Þegar George Lucas, skapari Stjörnustríðsmyndanna, bað listamanninn Ralph McQuarrie um að hanna Chewbacca, eða Loðinn eins og hann var kallaður í íslenskri þýðingu, sagði hann honum að teikna veru sem líktist lemúr.

 

Fyrstu teikningar McQuarries sýndu Loðinn, svo við notumst við íslensku þýðinguna, sem stórvaxinn mannapa með risastór augu og eyru sem sköguðu beint upp í loftið.

 

ch1

 

Þessar teikningar héldust vel í hendur við það sem stóð í öðru uppkasti handritsins en í því er Loðnum lýst sem hávaxinni skepnu sem líkist risavöxnum galagóapa (fjarskyldum ættingja lemúrsins) með vígtennur ekki ósvipuðum vígtönnum bavíanans. Augu hans eru stór og gul og jafnframt sá hluti andlitsins sem er hvað mest áberandi.

 

ch2

 

Loðinn átti eftir að taka mörgum breytingum frá þessum fyrstu teikningum. Og þar kemur að óvæntri tengingu við einn vinsælasta fantasíurithöfund síðustu ára.

 

Í viðtali sem tekið var við McQuarrie skömmu fyrir andlát sitt sagði hann að George Lucas hafi tekið virkan þátt í sköpunarferlinu. Lét Lucas hann hafa gamlar myndir af loðnum verum með sex brjóst. McQuarrie fjarlægði brjóstin af verunum og í þeirra stað hengdi hann á þær skotfærabelti.

 

Í dag þykir nokkuð ljóst að teikningarnar sem Lucas lét McQuarrie í té voru teikningar sem bandaríkjamaðurinn John Schoenherr hafði gert fyrir smássöguna With Morning Comes Mistfall sem var gefin út árið 1975 og var eftir rithöfundinn G.R.R. Martin sem er nú betur þekktur sem skapari Game of Thrones.

 

Hér að neðan má sjá teikningar þeirra McQuarrie og Schoenherr.

 

ch3

 

Chewbacca eins og hann birtist í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni og veran í bók G.R.R. Martin:

 

ch4

 

Mikið hefur verið fjallað um hvert George Lucas sótti fyrirmyndir sínar fyrir Star Wars. Engin furða þar sem um er að ræða einar vinsælustu kvikmyndir sögunar. En hverjar sem fyrirmyndirnar eru þá tókst þeim McQuarrie og Lucas að skapa persónur sem fönguðu ímyndunarafl ungs fólks og lifa þar áfram góðu lífi.