Ímyndaðu þér, ágæti lesandi, að árið sé 1944, og þú sért starfsmaður á skrifstofu þýska efnarisans IG Farben í Frankfurt. Þó þú sért bara skrifstofumaður ertu nokkuð fríþenkjandi og hefur gert þér grein fyrir því að málstaður Þjóðverja í heimsstyrjöldinni er óverjandi.

 

En þú ert jú bara skrifstofumaður, svo þú ferð leynt með andóf þitt, segir ekki sálu frá og reynir að einbeita þér bara að vinnunni — það er hvort eð er lítið sem þú gætir gert til að hafa áhrif á gang styrjaldarinnar.

 

Eða hvað?

 

Í ársbyrjun 1944 gaf Office of Strategic Services (OSS), forveri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, út bækling upp á um þrjátíu síður um það sem kallað er „einföld skemmdarverk“, Simple Sabotage Field Manual.

 

„Einföld“ skemmdarverk voru þau sem auðvelt að fremja, áttu ekki að stefna skemmdarvarginum í mikla hættu og vekja litla athygli, allavega í fyrstu.

 

Leiðbeiningarnar voru hugsaðar fyrir njósnara OSS í fyrirtækjum og stofnunum óvinaríkis — en ekki síst fyrir hinn „almenna skemmdarverkamann“, menn eins og hinn ímyndaða starfsmann IG Farben sem við kynntumst hér áðan, sem er ósáttur við stefnu stjórnvalda en hefur ekki aðstöðu til, eða þorir einfaldlega ekki, að grípa til róttækra aðgerða.

 

Með því að fylgja leiðbeiningum og hvatningum OSS gæti hann þó lævíslega grafið undan starfsemi vinnuveitenda síns — meðal annars með því að vinna hægt og illa, vera ósamvinnuþýður og flækja hlutina óþarflega. Hugsunin var að þessum leiðbeiningum yrði dreift í óvinaríkinu með flugriti eða í útvarpi.

 

Hver er skemmdarvargurinn?

Hver er skemmdarvargurinn?

 

Leynd var svipt af skjalinu fyrir nokkrum árum og er það nú birt í heild sinni á ágætum vef CIA.

 

Bæklingurinn er ansi ítarlegur og eru þar tillögur að skemmdarverkastarfsemi fyrir ýmsar starfsstéttir. Verksmiðjustarfsmenn eiga þannig til dæmis að sleppa því að taka til eftir sig eða ganga frá verkfærum, safna saman eldfimu rusli og stífla klósettin í verksmiðjunni með svampi og skipta ekki um klósettpappír.

 

Starfsmenn í miðasölu á lestarstöðvum eiga að selja sömu miðana tvisvar til að reyna að stofna til rifildis á milli farþega. Starfsmenn á símaskiptiborðum ættu að gefa sífellt upp röng númer eða skella á. Tæknimenn í útvarpi, sem neyðast til að senda út áróðursræður, eru svo hvattir til að stilla tækin þannig að sá sem tali hljómi eins og hann sé undir teppi með munninn fullan af glerkúlum, og svo má lengi telja.

 

En sá hluti leiðbeiningabæklingsins sem virðist geta átt vel við enn í dag er án efa sá sem snýr að skrifstofuvinnu — hvernig hvítflibbar, óbreyttir jafnt sem yfirmenn, geta unnið skemmdarverk á vinnustað sínum, og dregið úr framleiðni og vinnumóral svo lítið beri á. Lítum á leyniskjölin — gæti ef til vill leynst njósnari á þínum vinnustað?

 

  • Krefjist þess að gera allt í gegnum „réttar boðleiðir“. Ekki leyfa fólki að stytta sér leið til að flýta fyrir.

 

  • Haldið ræður. Talið eins oft og mögulegt er, í löngu máli. Skýrðu mál þitt með löngum útúrdúrum og persónulegum frásögnum.

 

  • Vekið máls á einhverju alls óviðkomandi eins oft og hægt er.

 

  • Þrefið yfir orðalagi minnisblaða, fundargerða og ályktana.

 

  • Vísið til ákvarðana sem teknar voru á síðasta fundi og reynið að taka aftur upp umræðu um réttmæti þeirra ákvarðana.

 

  • Misskiljið öll fyrirmæli. Spyrjið endalausra spurninga eða efnið til mikilla bréfaskipta um hver fyrirmæli. Snúið út úr þeim ef hægt er.

 

  • Til að draga úr framleiðni og gera vinnuandann verri, verið þá góðir við lélega starfsmenn og gefið þeim stöðuhækkanir sem þeir hafa ekki unnið fyrir. Verið verri við duglega starfsmenn og kvartið ranglega yfir störfum þeirra.

 

  • Þegar brýn þörf er á því að sinna mikilvægu verki, boðið þá til fundar.

 

  • Fylgið öllum reglum til hins ýtrasta.

 

  • Flækið allt verklag og sjáið til þess að þrír starfsmenn þurfi að samþykkja allt sem væri nóg að einn gerði.

 

  • Setjið öll mál í nefnd til frekari „athugunar og umhugsunar“, hvenær sem hægt er. Reynið að hafa nefndirnar eins stórar og hægt er — aldrei færri nefndarmenn en fimm.