Þann 11. júní 1963 settist 66 ára gamli búddamunkurinn Thich Quang Duc á veginn fyrir utan kambódíska sendiráðið í Saigon, þáverandi höfuðborg Víetnam. Hann mælti:

 

Áður en ég loka augunum og færist í átt til Búdda bið ég virðingarfyllst Ngo Dinh Diem forseta um að sýna þjóðinni samúð og innleiða trúarlegt jafnrétti til þess að tryggja ævarandi styrk heimalandsins. Ég bið … alla búddista um að sýna samstöðu trúnni til varnar.

 

Síðan hellti hann yfir sig bensíni og kveikti í.

 

Bandaríski ljósmyndarinn Malcolm Browne festi þetta skelfilega sjálfsmorð á filmu. Ljósmyndin sem hann tók birtist snarlega í fjölmiðlum um allan heim og gerði mikið til þess að vekja athygli á ástandinu í Víetnam. Blaðamaðurinn David Halberstam var viðstaddur þegar atvikið átti sér stað:

 

Logarnir risu upp úr manneskjunni. Líkami hans visnaði og skrapp saman, höfuð hans svertist og brann. Loftið angaði af brennandi holdi. Manneskjur brenna furðulega hratt. Á bak við mig heyrði ég grátandi Víetnama. Ég varð fyrir of miklu áfalli til þess að gráta, of örvinglaður til þess að skrifa niður minnispunkta eða spyrja spurninga, of ráðvilltur til þess að hugsa … Hann sat gjörsamlega hreyfingarlaus, gaf ekkert hljóð frá sér, framkoma hans var í algjörri andstöðu við grátandi fólkið í kringum hann.

 

Önnur mynd af Duc að brenna hreyfingarlaus.

Önnur mynd af Duc að brenna hreyfingarlaus.

Munkurinn gamli var að mótmæla því óréttlæti sem búddistar þurftu að líða í Víetnam undir stjórn Ngo Dinh Diem forseta. Diem var dyggur bandamaður Bandaríkjanna og tilheyrði kaþólska minnihluta landsins. Hann hafði á árunum áður notað ríkisvaldið í þágu kaþólsku kirkjunnar og bandamanna sinna, sem áttu miklar landareignir í Víetnam og voru undanþegnir alls kyns sköttum.

 

Stjórn Diems þrýsti á búddista, sem voru um 80 prósent landsmanna, í þeim tilgangi að fá þá til þess að ganga af trúnni. Búddistar áttu hvorki framgengt í hernum né stjórnsýslu landsins, og þau þorp sem vildu hljóta bandaríska þróunaraðstoð voru neydd til þess að snúast til kaþólskrar trúar. Allir sem mótmæltu þessari mismunun voru barðir niður af mikilli hörku.

 

Eftir að sjálfsmorð Thich Quang Duc fangaði athygli heimspressunnar beið orðspor Diems varanlegan hnekk á heimsvísu, og Bandaríkjamenn neyddust til þess að beita hann auknum þrýstingi. Í nóvember sama ár steypti herinn honum af stóli og tók hann af lífi ásamt nánustu bandamönnum.

 

Ljósmyndin efst hefur verið lituð. Hér sést upprunalega svarthvíta ljósmynd Malcolms Browne frá 1963.

 

Upprunalega svarthvíta myndin af Thich Quang Duc að brenna fyrir utan kambódíska sendiráðið.

Upprunalega svarthvíta myndin af Thich Quang Duc að brenna fyrir utan kambódíska sendiráðið.

 

Árið 1992 var þessi ljósmynd af sjálfsmorði Thich Quang Duc notuð sem framhliðin á fyrstu breiðskífu bandarísku hljómsveitarinnar Rage Against The Machine, en sú plata var gríðarlega vinsæl á 10. áratug síðustu aldar.

 

Framhliðin á fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar Rage Against The Machine frá árinu 1992.

Framhliðin á fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar Rage Against The Machine frá árinu 1992.