Air Koryo er ríkisflugfélag Norður-Kóreu. Á síðunni Skytrax skrifa ferðalangar umsagnir um flugfélög og gefa þeim stjörnur. Air Koryo er eina flugfélagið sem fær bara eina stjörnu á Skytrax. Er Air Koryo þá versta flugfélag í heimi?

 

Af umsögnunum að dæma er flugferð með Air Koryo allavega sérstök upplifun. Byltingarmarsar eru spilaðir fyrir flugtak og lendingu.

 

Vatnsgufa úr loftræstingunni gerir loftið í farþegarýminu þokukennt. Flugfreyjurnar ganga um með tuskur til þess að þurrka rakann áður en drýpur niður á farþegana.

 

„Það var eins og þau væru með þokuvél í gangi í farþegarýminu“ skrifaði einn ferðalangur.

 

 

Í nýrri flugvélum Air Koryo eru sjónvarpsskjáir, en það eina sem er sýnt á þeim eru tónleikar með norðurkóreskri áróðurstónlist. Sömu tónleikarnir eru spilaðir aftur og aftur á meðan fluginu stendur.

 

Ef það er ekki nógu gott fá allir farþegar ókeypis lesefni. Í dagblaðinu Pyongyang Times má lesa um nýjustu afrek leiðtoga Norður-Kóreu.

 

„Kim Jong Il veitir 11. maí-verksmiðjunni leiðsögn“ segir á þessari forsíðu Pyongyang Times frá 2011.

 

Air Koryo er ekki nískt á mat. Það er boðið upp á nóg að borða um borð. Þeir sem skrifa á Skytrax eru ósammála um gæði matarins. Oft er boðið upp á einhverskonar hamborgara. „Órætt kjöt, en nokkuð gómsætt.“

 

En aðrir lýsa matnum sem „ömurlegum“ og „viðbjóðslegum“.

 

Maturinn myndast kannski ekki sérstaklega vel.

 

Flugfreyjurnar eru það besta við Air Koryo, að mati Skytrax. Þær fá heilar þrjár stjörnur. Flugfreyjurnar eru „skeytingarlausar en þó kurteisar.“

 

Air Koryo flýgur bæði innanlands í Norður-Kóreu og utanlands, aðallega til borga í Kína og Rússlandi.

 

Fyrir nokkrum árum flaug Air Koryo líka til alla leið til Kuwait-borgar, höfuðborgar samnefnds smáríkis við Persaflóa. En flugleiðinni Pyongyang-Kuwait var svo hætt eftir nokkra mánuði, án útskýringa. Því miður. Nú er aftur miklu meira vesen að ferðast milli Kuwait og Pyongyang.

 

Evrópusambandið hefur bannað Air Koryo að lenda á flugvöllum í Evrópu vegna „alvarlegra anmarka á öryggismálum“. En Air Koryo hefur þó ekki lent í alvarlegu flugslysi síðan 1983.

 

Er því nokkuð að óttast? Á vefsíðu Air Koryo er hægt að bóka flug til Pyongyang frá Beijing og Shenyang í Kína og Vladivostok í Rússlandi. Verðið er viðráðanlegt. Það er líka hægt að gerast aðdáandi Air Koryo á Facebook.

 

 

 

 

sunan

 

Fríhöfnin í Pyongyang.

 

Myndir eftir Mark Fahey, ComradeanatoliiKwramm og Calflier001 á Flickr.