Þeir sem hafa flett erlendum tímaritum eða horft á erlendar sjónvarpsstöðvar hafa áreiðanlega rekist á auglýsingar frá írska bjórframleiðandanum Guinness. Auglýsingar fyrirtækisins eiga til að verða eftirminnilegar, þá ekki síst slagorð Guinness. Mörg þeirra eftirminnilegustu má rekja til fjórða og fimmta áratugar síðustu aldar og var það enska auglýsingastofan S. H. Benson sem á heiðurinn af þeim.

 

Meðal þekktra slagorða má nefna „Guinness for Strength,“ „Lovely Day for a Guinness,“ „Guinness Makes You Strong,“ og „My Goodness My Guinness.“ Teikningarnar sem fylgdu þessum slagorðum teljast í dag til klassískra auglýsinga 20. aldar en maðurinn á bak við þær var listamaðurinn John Gilroy.

 

Um sannleiksgildi þessara slagorða má hins vegar efast, þótt aðdáendur hins svarta elixírs kunni að vera ósammála. En um sannleiksgildi slagorðsins sem var samið af Brendan Behan, er ekki hægt að efast.

 

Brendan Behan var írskur rithöfundur og drykkjumaður sem er ef til vill ekki sá þekktasti frá eyjunni grænu. Hann hefur óneitanlega fallið í skugga risa á borð við James Joyce eða Samuel Beckett. En spyrjið írska vini ykkar, þeir líta margir hverjir á Behan sem hið sanna írska skáld.

 

Brendan Behan (1923-1964). Með Guinness í glasinu. Að sjálfsögðu.

Brendan Behan (1923-1964). Með Guinness í glasinu. Að sjálfsögðu.

 

Vandi Behans, og snilli reyndar líka, fólst í áfengissýki. Á tímabili reyndi hann að temja sér ákveðið vinnusiðferði, sem fólst í að vinna frá 7 á morgnana til hádegis – eða uns krárnar í Dublin opnuðu. Orðsnilld hans og hnyttni áttu sér engin takmörk, þá ekki síst þegar kom að því að gera grín að eigin drykkju. „Ég drekk aðeins við tvö tilefni. Þegar ég er þyrstur og þegar ég er það ekki,“ er dæmi um það.

 

Behan var einnig sjálfstæðissinni og var meðlimur Írska lýðveldishersins, IRA, sem ungur maður. Á sjötta áratug síðustu aldar datt Behan snjallræði í hug. Honum fannst vitaskuld ómögulegt að helsta útflutningsfyrirtæki Írlands væri að notast við auglýsingaslagorð sem voru samin hinum megin við Írlandshaf. Behan gekk á fund fulltrúa fyrirtækisins í Dublin og sannfærði þá um að hann væri rétti maðurinn til að semja nýtt, írskt slagorð.

 

Borstal_Boy

Þekktasta verk Behans er líklega sjálfsævisagan Borstal Boy.

 

Fulltrúar Guinness tóku vel í hugmynd Behans. Hann gæti þó ekki fengið neitt greitt fyrir starfið, fyrr en búið væri að vinna það af hendi. „Ekkert mál!“ sagði Behan. „Ég þarf enga greiðslu en ég þarf hins vegar nokkra kassa af Guinness til að veita mér innblástur. Þá verður slagorðið tilbúið síðdegis á morgun!“

 

Behan fékk þrjá kassa af Guinness.

 

Daginn eftir heyrðist ekkert af Behan. Hann mætti ekki á fund sem skipulagður hafði verið, og svaraði ekki í síma. Tveir menn fóru frá höfuðstöðvum Guinness og bönkuðu upp á hjá Behan. Fyrir utan húsið höfðu þeir tekið eftir tómum Guinness-flöskum, sem átti bara eftir að fjölga eftir að Behan kom heldur aumingjalegur til dyra og bauð þeim inn í stofu. Það voru tómar flöskur út um allt, Behan hafði augljóslega klárað rúmlega 60 bjóra á síðasta sólarhring. Behan fór að róta í einhverjum blöðum, á meðan hann sannfærði fulltrúana að besta slagorð auglýsingasögunnar hefði fæðst kvöldið áður.

 

Skyndilega kallar hann sigri hrósandi á meðan hann afkrumpar lítinn pappírsmiða: „I’ve got it!“ Fulltrúarnir spenntust allir upp og litu til skáldsins þar sem hann las upp snilldina: „Guinness makes you drunk!

 

Hér má að lokum dást að fleiri auglýsingaspjöldum eftir John Gilroy.

 

guinness6

 

guinness7

 

 

 

guinness5

 

guinness3

 

guinness2

 

guinness1

 

 

guinness4