Á fyrstu mánuðum fyrri heimsstyrjaldar flutti Morgunblaðið fréttir af framvindu stríðsins í Evrópu. Í blaðagreinum um stríðið var „General Staff“ nokkur áberandi, en téður hershöfðingi virtist í senn starfa fyrir heri Þýskalands, Rússlands og Tyrklands. Einn lesandi, Júlíus, furðaði sig á þessu og sendi fyrirspurn til blaðsins sem var birt og svarað þann 17. nóvember 1914:

 

Hver er General Staff?

 

Í blaði einu á sunnudaginn stendur, að hinn þekti [sic] tyrkneski General Staff hafi brotist með her manns inn á Egyptaland og er bætt við að kona hans og dóttir séu í för með honum. En fyrir liðugum hálfum mánuði stóð að samnefndur General rússneskur, Staff, væri önnum kafinn við undirbúning innrásar Rússa í Austur-Prússland. Og við og við skýrir sama blað frá, að hinn frægi þýzki General Staff sé nú kominn til framfylkinganna, eða hafi aðsetur sitt í þessum og þessum bæ.

 

Má eg því leyfa mér að spyrja yður, háttvirti herra ritstjóri: Er þessi tyrkneski General Staff skyldur hinum rússsneska General Staff og er sá þýzki General Staff kannske bróðir þeirra? Eða er þessi General Staff ekki neinn General Staff, því ekki sézt í nokkru innlendu eða útlendu blaði (ekki einu sinni »Times«) getið um neinn tyrkneskan, rússneskan eða þýzkan General Staff.

 

Má eg því biðja yður að fletta ofan af þessum leyndardómsfulla herra: hinum þekta [sic], fræga, tyrkneska, rússneska, þýzka General-Generalissmus S-t-a-f-f-.

 

Júlíus

 


 

Eftir tilmælum ritstj. svara eg fyrirspurn hins fróðleiksfúsa herra Júlíusar.

 

Misskilningur sá í nefndu blaði, sem ræðir um í fyrirspurninni, mun „staffa” af því, að ensku kunnáttu blaðsins er dálítið ábótavant. „General Staff” þýðir herforingjaráð en ekki Staff hershöfðingi. En það er nú svo sem enginn munur!! Staff er því hvorki rússneskur, tyrkneskur eða þýzkur, heldur er hann skilgetið barn dagblaðs-ritstjórans, er hann hefir getið með einhverjum þeirra er við blaðið starfar. Þó er talið líklegt að hann sverji fyrir Staff litla.

 

Filurius