Bærinn talaði ekki um annað en eiturmorðið í gær.

Á götunum heyrðist eigi annað samræðuefni.

Hvaðan er þessi Júlíana?

Hver var þessi Eyjólfur?

Ætli Jón sé meðsekur?

Hvaða refsing liggur við svona voðalegum glæp?

Svona spurði maður mann.

 

Þetta mátti lesa í Morgunblaðinu mánudaginn 17. nóvember 1913. Fyrir rétt rúmri öld síðan. Þá bjuggu 13.354 manns í Reykjavík. Svolítið færri en búa í Reykjanesbæ í dag.

 

Reykjavík hafði verið í hröðum vexti, konur höfðu fengið kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum 1908 og buðu sig fram með góðum árangri. Vatnsveita Reykjavíkur var byggð 1909 og sá bæjarbúum fyrir rennandi vatni. Gasstöð Reykjavíkur var byggð 1910 og sá heimilum bæjarins fyrir hentugra eldsneyti til eldunar en kolin höfðu verið fram að því. Verið var að smíða hafskipabryggju við Reykjavíkurhöfn sem átti eftir að auðvelda mjög alla affermingu og uppskipun.

 

Fólk á skautum á Austurvelli veturinn 1913. Mynd eftir Magnús Ólafsson.

Fólk á skautum á Austurvelli veturinn 1913. Mynd eftir Magnús Ólafsson.

 

Morðið

Sagan hefst í Reykjavík 1913 og segir frá Júlíönu Silfu Jónsdóttur, fædda 1. ágúst 1865, á Eyrarnesi í Snæfellssýslu. Konu sem fluttist tvítug til Elliðaeyjar og giftist þar Magnúsi Einarssyni hafnsögumanni árið 1892. Þau fluttust til Stykkishólms 1904 og árið 1909 varð hún ekkja. Árið 1911 flutti Júlíana til Reykjavíkur og næsta ár tók hún saman við Jón nokkurn Jónsson (fæddur 1873) en þau fluttust um bæinn, áttu fyrst heima í Ánanaustum, svo á Vesturgötu 27 og loks á Brekkustíg 14.

 

Júlíana var sögð hafa verið „greiðvikin, brjóstgóð og tilfinninganæm fyrir bágindum annara, en ástríðukona og nokkuð skapstór, frekorða stundum, en hreinskilin.“ Jón var sagður „fremur ófús til vinnu, og eigi allur þar sem hann er séður.“ Júlíana átti fyrir sjö ára dóttur.

 

julianaogjon

Júlíana og Eyjólfur. Teikningar úr Morgunblaðinu.

 

Bróðir Júlíönu hét Eyjólfur Jónsson og var hann lausamaður í Dúkskoti við Vesturgötu. Heimildarmenn Morgunblaðsins sögðu „hann hafa verið fyndinn mann og með afbrigðum skemtinn, kvæðamann mikinn, og rímur kunni hann margar.“ Eyjólfur var án konu en hafði tekið unga munaðarlausa stelpu frá Barðaströnd í fóstur.

 

Að kvöldi laugardagsins 1. nóvember 1913 veiktist Eyjólfur snögglega á heimili sínu og sagðist telja að skemmdu skyri sem hann fékk hjá Júlíönu. Fékk hann þá nótt „sárar kvalir fyrir bringspalirnar með áköfum uppköstum, og glitti í spýjuna í myrkri sem maurildi sæi.“ Það þýðir með öðrum orðum að æla Eyjólfs hafi lýst í myrkri. Næstu tvo daga hélt Eyjólfur til vinnu en á miðvikudeginum lagðist hann fyrir og steig ekki aftur upp frá rúmi sínu. Þann 10. nóvember var hann fluttur á Landakotsspítala þar sem hann lést 13. nóvember.

 

Eyjólfi hafði verið eitrað af Júlíönu með rottueitri sem innihélt hvítan fosfór. Hún viðurkenndi strax við yfirheyrslu að hafa laumað því í skyr sem hún bar bróður sínum 1. nóvember. Hvítur fosfór er baneitrað og hvarfgjarnt efni. Í dag er það meðal annars notað í sprengiefni, rottueitur og flugelda.

 

Eftir að líkaminn hefur innbyrt banvænt magn af fosfór hefst dauðastríð í þremur stigum. Fyrsta stigið er fyrsti sólarhringurinn, þá er annað hvort ekki neinna einkenna vart eða einkenni meltingartruflnanna á borð við uppköst eða niðurgang. Annað stigið er á öðrum og þriðja sólarhringi þá er líkegt að lifrin bregðist við eitrinu en ekki er víst að sjúklingurinn sýni ytri einkenni. Meðal einkenna geta þó verið lifrarbilun, storkutruflanir, brátt pípludrep eða geðrof. Þriðja stigið er niðurtalning að dauðastundinni.

 

11789148

Mynd af Dúkskoti. Birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember 1913. Blaðið fjallaði ítarlega um morðmálið og birti teiknaðar skýringarmyndir og fréttaskýringar sem var nýlunda í íslenskum fjölmiðlum.

 

Tilefni

Eyjólfur var sagður „dugnaðarmaður, en maurapúki mikill, maður, sem alt lagði á sig fyrir peninga.“ Eyjólfur hafði unnið í Bíldudal fyrir Pétur Thorsteinsson, einn ríkasta útgerðarmann þess tíma, og var Eyjólfur „álitinn mjög vel efnaður, lánaði þar mörgum fé, t. d. einum manni 1400 kr. Átti og í jörðum.“ Það var töluverð fjárhæð í þá daga. Í dómi landsyfirréttar segir: „Ákærða gerði sér von um talsverðan arf eftir Eyjólf, og gizkaði á, að eigur hans mundu skifta þúsundum.“ Eyjólfur átti þrár systur til viðbótar sem myndi þýða að eftir skiptingu arfsins stæðu um kannski 7-800 kr. eftir handa Júlíönu.

 

Um tildrög morðsins sagði Júlíana við yfirheyrslur að Eyjólfur hefði komið til þeirra um mánuði fyrr og leitað skjals í kistu sem var geymd hjá þeim sem hann fann ekki. Við það hafi hann reiðst og sakað Júlíönu og Jón um þjófnað. Kom til áfloga og „[ákærða] greip þá í handlegginn á Eyjólfi, en hann barði hana með höndum og fótum; … af heiftrækni við Eyjólf fyrir það, að þjófkenna ákærðu, og af því, að hún bjóst við að erfa talsvert eftir hann, svo og fyrir áeggjan með-ákærða fór að vakna og magnast hjá henni ásetningur að ráða Eyjólf af dögum.“

 

 

11789152

Mynd teiknara Morgunblaðsins af eigum hins myrta í Dúkskoti. Birtist í blaðinu 17. nóvember 1913.

 

Við yfirheyrslur sagði Júlíana að Jón hefði ráðlagt henni að „narra Eyjólf út á hafnargarðinn, sem verið var að hlaða úr í Örfirisey, hrinda honum niður af garðinum í sjóinn; sjálfur virtist hann þó ekki ætla að vera með í þvi verki, en hún treysti sér eigi til þess.“ Þá hafi þau frekar ákveðið að eitra fyrir honum.

 

Við yfirheyrslur neitaði Jón Jónsson hins vegar stöðugt að hafa haft nokkra vitneskju um fyrirætlanir Júlíönu, hvað þá að hafa hvatt hana til verksins og sagði Júlíönu bera rangar sakir á sig. Í dómi landsyfirréttar sagði: „Með því að engar aðrar skýrslur hafa fengist, er hnekkt geti þessari neitun ákærða,verður það eigi talið sannað, að hann hafi verið meðsekur í glæp ákærðu.“

 

Samkvæmt hegningarlögum þess tíma skyldi Júlíana líflátin og féll dómurinn þannig. Dómnum var hins vegar ekki fullnægt og dó Júlíana sumarið 1931, 65 ára gömul. Hún er grafin í Hólavallakirkjugarði.

 

Gröf Júlíönu.

Gröf Júlíönu er á þessum stað í kirkjugarðinum gamla við Suðurgötu. Mynd: Hrafn Malmquist.

 

Skoðið tölublöð Morgunblaðsins frá 17. og 18. nóvember 1913, en þar var ítarlega fjallað um málið. Stíllinn er sérstakur og að mörgu leyti óvenjulegur fyrir blöð á þessum tíma.

 

Úrklippur úr Morgunblaðinu þessa daga.

Úrklippur úr Morgunblaðinu þessa daga.

 

Loks skal bent á dóm landsyfirréttar í málinu sem finna má hér.