Morgan Freeman er sögumaður í glænýrri heimildarkvikmynd um lemúra, Island of Lemurs: Madagascar. Myndin er væntanlega í kvikmyndahús vestanhafs í apríl. Nýjustu kvikmyndatækni er beitt til að fanga ótrúleg heimkynni lemúra og annarra furðuvera í frumskógum Madagaskar. Hin sorglega staðreynd er að lemúrar eru í bráðri útrýmingarhættu. Myndinni er ætlað að hvetja mennina til að hlúa betur að þessum frænda okkar.

 

Vídjó

 

Lemúrinn mun auðvitað horfa á þessa mynd og hvetur lesendur sína til þess sama!

 

Hvað eru lemúrar?

 

Lemúrar er ætt um 100 dýra­teg­unda af ýmsum stærðum og gerðum. Minnsti lemúr­inn er músalemúr frú Berthe, sem vegur aðeins 30 grömm, en sá stærsti er Indri indri, en hann vegur um 9 kíló. Indri indri er þó langt því frá stærsti lemúr sög­unnar, því fyrir aðeins tvö þúsund árum bjó lemúr á Madagaskar sem vó 200 kíló og var ekki ósvip­aður í stærð og gór­illur nútím­ans. Lemúrar telj­ast, rétt eins og menn, til ættbálks prímata og eru því náskyldir okkur.

 

Svíinn Carl Linneus, sem fann upp flokk­un­ar­kerfi nútím­ans í líf­fræði, gaf lemúrum nafnið á átjándu öld. Orðið lemúr er dregið af lat­neska hug­tak­inu lem­ures sem notað var yfir drauga eða næt­ur­verur í róm­verskri hjá­trú. Linneus valdi nafnið vegna drauga­legs yfir­bragðs næt­ur­dýrs­ins lemúrs. Nafnið rímar enn­fremur við hjá­trú fólks­ins á Madagaskar sem trúir að lemúrar séu end­ur­holdg­aðar sálir forfeðranna.

 

Lífverurnar á Madagaskar eru nokk­urs konar Róbinson Krúsó-​​karakterar í sögu lífs­ins á jörð­inni, algjör­lega ein­angr­aðir strandaglópar sem hafa þurft að fara eigin leiðir.

Lífverurnar á Madagaskar eru nokk­urs konar Róbinson Krúsó-​​karakterar í sögu lífs­ins á jörð­inni, algjör­lega ein­angr­aðir strandaglópar sem hafa þurft að fara eigin leiðir.

 

Eyjan Madagaskar til­heyrir afr­íska meg­in­land­inu ekki í jarð­sögu­legum skiln­ingi. Madagaskar var hluti heims­álf­unnar Gondwanalands fyrir um 100 millj­ónum ára en í fleka­reki jarð­kringl­unnar brotn­aði sá mikli land­massi upp í Suðurskautslandið, Indland, Austur-​​Afríku og eyj­una sem hér um ræðir.

 

Forfeður lemúr­anna voru frumprímatar sem bjuggu í Afríku fyrir um 65 millj­ónum ára, eða um það leyti er risa­eðlurnar dóu út. Vísindamenn hafa lengi velt vöngum yfir hvernig prímatar þessir komust til Madagaskar, en hið 600 kíló­metra breiða Mósambíksund skilur eyj­una frá meg­in­landi Afríku.

 

Sú skýr­ing er haft hefur mest fylgi – og hefur styrkst mikið á und­an­förnum árum – er að for­feður lemúr­anna hafi ein­fald­lega rekið yfir hafið frá Suðaustur-​​Afríku til Madagaskar með trjá­drumbum og gróðri. Talið er að sú leið hafi hins vegar lokast fyrir tugum millj­ónum árum síðar þegar haf­straumar breytt­ust á Indlandshafi og útil­ok­uðu rek gróð­urs yfir Mósambíksund.

 

Lemúrar hafa lifað í ein­angrun í Madagaskar í tug­millj­ónir ára. Áður en menn námu fyrst land á eyj­unni fyrir aðeins um tvö þúsund árum síðan, lifðu lemúrar í friði fyrir öðrum stórum spen­dýrum. Engir frekir apar á borð við frændur þeirra simp­ansa og gór­illur flækt­ust fyrir þeim. Madagaskar var frum­skógarp­ara­dís, ein af land­spildum jarð­ar­innar sem lengst fékk að vera í friði fyrir mannfólkinu.