Vígbúnir og vöðvastæltir málaliðar lenda þyrlu sinni einhvers staðar í frumskógum Mið-Ameríku. Verkefni þeirra er að bjarga ráðherra og áhöfn hans. Förin breytist snarlega í martröð þegar stórhættuleg rándýrs-geimvera byrjar að drepa þá einn á fætur öðrum.

 

Aðdáendur hasarmynda níunda áratugarins munu hér kannast við söguþráðinn í Predator (ísl. Rándýrið), klassískri hasarmynd frá árinu 1987 í leikstjórn John McTiernan, en hann gerði meðal annars Die Hard (ísl. Á tæpasta vaði).

 

Predator er stórskemmtileg mynd og Lemúrinn mælir hiklaust með henni. Það er hins vegar eitt svolítið óvenjulegt við vöðvastæltu, vopnuðu hasarleikarana sem þar koma fram. Hvorki meira né minna en tveir þeirra urðu ríkisstjórar í Bandaríkjunum, og einn til viðbótar bauð sig tvisvar fram til öldungadeildar bandaríska þingsins.

 


 

Ofurstjarnan Arnold Schwarzenegger fer með aðalhlutverkið í myndinni og leikur Dutch, leiðtoga málaliðanna. Árið 2003, sextán árum eftir gerð Predator, varð Schwarzenegger ríkisstjóri Kaliforníu og gegndi því embætti sem Repúblíkani í átta ár. Schwarzenegger þótti reka miðjupólitík.

 

Arnold

Predator er ein af betri myndum Schwarzeneggers.

 


 

Glímukappinn og fyrrum hermaðurinn Jesse Ventura leikur Blain „Ain’t Got Time To Bleed“, ógurlegan málaliða með risastóra hríðskotabyssu — Old Painless. Árið 1999, tólf árum eftir hlutverkið í Predator, bauð Ventura sig fram sem ríkisstjóra Minnesota-fylkis á vegum Umbótaflokksins (e. Reform Party) og vann óvæntan kosningasigur. Hann gegndi embætti ríkisstjóra í eitt kjörtímabil en sagði eftir það skilið við stjórnmálin. Í dag er hann með sjónvarpsþætti þar sem alls kyns samsæriskenningar fá fram að vaða.

 

Jesse Ventura

Glímukappinn Jesse „The Body“ Ventura varð að ríkisstjóranum Jesse „The Mind“ Ventura.

 


 

Sonny Landham, fyrrum klámmyndaleikari, er af Cherokee-ættum og fer með hlutverk hins dularfulla Billy, málaliða sem virðist búa yfir næstum yfirskilvitlegri næmni í frumskóginum. Árið 2003 tók Landham þátt í prókjöri Repúblíkana í Kentucky en náði dræmum árangri. Árin 2004 og 2008 bauð hann sig fram til öldungadeildar bandaríska þingsins en hlaut kjör í hvorugt skipti. Eitt af því sem skemmdi fyrir voru óheppilegar athugasemdir þar sem hann hvatti til ofbeldis gegn fólki af miðausturlenskum uppruna.

 

Sonny Landham

Sonny Landham hefur ekki notið sömu lukku í stjórnmálum og samleikarar sínir.

 


 

Carl Weathers leikur Dillon — eða eins og hann orðaði það sjálfur, „svarta gaurinn í myndinni“. Dillon starfar fyrir CIA og er ekki hluti af málaliðateyminu, en verður samt sem áður skrímslinu að bráð í eftirminnilegri senu.

 

Weathers hefur reyndar ekki enn látið reyna á pólitískan feril. Lemúrnum þykir það mikil synd og heldur í þá von að hann verði einn daginn ríkisstjóri heimafylkis síns, Louisiana.

 

Carl Weathers

Carl Weathers sem CIA-maðurinn Dillon og til hægri, Carl Weathers í dag. Hann hefur á síðastliðnum árum komið fram í þáttum á borð við Arrested Development, þar sem hann leikur sjálfan sig og fæst meðal annars við að kenna leiklist.

 

Um árið birtist Weathers í grínþættinum Saturday Night Live og var talsmaður í spaugilegri auglýsingu þar sem hann kynnti framboð sitt til ríkisstjóra. Weathers bendir réttilega á að hann hafi alla tilburði til þess að gegna slíku embætti, enda einn af leikurunum í kvikmyndinni Predator.

 

Vídjó

 


 

Plakatið fyrir Predator (1987).

Plakatið fyrir Predator (1987).

 

Predator þótti vel lukkuð hasarmynd á sínum tíma og hlaut meðal annars hrós frá kvikmyndagagnrýnandanum Roger Ebert, sem skrifaði:

 

Predator moves at a breakneck pace, it has strong and simple characterizations, it has good location photography and terrific special effects, and it supplies what it claims to supply: an effective action movie.

 

Eins og fram kemur þóttu tæknibrellurnar góðar fyrir sinn tíma og hönnun geimveruskrímslisins sérlega frumleg. Tökur í frumskógum Mexíkó reyndust hins vegar afar erfiðar og vöðvastæltu alfa-tröllin kepptu sífellt sín á milli í karlmennsku og úthaldi á tökustað. Frá þessu og fleira er greint í heimildarmyndinni The Making of Predator. Aðalleikararnir koma þar allir fram og segja sína sögu.

 

Vídjó

 

Aðdáendur hipphopp-tónlistar geta svo heyrt söguþráð Predator rakinn í sex mínútna rappmyndbandi sem Lemúrinn hefur áður greint frá.