Vídjó

Á hverju laugardagskvöldi á árunum 2006-2012 horfðu milljónir Kínverja á sjónvarpsþáttinn Viðtöl fyrir aftöku. Í þessum ótrúlega spjallþætti ræddi fréttakonan Ding Yu við dauðadæmda morðingja. Hugsunin var að morðingjarnir fengju þar tækifæri til að útskýra voðaverk sín og til að flytja síðustu skilaboðin til umheimsins. Stundum fóru viðtölin fram rétt fyrir aftökur og í nokkrum tilvikum var hún viðstödd nokkrum mínútum áður en fangarnir voru færðir á aftökustaðinn þar sem þeir voru teknir af lífi með aftökusveit.

 

Dauðarefsingin er í gildi fyrir tugi glæpa í Kína til dæmis fyrir smygl, fjárdrátt og spillingu. En í umræddum sjónvarpsþætti var einungis rætt við morðingja. Kínverska ríkið gefur ekki upp hversu margir eru teknir af lífi í landinu en talið er að það séu mörg þúsund manns á ári.

 

Horfið á magnaða heimildarmynd frá BBC um þessa þætti þar sem rætt er við sjónvarpskonuna Ding Yu um upplifun sína af viðræðum við fangana og sýnt er frá réttarhöldum og fangelsum. Sýnd eru brot úr viðtalinu sem Ding Yu tók við samkynhneigðan morðingja rétt áður en hann var færður í hlekki og keyrður um borð í jeppa í átt að aftökustaðnum. Það viðtal sló öll áhorfsmet en samkynhneigð er mikið feimnismál og tabú í Kína.