Dystópíska vísindaskáldskaparmyndin Blade Runner frá árinu 1982 á sér í dag dyggan aðdáendahóp, en hún er oft talin meðal svokallaðra ‘költ’-mynda. Myndin er byggð á skáldsögu Philip K. Dick, Do Androids Dream of Electric Sheep?, og er stórmerkileg að mörgu leyti, en hún veltir upp bæði heimspekilegum og siðferðislegum spurningum um það hvað það þýðir að vera mennskur. Myndin sjálf á sér einnig merkilega sögu, en gerð hennar olli miklum erjum á milli þeirra sem að henni stóðu.

 

Í kjölfar vinsælda fyrstu Star Wars myndarinnar (1977) fór vísindaskáldskapur að fá aukna athygli fjárfesta í Hollywood. Gerð handritsins sem seinna varð að Blade Runner hafði verið í pípunum í nokkur ár og árið 1980 var breski leikstjórinn Ridley Scott fenginn til að leikstýra því. Hann var þá nýbúinn að gera myndina Alien sem fengið hafði ágætis viðtökur í kvikmyndahúsum. Til að fjármagna myndina þurfti að kalla til nokkra mismunandi aðila, en meðal þeirra var fyrirtækið Tandem Productions sem hafði einnig rétt til þess að taka yfir framleiðslu myndarinnar ef hún færi fram úr kostnaðaráætlun.

 

Eftir að tökur hófust kom fljótt í ljós að Ridley Scott átti hvorki samleið með fjárfestum, öðrum samstarfsmönnum né stjörnum myndarinnar. Scott þótti vera óþarflega smámunasamur fullkomnunarsinni sem fór helst til frjálslega með fjármagn myndarinnar. Hann heimtaði til dæmis að taka aftur upp fyrstu tvær vikur tökutímabilsins og að taka upp hverja senu 15–20 sinnum, lágmark. Allt í allt stóðu tökur myndarinnar yfir 4 mánuði (sem þótti allt of langt), en þá var eftir öll eftirvinnsla á hljóði og mynd, tæknibrellur og klipping. Þessi tímafreka og kostnaðarsama hegðun féll í grýttan jarðveg hjá fjárfestum sem lögðu meira upp úr hámarksgróða fyrir hraða og hagkvæma vinnu fremur en listræna sýn einhvers sérviturs leikstjóra.

 

Það bætti svo gráu ofan á svart að þrátt fyrir þessa miklu nákvæmnisvinnu voru fjárfestarnir síður en svo hrifnir af því sem út úr henni kom. Þeir sögðu myndina vera óþarflega flókna og ákaflega niðurdrepandi, og að í raun yrði hún bara verri og verri í hvert sinn sem þeir sáu hana. 1982 var svo haldin prufusýning fyrir áhorfendur í Denver og Dallas, þar sem myndin fékk vægast sagt slæma dóma. Þarna voru Tandem-menn búnir að fá sig fullsadda og tóku upp á því að breyta myndinni í óþökk Ridley Scott. Voice-over flutt af Harrison Ford var sett yfir valda hluta myndarinnar til að gera söguþráð hennar skiljanlegri og opnum og drungalegum endinum var skipt út fyrir annan, mun bjartsýnni endi.

 

Tandem-endirinn sýnir aðalpersónur myndarinnar, Deckard og Rachael keyra í grösugri fjallshlíð. Þau eru nýsloppin undan andstæðingum sínum og sjá fram á bjarta og langa framtíð saman. Athygli vekur að umhverfið er óvenjubjart og hreint, en fram að þessu hefur myndin verið yfirþyrmandi dökk og drungaleg. Þessi hamingjusami endir passar því illa inn í rökkurmyndasöguheim Blade Runner.

 

Ástæðan fyrir því er að atriðið, að undanskildum nærmyndum af aðalpersónunum, var ekki tekið upp fyrir Blade Runner, heldur fyrir allt aðra mynd. Þegar fjárfestarnir ákváðu loksins að breyta endinum var tökutíma myndarinnar löngu lokið og ekkert fjármagn eftir til að byrja tökur á nýjan leik. Það var því brugðið á það ráð að fá lánuð skot beint af klippigólfi annarrar myndar. Lokaatriðið í þessari útgáfu Blade Runner er nefnilega að mestu leyti samsett úr ónotuðum skotum úr upphafssenu Stanley Kubrick myndarinnar The Shining.

 

Hér fyrir neðan er hægt að bera saman þessi atriði ásamt því að sjá upprunalegan endi Ridley Scott. Dæmi nú hver fyrir sig.

 

Blade Runner – US Theatrical Ending 1982

Vídjó

 

The Shining Opening Credit

Vídjó

 

Final Director’s Cut Blade Runner

Vídjó