Í dag er ár liðið síðan Ben Ali, forseti Túnis til 24 ára, hrökklaðist frá völdum eftir fjöldamótmæli almennings.

 

Hann hafði þá reynt að kveða niður mótmælin með lögreglu- og hervaldi. Árangurslaust — fólkið hafði sigurinn að lokum. En 224 mótmælendur létu lífið áður en forsetinn lét sig loksins hverfa.

 

Hluti þessara píslarvotta byltingarinnar ganga nú aftur á götum Túnisborgar. Fransk-alsírski listamaðurinn Bilel Kaltoun teiknaði myndir í raunstærð af 40 fórnarlömbum og styllti þeim svo upp víðsvegar um borgina.

 

Ef til vill þörf áminning nú á ársafmæli arabíska vorsins, enda vilja margir Túnisbúar halda baráttunni áfram.

 

Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Bilel Kaltoun, Zoo-Project.com.