Dvergvaxið fólk hefur frá alda öðli hlotið illa meðferð. Á 17. og 18. öld var dvergvaxið fólk algeng sjón við hirðir konunga í Evrópu. Pétur mikli Rússakeisari tók þennan sið upp á sína arma og hélt sérstakt dvergabrúðkaup þar sem áhorfendur skemmtu sér og klöppuðu á meðan drukknir dvergar slógust.

 

Pétur mikli Rússakeisari ríkti frá 1682 til dauðadags árið 1725. Hann gaf sjálfum sér titilinn „mikli“ en opinber titill hans var Pétur I. Rússland gekk í gegnum gríðarlegar breytingar á valdatíð hans. Hann nútímavæddi landið sem hafði lengi verið eftirbátur ríkja í Vestur-Evrópu.

 

peturmikli

Pétur mikli. Rússakeisari frá 1682 til 1725. Ríkti með harðri hendi en gerði að sínu aðalmarkmiði að mennta þjóð sína og „Evrópuvæða“ hana.

 

Hann heillaðist af upplýsingarstefnunni og vildi koma Rússlandi úr myrkri miðalda og gera það að nútímalegu evrópsku ríki. Hann ferðaðist til Hollands og kynntist þar ýmsum tækninýjungum og hugmyndum. Hann reisti St. Pétursborg, nýja höfuðborg við Eystrasaltið og byggði upp sjóher.

 

Pétur mikli var samt sem áður mikill harðstjóri sem refsaði þeim grimmilega sem dirfðust að sýna honum mótspyrnu. Hann lét til dæmis pynta og myrða son sinn Alexei þegar hann seildist til valda.

 

peturogsonur

Myrti son sinn. Þetta málverk sýnir Pétur mikla yfirheyra son sinn, sem hann lét síðar pynta og drepa.

 

Sem „upplýsingarmaður“ hafði Pétur mikinn áhuga á ýmsum forvitnilegum hliðum náttúrunnar. Hann stofnaði Kunstkamera-safnið í St. Pétursborg sem geymdi gripi sem áttu að sýna fram á furður heimsins.

 

Pétur skipaði svo fyrir að öll börn sem látist höfðu við fæðingu vegna fötlunar í Rússlandi skyldu send á safnið sem dæmi um „náttúruleg slys“, en slík söfn voru algeng í Evrópu á þessum tíma.

 

Síamstvíburar á safni Péturs.

Síamstvíburar á safni Péturs.

 

Þessi iðja kveikti í honum ástríðu sem átti eftir að endast fram í dauðann. Hann fékk gríðarlegan áhuga á fólki sem þjáðist af dvergvexti.

 

Í bók breska sagnfræðingsins Lindsey Hughes um Pétur mikla, Peter the Great: A Biography, er sögð saga af frægu „dvergabrúðkaupi“ sem keisarinn hélt sér og hirð sinni til skemmtunar.

 

Iakim Volkov var aðalsmaður sem þjáðist af dvergvexti og þegar hann gekk að eiga konu sína stóðst Pétur mikli ekki mátið og hélt furðusýningu.

 

Keisarinn skipaði undirmanni sínum að safna öllum dvergum Moskvu saman og senda þá nauðuga til St. Pétursborgar. Þeir voru klæddir í spariföt í vestrænum stíl, með hárkollur, eins og þótti fínt þá.

 

Dvergvaxnir öreigar voru klæddir í „spariföt“ á meðan áhorfendur af aðalstétt fylgdust með.

Dvergvaxnir öreigar voru klæddir í „spariföt“ á meðan áhorfendur af aðalstétt fylgdust með.

 

Dvergasýning
Um 70 dvergar, sem flestir voru af almúgastétt, voru látnir sitja veisluna í þessum múnderingum. Þeir kunnu ekki fína borðsiði frekar en aðrir öreigar í Rússlandi á þessum tíma.

 

Dvergarnir sátu á litlum borðum í þessari furðulegu brúðkaupsveislu á meðan keisarinn og hirð hans sat allt í kring eins og áhorfendur í leikhúsi eða kappleik.

 

„Þau hlógu sig máttlaus á meðan dvergarnir, sérstaklega þeir eldri og ljótari, sem gátu ekki dansað vegna kryppu, feitrar bumbu og stuttra lappa, hnigu örendir niður vegna drykkju eða slógust,“ skrifar Hughes í bók sinni. „Dvergabrúðkaupið var skemmtiatriði. Okkur nútímafólkinu finnst hneykslanlegt að gera grín að lágvöxnu fólki, en flestar evrópskar konungshirðir á þessum tíma höfðu dverga í sínum röðum.“

 

Pétur mikli var mjög hávaxinn, var rúmir 2 metrar á hæð. Það ýkti muninn á milli hans og dverganna sem vakti hjá honum mikla kátínu. Samkvæmt Lindsey Hughes lét hann dverga reglulega skemmta sér, lét þá dansa nakta á borðum eða klæddi eins og riddara á póníhestum.

 

Bók Lindsey Hughes.

Bók Lindsey Hughes.

 

Táknrænn gjörningur
Pétur mikli stóð í miklu valdabrölti alla ævi. Hann barðist við uppreisnir frá öllum áttum. Hann eyddi mikilli orku í að „Evrópuvæða“ aðalsmenn sem í þá daga voru síðskeggjaðir sveitamenn sem báru ekki „höfðinglegt“ svipmót vestrænna aðalsmanna að mati Péturs. Hann skipaði þeim því að skipta um fatastíl og lagði háa skatta á skeggsöfnun.

 

Lindsey Hughes segir í áðurnefndri bók sinni um Pétur mikla að dvergabrúðkaupið hafi ekki einungis verið skemmtun. Það var líka táknrænn gjörningur.

 

„Dvergabrúðkaup Péturs lét gestina, sem voru í venjulegri stærð, finnast sem svo að þeir væru að horfa á skrípaútgáfur af þeim sjálfum, smávaxna „herramenn og frúr“, sem eins og gestirnir sjálfir, voru klæddir í framandleg vestræn klæði. Hirðmeðlimir Péturs áttu enn langt í land með að verða alvöru Evrópumenn, „vaxnir úr grasi“.

 

(Heimild: Peter the Great: A Biography eftir Lindsey Hughes, bls. 90-92) Efst í greininni er málverk Velázquez, El bufón don Sebastián de Morra.