Hún er óneitanlega glæsileg, Garðabrúin sem rís senn í Thames-ánni í Lundúnum. Ráðgert er að brúin, sem heitir á frummálinu The Garden Bridge, verði vígð árið 2018 en henni er ætlað að tengja saman Inns Court og Temple Church á norðurbakkanum við Tate Modern-listasafnið við suðurbakka. Brúin verður 367 metra löng og 30 metra breið.

 

Það var leikkonan Joanna Lumley sem átti hugmyndina að brúnni en hún er öllu þekktari sem hin óborganlega Patsy Stone í þáttunum Absolutely Fabulous, eða Tildurrófum. Með hönnun brúarinnar fór Thomas Heatherwick, sem þykir einn allra heitasti í bransanum í dag.

 

Patsy Stone var yfirleitt nettblekuð í Absolutely Fabulous og ávallt með sígarettu í hönd. Hún var leikin af Joönnu Lumley, sem átti hugmyndina að Garðabrúnni.

Patsy Stone var yfirleitt nettblekuð í Absolutely Fabulous og ávallt með sígarettu í hönd. Hún var leikin af Joönnu Lumley, sem átti hugmyndina að Garðabrúnni.

 

Brúin er einstök að því leyti að þar verður bílaumferð bönnuð, skiljanlega, enda verður allt morandi í trjám. Garðabrúin er þó orðin umdeild nú þegar, þótt enn séu liðlega þrjú ár þangað til fólk á þess kost að ganga eða hjóla á henni. En um það standa einmitt deilurnar, því nú lítur út fyrir að það fá ekki allir að ganga eða hjóla um í íðilfögru grænu umhverfi brúarinnar.

 

Nú þegar hefur tekist að tryggja hluta fjármögnunnar brúarinnar. Talið er að hún eigi eftir að kosta 175 milljónir punda, eða sem nemur tæpum 34 milljörðum íslenskra króna. Nú þegar hafa safnast saman 60 milljónir punda, en þar af eru 30 milljónir frá ríkissjóði og 30 frá Lundúnaborg – en Boris Johnson, borgarstjóri, er sérstaklega áhugasamur um verkefnið.

 

Brúin verður tilkomumikil að sólarlagi.

Brúin verður tilkomumikil að sólarlagi.

 

En til að klára fjármögnun á verkefninu þarf The Garden Bridge Trust, sem eru regnhlífarsamtök verkefnisins, að leita til einkaaðila. Þeir sjá fyrir sér að nýta sér brúnna sem enn einn áfangastað ferðamanna í Lundúnum. Verða því settar nokkuð strangar skorður um hverjir geta farið yfir brúnna hverju sinni. Telji hópur af fólki fleiri en átta, verður til að mynda nauðsynlegt að skrá sig hjá umsjónarmanni brúarinnar og greiða gjald, áður en lagt er í leiðangurinn yfir. Það sama gildir fyrir fólk á sjálfbærum samgöngutækjum eins og reiðhjólum.

 

Íbúar Lundúna eru nokkuð fúlir með þessar fyrirætlanir – og það skiljanlega. Búið er að eyrnamerkja 60 milljónir punda af skattfé almennra borgara, sem þurfa síðan að greiða aukalega til að ferðast yfir brú. Bretar rífast meira að segja um skilgreininguna á orðinu „brú“ vegna verkefnisins – en brú ætti að tákna rétt almennings til að fara óáreittur yfir á. Nú lítur út fyrir að sá réttur verði einungis tryggður með aukagreiðslu og fyrirfram bókun.

 

Reiknað er með að „gestir“ brúarinnar verði um 7,1 milljón á hverju ári og er búist við allt að 30 þúsund manns á laugardögum. Umferðin verður því umtalsverð, því aðeins er rými fyrir um 2500 manns á hverjum tíma á Garðabrúnni.