriftalistum í ýmsar verslanir. Loks voru fengnir sjálfboðaliðar sem tóku að sér að ganga með listana í hús og skrifuðu 6190 manns undir.

 

Mikill meirihluti almennings var mótfallinn þessari byggingu og var staðarvalið helsta ástæða þess en einnig fannst sumum þenslan í þjóðfélaginu vera of mikil. Þó voru ekki allir á móti framkvæmdinni.

 

Verndum Arnarhólinn

Mótmæli á Arnarhóli, 10. september 1973. (Tíminn)

 

Þessi mótmæli voru meðal annars gagnrýnd í Alþýðublaðinu og þar skrifað að í eina tíð hefðu allar framkvæmdir þótt guðsþakkarverðar. Þær hefðu boðað öflugra athafnalíf og betri kjör. Nú væri þessu snúið við og þeir sem ætluðu að leggja út í athafnir eða stæðu í þeim væru í hættu að vera útnefndir óvinir þjóðfélagsins númer eitt.

 

Þarna skarast ólík sjónarmið. Annars vegar sjónarmið þeirra sem telja að fórnarkostnaður þessarar framkvæmdar hafi verið of mikill og hins vegar þeirra sem vilja meina að slíkar framkvæmdir séu jákvæðar.

 

„Undirskriftir gegn byggingu Seðlabanka Íslands á Arnarhóli árið 1974. Slíkir undirskriftarlistar voru prentaðir í dagblöðum bæjarins sem fólk gat síðan klippt út og skrifað nöfn sín undir. Undirskriftarlistunum var síðan safnað saman og afhent borgarstjóra. Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Málasafn borgarstjóra. Askja 168.“ (http://www.skjaladagur.is/2004/005_06.html)

„Undirskriftir gegn byggingu Seðlabanka Íslands á Arnarhóli árið 1974. Slíkir undirskriftarlistar voru prentaðir í dagblöðum bæjarins sem fólk gat síðan klippt út og skrifað nöfn sín undir. Undirskriftarlistunum var síðan safnað saman og afhent borgarstjóra.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Málasafn borgarstjóra. Askja 168.“ (http://www.skjaladagur.is/2004/005_06.html)

 

Vegna mikillar andstöðu var framkvæmdum aftur slegið á frest. Þær hófust á ný árið 1982 norðar en upphaflega hafði verið ætlað, á reit Sænska Frystihússins og reis þar sem Seðlabankabygging er í dag.

 

Guðmundar Kr. Guðmundssonar teiknaði bygginguna ásamt Ólafi Sigurðssyni. En frægustu verkin sem Guðmundur stóð að eru Borgarleikhúsið, höfuðstöðvar Mjólkursamsölunnar og Seðlabankabyggingin sem var á endanum byggð.

 

Þessi frumteikning hans af húsinu var hugsuð í anda virkis, að þarna væri staðið vörð um fjárhag þjóðarbúsins. Hann er þó ánægðari með Seðlabankabygginguna sem varð á endanum.

 

Þá hafði losnað lóðin á horni hólsins sem hafði áður verið undir Sænska frystihúsið. Enda sé staðsetningin á horni hólsins mun betri og öll hönnunin hafi tekið mark á því. Seðlabankinn flutti í nýja heimili sitt árið 1987.

 

005_05_sedlabanki-teikning_1600

„Teikning af byggingu Seðlabanka Íslands sem átti að rísa við Arnarhól frá 1971. Þessi bygging reis þó aldrei heldur var teikningum breytt og bankinn færður norðar. Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Málasafn borgarstjóra. Askja 1064. “ http://www.skjaladagur.is/2004/005_06.html

 

Þessi grein fjallar um viðfangsefni sem er tekið fyrir á sýningu nemenda við HÍ, „Framtíðarsýn og fortíðarhyggja“. Þar er fjallað um uppbyggingu og húsavernd í Reykjavík á seinni hluta 20. aldar. Opnar sýningin laugardaginn 1. júní klukkan 15 í Kornhúsinu á Árbæjarsafni. Greinin birtist  einnig á síðu sýningarinnar: http://husvernd.wordpress.com/.

 

Harpa og Seðlabanki Íslands.

Harpa og Seðlabanki Íslands.

Mynd eftir Damien Mórka á Flickr.