Jónas Hallgrímsson var, eins og flestir vita, skáld og náttúrufræðingur sem starfaði í Kaupmannahöfn. Hann átti ekki sérstaklega hamingjuríka ævi og dó langt fyrir aldur fram árið 1845 vegna blóðeitrunar, sem stafaði af fótbroti sem hann hlaut við að detta niður stiga. Jónas var tæplega 38 ára.

 

Listaskáldið góða, eins og hann er gjarnan kallaður, stríddi löngum við peningavandræði og þurfti að leita eftir styrkjum. Í heimildum Jónas kemur fram að honum „hafi fallið illa að vera fjárvana og að hann hafi átt erfitt með að sætta sig við þær hömlur sem fjárskorturinn setti honum“.

 

Meðfylgjandi er bréf Jónasar til sjálfs Jóns Sigurðssonar, helstu sjálfstæðishetju Íslands. Jónas segist svo staurblankur að hann svelti. Hann biður Jón því að lána sér peninga. Árið var 1843. Tveimur árum síðar var Jónas látinn.

 

Screen Shot 2014-02-13 at 10.33.45 PM

Bréfið til Jóns. (Handrit.is)

 

Jón minn!

 

Ef þú gætir með nokkuru móti léð mér svo sem 1 eða 2 dali, væri mér mesta þökk á; ég sit í fullkominni sveltu, af því horngrýtis Rkm. dregur mig. Verði ég svo óheppinn, að stelpan nái þér ekki heima, þá ætla ég að biðja þig blessaðan að senda mér einhver skeyti með Sörni í fyrra málið.

 

Þinn
J. Hallgrímsson.

 

Lesið meira um peningavandræði Jónasar hér.

 

„I need a dollar,“ hefði Jónas geta sagt.

Vídjó

 

Eftirfarandi er lýsing Konráðs Gíslasonar, Fjölnismanns og vinar Jónasar, á síðustu dögum skáldsins:

 

15. maí seint um kveldið, þegar hann gekk upp stigann hjá sjer, skruppu honum fætur, og gekk sá hægri í sundur fyrir ofan ökla; komst hann þó á fætur og inn til sín, lagðist niður í fötunum og beið svo morguns. Þegar inn var komið til hans um morguninn, og hann var spurður, því hann hefði ekki kallað á neinn sjer til hjálpar, sagði hann, að sjer hefði þótt óþarfi að gjöra neinum ónæði um nóttina, af því hann vissi, hvort sem væri, að hann gæti ekki lifað. Því næst ljet hann flytja sig í Friðriksspítala en ritaði fyrst til etazráðs Finns Magnússsonar, til að fá hann til ábyrgðarmanns um borgun til spítalans. Þegar Jónas var kominn þangað og lagður í sæng, var fóturinn skoðaður, og stóðu út úr beinin; en á meðan því var komið í lag, og bundið um, lá hann grafkyr, og var að lesa í bók, en brá sjer alls ekki. Þar lá hann fjóra daga, vel málhress og lífvænlegur yfirlitum; en fjórða daginn að kvöldi, þegar yfirlæknirinn gekk um stofurnar, sagði hann við aðstoðarmenn sína, þegar hann var genginn frá rúmi Jónasar: „tækin verða að bíta í fyrramálið, við þurfum að taka af lim“, hafði læknirinn sjeð, að drep var komið í fótinn, en hins varði hann ekki, að það mundi dreifast eins fljótt um allan líkamann, og raun varð á. Jónas bað, að ljós væri látið loga hjá sjer um nóttina; síðan vakti hann alla þá nótt, og var að lesa skemmtunarsögu, sem heitir Jacob Ærlig, eptir enskan mann, Marryat að nafni, þangað til að aflíðandi miðjum morgni; þá bað hann um te, og drakk það, fjekk síðan sinardrátt rjett á eptir, og var þegar liðinn; það var hjer um bil jöfnu báðu miðsmorguns og dagmála, hálfri stundu áður en taka átti af honum fótinn.

 

Jónas Hallgrímsson prýðir 10 þúsund króna seðilinn. En hann átti ekki slíka fjármuni sjálfur. (Mynd: Vísir.is)

Jónas Hallgrímsson prýðir 10 þúsund króna seðilinn. En hann átti ekki slíka fjármuni sjálfur. (Mynd: Vísir.is)

 

Jónas er oftast talinn eitt allra helsta skáld Íslandssögunnar. En hvers vegna? Halldór Guðmundsson skrifar: „Líklega vissu fæstir samtímamenn Jónasar – nema kannski Konráð Gíslason félagi hans – hversu gersamlega hann átti eftir að bylta skilningi Íslendinga á bókmenntum. Eins og margir okkar bestu höfunda gerði hann það ekki bara í krafti eigin snilligáfu, heldur og ekki síður í krafti nýrra strauma í heimsbókmenntum. Það er táknrænt að hann orti sín bestu ættjarðarljóð í erlendri stórborg. Með kvæðum Jónasar heldur sú dularfulla skepna „sjálfið“ innreið sína í litteratúrinn og þar með það viðhorf, að ljóðlistin sé leið höfundar til að tjá eigið sálarlíf, ólík hughrif, angist eða gleði, von eða myrkur. Orðið „einstaklingur“ kemur fyrst fyrir í Fjölni. Skáldskapur sem sjálfstjáning var nýlegt fyrirbæri, en Jónas kunni þá list að ljá sjálfstjáningunni almenna skírskotun, þjáning hans varð þjáning okkar, gleði hans gleði okkar.“