Elias Howe hét maður sem átti sér þann draum að búa til saumavél. Þetta var rétt fyrir miðja 19. öld og fjöldi manna vann að smíði saumavélar. Ljóst var að sá sem fyrstur næði að þróa nothæfa vél yrði bæði forríkur og frægur. Svo Elias vann að vélinni sinni á nóttu sem degi.

 

Gallinn var sá að miklum erfiðleikum var bundið að þróa aðferð til að tvinni drægist með nál gegnum föt. Bæði Elias og keppinautar hans unnu með venjulegar nálar þar sem nálaraugað var aftast á nálinni og til að tvinninn festist þurfti því að draga alla nálina gegnum viðkomandi klæðisplagg og ná henni síðan heilli aftur til baka. Það reyndist mjög erfitt; óteljandi nálar brotnuðu í tilraunavélum Eliasar.

 

Elias Howe.

En hvað varð til þess að Eliasi tókst áætlunarverk sitt að lokum og bjó til tímamóta saumavél?

 

Sagan segir að kvöld eitt árið 1845 að Elias örmagnaðist þar sem hann hafði setið lengi yfir mislukkaðri saumamaskínu sinni. Hann sofnaði fram á vinnuborð sitt og tók að dreyma órólegan draum er fljótt þróaðist yfir í hreina martröð.

 

Hann dreymdi að hann væri á flótta undan mannætum gegnum frumskóg. Að lokum náðist hann og mannæturnar bundu hann á höndum og fótum og báru hann heim í þorpið sitt. Þar var honum stungið í stóran pott fullan af vatni og eldur kveiktur undir pottinum.

 

Bersýnilega átti að sjóða hann lifandi.

 

Elias reyndi eins og hann gat að komast upp úr pottinum en það var sama hvernig hann engdist um, alltaf stoppuðu mannæturnar hann með því að pota í hann hárbeittum spjótum.

 

Að lokum vaknaði Elias skjálfandi á beinunum. Hann var góða stund að jafna sig en þó að hryllingur draumsins væri honum vissulega efst í huga vakti líka athygli hans hvernig spjót mannætanna höfðu verið smíðuð. Þau voru nefnilega afar mjó og beitt, reyndar líkust nálum, en rétt aftan við oddinn var sporöskjulagað gat — sem líktist helst nálarauga.

 

Og skyndilega rann upp fyrir Eliasi Howe að þarna væri lausnin á vandamáli hans fundin. Með því að hafa nálaraugað fremst á nálinni í saumamaskínunni en ekki aftast, þá þurfti ekki lengur að draga alla nálina í gegnum hvern efnisbút.

 

Saumaskapurinn gat nú gengið greiðlega. Innan við ári eftir drauminn um mannæturnar var Elias Howe búinn að fá einkaleyfi á saumavél sinni sem olli byltingu í klæðagerð heimsins.

 

Mannætusaumavélin.