Lemúrinn var stofnaður 8. október í fyrra og er því eins árs í dag! Ritstjórn þakkar lesendum sínum innilega fyrir frábærar móttökur.

Hér er yfirlit yfir vinsælustu greinar ársins og aðrar eftirminnilegar færslur.

Tíu mest lesnu greinar ársins

1. Magnaðar ljósmyndir sýna Reykjavík á áttunda áratugnum

Ákaflega flottar ljósmyndir sýna höfuðborg Íslands um miðjan áttunda áratuginn. Linsunni er ekki bara beint að frægustu kennileitum heldur líka að húsasundum og hliðargötum. Sumar myndirnar eru teknar um hávetur og sýna auðar og hráslagarlegar götur. Sumum lesendum sem upplifðu þessa tíma hryllti við. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sá „ljótu borg bernsku“ sinnar á þessum myndum og fjölmargir ræddu um hversu mikið Reykjavík hefði fríkkað á síðustu áratugum.

 

 

2. Ljósmyndir af Íslandi eftir hollenska meistarann Willem van de Poll, 1934

Willem Van de Poll var einn víð­förlasti og merk­asti blaða­ljós­mynd­ari Hollendinga — nokkuð sem sést glöggt á myndum hans frá Íslandi. Því við sjáum landið gegnum linsu mik­ils lista­manns. Mannamyndir af lista­fólki og af ýmsum þjóð­þekktum mönnum eru merki­lega skýrar og draga fram per­sónu­ein­kenni þeirra á ein­stakan hátt. Við sjáum enn­fremur öðruvísi sjón­ar­horn í lands­lags– og mann­virkja­myndum sem gefa okkur nýja sýn á fortíðina.

 

 

3. Stórkostlegar aldargamlar ljósmyndir frá Suðurskautslandinu

Fyrir hundrað árum könnuðu ástralskir vísindamenn Suðurskautslandið. Með þeim ferðaðist ljósmyndarinn Frank Hurley. Hann tók ótrúlega áhrifamiklar myndir í þessari köldustu heimsálfu Jarðar. Það er ekki auðvelt að gera sér í hugarlund hversu erfiðar ferðirnar til hins syðsta suðurs voru á þessum tíma þegar tæki á borð við bíla og flugvélar voru enn í vöggu.

 

 

4. Nýlendustefnan á ljósmynd: Indversk kona með breskan mann á bakinu

 

Breskur Flickr-notandi fann nokkrar ljósmyndir sem frændi hans tók um 1903, þegar hann fór í viðskiptaferðir til Indlands. Ein þeirra sýnir nýlendustefnu Evrópuþjóða í hnotskurn: Breskur kaupmaður situr á baki smávaxinnar konu frá Himalajafjöllum. Og þarna eru ýmsar aðrar myndir sem sýna veruleikann í nýlendu Breska heimsveldisins á Indlandi.

 

 

5. Gamlinginn sem málaði heilt hverfi og bjargaði því frá niðurrifi

 

Hvað gerir maður þegar yfirvöld ætla að rífa hverfið þar sem maður hefur búið mestanpart ævinnar? Hinn 86 ára gamli Huang Yunfu hafði búið í sama hverfi í borginni Taichung í Taívan síðan árið 1950 og var ekki á þeim buxunum að flytja. Hann fann til pensla og liti sem hann hafði ekki snert síðan í barnæsku og byrjaði að mála. Fyrst húsið sitt, svo nágrannans og loks var allt hverfið þakið í litríkum, barnslegum málverkum Huangs. Yfirvöld hættu við að rífa hverfið, enda er það nú einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Taichung-borg.

 

 

6. Hin ósýnilega móðir

Starf ljósmyndarans var erfitt í gamla daga. Þá sem nú vildu foreldrar eiga ljósmyndir af börnunum sínum, en það tók óratíma að taka hverja mynd og jafnvel stilltustu fyrirmyndarbörn gátu átt erfitt með að sitja eða standa grafkyrr allan þann tíma. Mæður barnanna voru þá látin halda börnunum föstum, en af einhverjum ástæðum þótti óæskilegt að mæðurnar birtust sjálfar á myndinni. Þær voru því látnar fela sig undir dúk eða teppi — þannig að börnin virðast sitja í fang­inu á tor­kenni­legri þúst eða með skugga­lega kufl­klædda veru yfir sér.

 

7. Rendang er gómsætasti réttur í heimi

 

 

Rendang rekur upp­runa sinn til Minangkabau-​​ættflokksins á Vestur-​​Súmötru í Indónesíu. Rétturinn er yfir­leitt fram­reiddur þegar gesti ber að garði, eða þegar með­limir ættflokks­ins ætla að gera sér glaðan dag. Rendang var valinn besti réttur heims hjá CNN og matarblogg Lemúrsins, Mahlzeit, gerði grein fyrir ljúfmetinu. Uppskrift fylgdi.

 

8. Geimskot Frakka á Íslandi

 

Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur dustaði rykið af tiltölulega gleymdum atburðum. Hann fékk að vera fluga á vegg þegar vísindamenn frá frönsku geimrannsóknarstofnuninni skutu eldflaugum frá Mýrdalssandi út í geim árin 1964-65. Ágúst gerir þessum merku atburðu stórskemmtileg og fróðleg skil í þessari grein. Ljósmyndir hans af geimskotinu eru magnaðar.

 

 

9. Gamla konan í smábænum var systir Hitlers

Þann 1. júní 1960 and­að­ist 64 ára gömul kona sem bjó í smá­bænum Berchtesgaden í Þýskalandi, rétt fyrir landa­mæri Austurríkis. Hún bjó ein og átti ekki mikið af kunn­ingjum, svo and­lát hennar vakti litla athygli. Ættingjar mættu engir í útförina. Hún hafði borið nafnið Paula Wolff og í Berchtesgaden vissu menn ekki annað en það væri hennar rétta nafn. Það vakti því svo­litla eft­ir­tekt um skeið þegar á leg­steini hennar birt­ist annað nafn. Paula Hitler. Því þetta var systir Adolfs.

 

 

10. Maðurinn sem neitaði að hylla Hitler

 

Adolf Hitler kanslari Þýskalands heimsótti skipa­smíða­stöð Blohm & Voss í Hamburg í september 1936. Ljósmynd var tekin af verkamönnum Blohm & Voss hlýða á ræðu foringjans. Rýni maður í ljósmyndina kemur í ljós að einn maður í áhorfendahópnum sker sig úr. Hann réttir ekki út hægri hönd í Hitlerskveðju eins og allir aðrir heldur stendur með krosslagða arma. Hver var þessi hugrakki maður? Dóttir hans bar loks kennsl á föður sinn þegar þessi mynd birtist í þýsku dagblaði árið 1991. Örlög hans og fjölskyldu hans urðu sorgleg.

 

Aðrar eftirminnilegar greinar sem birtust á Lemúrnum á árinu:

 

1. Frábærar ljósmyndir þýskra túrista á Íslandi árið 1925

 

Ferðamenn sem koma til Íslands árið 2012 fara í Bláa lónið, skoða Gullfoss og Geysi, fara kannski í hestaferð. En hvað gerðu túristar á Íslandi árið 1925? Þýskur ljósmyndari kom með gufuskipi til Reykjavíkur sumarið 1925 og myndir hans sýna týpíska skemmtidagskrá fyrir erlenda ferðamenn þess tíma, þar á meðal glímusýningu á Austurvelli og þjóðbúningaklæddan kvennakór.

2. Reykjavík árið 1910: „Ekkert nema kindur og smér, saltfiskur, hross og skáld“

 

Bláa lónið var vinsælasta bók írska rithöfundarins Henry De Vere Stacpoole (1863-1951). Hún fjallaði ekkert um Ísland. Hins vegar kom Stacpoole til Íslands sumarið 1910 og skrifaði frábæra grein um land og þjóð sem birtist í blöðum víða um heim. Lesið hana og skoðið ljósmyndir sem teknar voru sömu daga og rithöfundurinn skoðaði Ísland.

 

3. Breski íshafsleiðangurinn og misheppnuð björgun Íslendinga

 

Í júlí árið 1930 lögðu fjór­tán ævin­týrafúsir ungir Bretar af stað til Grænlands til þess að gera veð­ur­rann­sóknir á Grænlandsjökli. Það reyndist erfiðara en Bretarnir ungu áttu von á og einn þeirra festist uppi á jöklinum um hávetur. Ættingjar hans höfðu að vonum áhyggjur og leituðu til dr. Alexanders Jóhannessonar, pró­fessors í mál­vís­indum við Háskóla Íslands, um að bjarga drengnum. Íslendingar fylgdust æsispenntir me fræknum björgunarleiðangri Alexanders í dagblöðum — mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan Morgunblaðshúsið æstur í nýjustu fréttir. Var þetta allt eintómt fjölmiðlafár? Furðuleg frásögn af íslenskum metnaði ásamt merkilegum ljósmyndum Bretanna frá Grænlandi.

 

4. Þegar draugur íslensks prests birtist á breskri ljósmynd

 

Á fyrri hluta tuttugustu aldar var spíritistahreyfingin mjög áberandi á Íslandi. Séra Haraldur Níelsson var einn virtasti fræðimaður Íslands, dómkirkjuprestur, rektor Háskóla Íslands um tíma og einn öflugasti talsmaður spíritismans. Hann lést árið 1928 og stuttu síðar birti rithöfundurinn Einar H. Kvaran, grein – eða stórfrétt raunar – í dagblöðum Íslands: „Ljósmyndamiðli“ á Englandi hafði tekist að fanga draug séra Haraldar á filmu. En þessir virtu íslensku fræðimenn höfðu verið gabbaðir, líkt og margir breskir kollegar þeirra, til dæmis Arthur Conan Doyle.

 

5. Gleymdur tvíburabróðir Vladimirs Leníns

 

Sergej Iljits Úljanoff var tvíburabróðir eins áhrifamesta manns í sögu tuttugustu aldar, Vladimirs Lenín. Þrátt fyrir það hefur hann að mestu fallið í gleymskunnar dá — enda varð lífshlaup hans ansi ólíkt tvíburabróðurnum, þó þeir hefðu verið nánir um skeið. Lemúrinn segir sögu hins dularfulla Sergej Úljanoff.

 

6. Coca-Cola á Íslandi: Come, be blessed and be happy!

 

„Komdu sæll og bless­aður [e. Come, be blessed and be happy], segir gest­risni Íslend­ing­ur­inn þegar hann hittir aðkomu­mann. Það er hlý­leg heilsa, en þó ekki vina­legri en heilsa banda­rískra her­manna. „Fáðu þér kók“, segir dát­inn, og það virkar jafnt í Reykjavík sem í Rochester.“ Árið 1944 setti Coca-​​Cola í gang aug­lýs­inga­her­ferð sem sýndi banda­ríska her­menn, bjarg­vætti heims­ins, víða um heim með kók í hönd, í dýr­legum kol­sýrðum fagn­aði með inn­fæddum. Ísland var meðal land­anna sem Kók tók fyrir.

 

7. Systir Nietzsches stofnaði aríanýlendu í Paragvæ

 

Í litlu sveita­þorpi í Paragvæ bera sumar göt­urnar þýsk nöfn. Sveitin ber nafnið Nueva Germania, (ísl. Nýja-​​Germanía) en íbúarnir eru afkom­endur þýskra bænda sem fluttu til stað­ar­ins seint á nítj­ándu öld með hjón­unum Bernhard Förster og Elisabeth Nietzsche en hún var systir heim­spek­ings­ins Friedrichs Nietzsche. Draumur skötu­hjú­anna var að skapa hrein­rækt­aða aría­ný­lendu. Þær áætlanir end­uðu með ósköpum.

 

8. Þegar Vogue og GQ fóru til Írans

 

Árið 1969 var Íran í tísku hjá vestrænum tískutímaritum og bæði Vogue og Gentleman’s Quarterly — GQ — sendu ljósmyndara sína og fyrirsætur til landsins. Þetta var áratug fyrir íslömsku byltinguna og Íran var ekki ógn í vest­rænum augum, aðeins heill­andi og exó­tískt.  Það þótti því ekk­ert til­töku­mál að banda­rískar fyr­ir­sætur væru ljós­mynd­aðar sprang­andi létt­klæddar í nýj­ustu tísku í höllum og guðs­húsum Persíu.

 

9. Landamærastöðvar kjánalegs göngulags

 

Í þorpinu Wagah, rúm­lega miðja vegu milli Lahore og Amritsar er eina landa­mæra­stöðin á milli Indlands og Pakistan. Landamærin kljúfa þorpið litla í tvennt, annar helm­ingur í Indlandi og hinn í Pakistan. Á hverju kvöldi þegar landamærastöðinni er lokað og fánar landanna tveggja dregnir niður á sér stað furðuleg athöfn. Landa­mæra­verðir grann­land­anna kepp­ast í að vera með sem glæsi­leg­ust yfir­vara­skegg, stærst höf­uð­föt, og marsera á eins ýktan og her­skáan hátt og hægt er.

10. Fágaðir og litríkir herramenn í Kongó

Í báðum Afríkuríkjum kenndum við ána Kongó, og í sam­fé­lögum Kongómanna erlendis, má finna félags­skap karla sem kalla sig La Societe des Ambianceurs et Personnes Elegantes (SAPE) — Félag frum­kvöðla og fág­aðs fólks, gæti það kall­ast á íslensku. Meðlimir félag­anna, sapeurs, hafa áhuga á tísku og leggja sig fram um að klæða snyrti­lega, áber­andi og sem glæsilegast. Meðlimir SAPE-​​hreyfingarinnar hafa lífgað upp á götur borga í Kongó í áratugi. Ekki einu sinni valda­tíð ein­ræð­is­herr­ans alræmda Mobutu Sese Seko í Austur-​​Kongó náði að ráða nið­ur­lögum glæsi­menn­anna.