Jónas Sveinsson læknir rannsakaði „yngingaraðgerðir“ á námsárum sínum í Vínarborg á þriðja áratugnum. Þegar Jónas kom heim og gerðist læknir á Hvammstanga hóf hann að gera ýmsar furðulegar aðgerðir á íbúum þar, fyrst hundum en svo niðursetningum.

 

Hann taldi sig hafa gefið öldruðum vinnukarli glataðan æskuþrótt. Þetta vakti athygli utan landsteinanna og um 1930 ferðaðist norskur skipakóngur til Hvammstanga þar sem Jónas græddi í hann eista sem hann hafði keypt af ungum manni í sveitinni.

 

Ha?

 

Þetta er dálítið löng saga:

 

Á fyrri hluta 20. aldar hófu vísindamenn víða um heim að gera athyglisverðar tilraunir á kynfærum karlmanna – en þeir trúðu því að hrörnun innkirtla líkamans væri aðalorsök öldrunar. Þetta náði hámarki sínu með kynfæraígræðslum þar sem ýmist var stundað að flytja eistu úr öpum yfir í kynfæri manna, eða hreinlega færa eistu á milli manna.

 

Sumt sem var rannsakað með háalvarlegum hætti í gamla daga er fjarstæðukennt og jafnvel hlægilegt rugl í augum okkar nútímamanna.

 

Fransk-rússneskur læknir, Serge Voronoff, stundaði til dæmis svona rannsóknir á þriðja áratug síðustu aldar og hlaut heimsfrægð fyrir.

 

Voronoff prófaði furðulegar kenningar sínar fyrst á dýrum, með því að græða hluti úr mannslíkamanum í dýr – þar á meðal hrúta, geitur og naut. Samkvæmt lýsingum hans og mati, endurheimtu eldri dýr, sem fengið höfðu kynkirtla og eistu úr yngri mönnum, glataðan æskuþrótt.

 

Serge Voronoff og frú.

Serge Voronoff og frú.

 

Árið 1920 framkvæmdi Voronoff svo fyrstu aðgerðina á manni þar sem hann græddi örþunnar sneiðar af simpansa- og bavíanaeistum í pung á gömlum bankastjóra. Öldungurinn varð hinn hressasti eftir aðgerðina og leið eins og kornungum flagara. Voronoff hlaut mikið lof fyrir þessa aðgerð á alþjóðlegri ráðstefnu í London árið 1923 þar sem 500 færustu skurðlæknar heims hylltu hann með lófataki og hvatningarhrópum.

 

Yngingaraðgerðir Voronoffs.

Yngingaraðgerðir Voronoffs.

 

Voronoff aðhylltist svokallaða kynbótastefnu. Hann trúði því að hægt væri að rækta mannkynið og bæta með ýmsum aðferðum. Menn hefðu í aldir vanvirt líkama sína og nú þyrfti að snúa þeirri þróun við. Og hvers vegna skyldi ekki leitað til dýraríkisins um líffræðilega hjálp?

 

Og á þriðja og fjórða áratugnum voru eistu og kynkirtlar úr simpönsum og bavíönum græddir í þúsundir manna víða um heim.

 

Annar brautryðjandi á þessu sviði var dr. Eugen Steinach í Austurríki, en hann var einn af fremstu læknum heims á sviði innkirtlafræði.

 

Einn af lærisveinum hans var Jónas Sveinsson. Jónas var læknir í Húnavatnssýslum frá því hann útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands 1923, með nokkrum hléum til 1934.

 

Sumarið 1927 og fram á vetur dvaldist hann við framhaldsnám í Vínarborg og kynntist þar óvenjulegum tilraunum til að yngja menn upp með skurðaðgerðum. Þær fóru fram undir ægishjálmi dr. Steinach. Tilraunirnar voru af ýmsu tagi. Steinach bar til dæmis efnið phenol á svonefndan sæðisstreng karlmanna og átti það að kveikja nýtt líf í eistum þeirra. Einnig prófaði hann að skera „glugga“ á himnu umhverfis eista svo kirtlar þar hefðu aukið rými til starfa.

 

Dr. Eugen Steinach (1861-1944), lærimeistari Jónasar í Vínarborg.

Dr. Eugen Steinach (1861-1944), lærimeistari Jónasar í Vínarborg.

 

Jónas heillaðist af þessum tilraunum. Þegar hann kom aftur í læknishérað sitt á Hvammstanga árið 1927 langaði hann að reyna fyrir sér á þessu sviði. Hann hafði lokið embættisprófi í handlækningum en taldi sig enn þurfa nokkurrar æfingar við í skurðaðgerðum áður en hann gæti farið að hella sér út í yngingaraðgerðir.

 

„Lífið er dásamlegt“. Ævisaga Jónasar.

„Lífið er dásamlegt“. Ævisaga Jónasar.

 

Jónas Sveinsson ræðir þessi mál og önnur í sjálfsævisögu sinni sem heitir því viðeigandi nafni Lífið er dásamlegt. Í formála bókarinnar skrifar Jónas:

 

Það er sagt, að líf okkar allra sé langferð til ókunnra landa, og sú saga, sem þá gerist, öll sagan, hvort heldur hún er stutt eða löng.

 

Á leiðinni um ævintýralönd lífsins er það nú einu sinni þannig, að veðrabrigðin verða ekki lesin við ljós upprennandi sólar. Allt getur skeð án þess að við höfum hugboð um nokkurn skapaðan hlut.

 

Við vöknum glaðir og reifir að morgni, og svo skeður það skyndilega, að við erum hrifnir á brott frá önn dagsins.

 

Ferðinni er lokið, og þar með sú sagan í lífi hvers okkar liðin og búin.

 

Þetta er niðurstaða mín eftir hálfrar aldar umhugsun, nám og starf að því að lengja mannsævina og gera hana notalegri.

 

Við komuna heim til Íslands árið 1928 hafði hann semsagt velt kenningum læknanna Voronoff og Steinach mikið fyrir sér. Hann segist hafa verið gersamlega hugfanginn af fræðum þessara tveggja snillinga eins og hann orðar það, og legið andvaka um vetrarnætur við þessar hugleiðingar. En þá var komið að því að hrinda hugmyndunum í framkvæmd á Íslandi.

 

Og ég lét ekki sitja við vangavelturnar einar. Á Hvammstanga var þá mikil gnótt af hundum, sem ég gat fengið að æfa mig á.

 

Þeir voru hreint ekki svo fáir húnvetnsku rakkarnir sem hlupu um með mismunandi heila maga af mínum völdum síðustu misserin á þriðja tug aldarinnar.

Hundur sem Steinach yngdi.

Hundur sem Steinach yngdi.

 

Úr sumum þessara hunda nam ég burtu svo mikið af meltingarfærunum að algjört lágmark var eftir, en þeir lifðu áfram eins og ekkert hefði í skorizt við glaum og gleði.

 

Þegar ég hugsa nú um hinn mikla fróðleikþorsta, sem kviknaði í brjósti mér sumarið 1927 í dýraskurðstofum Steinachs, þá hlýt ég að viðurkenna, að fróðleikur minn gat tæpast heitið kominn af forvitnistiginu, er ég kom heim.

 

Það var ekki fyrr en eftir mikinn lestur og margs konar heilabrot í áratugi eftir þetta, að ég taldi mig hafa aflað mér nægilega haldgóðrar þekkingar til þess að ég mætti virkja hana að gagni.

 

En hvað um það. Ekki fannst mér það viðunandi að láta við það eitt sitja að hringla með innyfli smalahunda byggðarlagsins. Mig fýsti að gera Steinach-aðgerð á manni og sjá árangurinn. Og ég þurfti ekki lengi að leita sjúklings, sem þörf hefði fyrir einhverja aðstoð í baráttunni við Elli kerlingu.

 

Á sveitabæ nokkrum í grennd við Hvammstanga var niðursetningur á níræðisaldri. Hafði sá verið mesti hörkukarl á yngri árum, vel byggður og heilsugóður, en nú orðinn skar, karlægt að karla. Á þessum karli gerði ég báðar Steinach-aðgerðirnar, bar phenol á sæðisstrenginn og setti glugga á eistun.

 

Er ekki að orðlengja það, að Mangi gamli tók stakkaskiptum á nokkrum dögum, fékk fótavist og verulegt starfsþrek, varð glaðlegur og hressilegur í tilsvörum, ef ekki beinlínis kjaftfor, umfram það sem æskilegt gat talizt af hálfu sveitarlims.

 

Er þá enn ótalið það, sem merkilegast þótti og benti til þess, að ég hefði mátt láta sitja við aðra Steinach-aðgerðina í þetta skipti.

 

Mangi svaf á baðstofu þarna á bænum og gagnvart honum kerling ein á sjötugsaldri.

 

Screen Shot 2015-01-15 at 6.27.53 PM

 

Skömmu eftir aðgerðina urðu menn þess vísari, að Mangi var farinn að venja komur sínar í rúmið hinum megin á nóttunni.

 

Um það hátterni Manga frétti ég fyrst frá oddvita sveitarinnar. Hann heimsótti mig í læknabústaðinn einn daginn þeirra erinda að bera fram formlega skaðabótakröfu á hendur mér af hálfu sveitarfélagsins.

 

Bóndi sá, er Mangi gamli var settur niður hjá, hafði komið til oddvitans og krafizt þess, að meðlagið með karlinum yrði hækkað úr 100 í 300 krónur á ári. Sagði hann, að það væri fyrst fram að telja, að Mangi væri orðinn svo hraustur og kjaftfor eftir læknisaðgerðina, að hann væri tæpast mælandi málum lengur.

 

Í öðru lagi ynnust þau nú, kerlingin og Mangi, með þess háttar látum, að friðspjöll mætti heita á heimilinu.

 

Og í þriðja lagi mætti heita víst, að barn, sem komið hafði undir í baðstofu þessari hjá vinnukonu og vinnumanni á heimili þessu, ætti einnig rætur að rekja til læknisaðgerðarinnar, þar eð ungu hjúin hefðu dregið dám af karli og kerlingu.

 

Guðbrandur Jónsson var fréttaritari fyrir ýmis erlend stórblöð á þessum árum, auk þess sem hann skrifaði að staðaldri í Alþýðublaðið. Hann þóttist finna fréttalykt af málinu, hringdi til bónda þess, sem Mangi gamli var hjá, og einnig til mín og skrifaði síðan langar greinar um Hvammstangaævintýrið, eins og sagan var fljótlega kölluð, bæði í innlend og erlend blöð.

 

Áður en ég vissi af, var sagan um fjöruga karlinn á Hvammstanga sem sagt komin út um allan heim.

 

Um vorið lá leið Jónasar aftur til meginlands Evrópu og þá uppgötvaði hann að málið hefði spurst til Kaupmannahafnar, því hann sá í leikhúsinu National Scala revíu um „dr. Svendsen og ástfangna karlinn á Hvammstanga“.

 

Kaupmannahöfn á þriðja áratugnum.

Kaupmannahöfn á þriðja áratugnum.

 

Í þessari ferð kynntist Jónas dr. Voronoff, hinum heimsfræga lækni sem sagt var frá í inngangi, og vann með honum um skeið og lærði ýmsar aðferðir af honum. Árið eftir gafst honum einstakt tækifæri til að prófa þær ekki síður en aðferðir Steinachs.

 

Það var síðsumars árið 1929, að ég fékk bréf frá norskum skipakóngi, Martensen að nafni, búsettum í Lysekil. Kvaðst hann vera sjötíu og þriggja ára gamall, hafa misst fyrri konu sína fyrir nokkrum árum, en væri nú nýlega giftur tuttugu og þriggja ára gamalli stúlku. Þá konu kvaðst hann nú vera að því kominn að missa frá sér vegna ellihrumleika. Hann sagðist vera einn af ríkustu mönnum Noregs og hafa ráð á því að borga það, sem ég setti upp, ef mér tækist að yngja hann upp með skurðaðgerð.

 

Jónas svaraði að honum væri frjálst að koma til Hvammstanga og skyldi hann freista þess að veita honum úrlausn, og stakk þá upp á nýrri aðgerð sem aldrei hafði verið gerð áður en ástæða væri til að ætla að gæti tekist vel.

 

Strax og ég fékk jákvætt svarbréf frá þeim norska, hófst ég handa um undirbúninginn. Fyrst samdi ég við ungan bónda í sýslunni, sem ég vissi, að var í fjárþröng vegna jarðakaupa, um að selja mér annað eista sitt fyrir tvö þúsund krónur, en sú upphæð nægði honum til að festa sér ágætis jörð í þá daga. Þar næst gerði ég ráðstafanir til að fá Norðmanninn fluttan norður frá Reykjavík, en þá voru bílar rétt að byrja ferðir yfir Holtavörðuheiði.

 

Og svo kom Martensen, ógnarlega hár og þrekinn auk fitunnar. Ég lét hann hvílast í tvo daga, og þá kom óperasjónin: Þeir lágu hvor á sínu skurðarborði, útgerðarmaðurinn og bóndinn. Aðgerðin var í sjálfu sér mjög einföld. Ég tók verulegan hluta af öðru eista unga mannsins, sneiddi hann niður og saumaði svo við eista Norðmannsins með Voronoffaðferðinni. Þó hygg ég, að ég hafi gert þetta ennþá vandvirknislegar en Voronoff prófessor, því ég saumaði allan hringinn og hafði margfaldar raðir af vefjasneiðum í þeirri von, að hormónavökvinn myndi gera þeim mun meira gagn.

 

Síðan fékk ég bréf frá Martensen árlega fram til 1939. Þá var hann orðinn áttatíu og þriggja ára og hafði getið þrjú börn með konu sinni.

 

Af okkur félögunum er annars það að segja, að bóndi notaði sinn feng, eins og fyrirhugað var, til jarðarkaupa. Hann glæptist á því, eitt sinn á kenderíi, að gorta af því, hvað hann hefði komið öðru eista sínu í gott verð, – og varð að bitbeini fyrir bragðið. Meðal annars brá nú svo að, að engin stúlka vildi dansa við hann framar.