Lemúrinn hélt að klaufaleg áróðurstækni fjórða og fimmta áratugsins væri löngu búin að deyja drottni sínum, en svo virðist ekki vera.

 

Áróðursplakat þetta birtist víðsvegar í strætóskýlum Lundúna árið 2002, skömmu eftir innleiðingu eftirlitsmyndavéla í almenningssamgöngukerfi borgarinnar. Ótrúlegt en satt þá var plakatið hvorki ádeila né grín. Það var birt í fúlustu alvöru á vegum embættis borgarstjóra Lundúna, sem þá var í höndum Ken Livingstone. Plakatið var hannað af auglýsingaskrifstofunni Central Illustration Agency  fyrir samgönguráð borgarinnar gegn 2.200 punda greiðslu.

 

Strætóskýli í Lundúnum.


Strætóskýli í Lundúnum árið 2002.

CCTV eftirlitsmyndavélarnar svokölluðu — Closed-circuit television — hófu innreið sína í Bretlandi á tíunda áratugnum, í valdatíð Tony Blair.

 

Bretland er nú orðið er eitt mesta eftirlitsríki Evrópu. Þar er ein CCTV myndavél fyrir hverja fjórtán íbúa landsins. Hinn almenni Lundúnabúi má búast við því að hann sé tekinn upp á myndavél mörgum sinnum á dag, hvort sem það er í verslunum, opinberum rýmum, strætisvögnum eða Underground neðanjarðarlestinni.

 

Lemúrnum finnst merkilegt að einn Blair — Eric Arthur Blair, betur þekktur sem George Orwell — hafi spáð fyrir um komu eftirlitsríkisins, og að annar Blair — Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Bretlands — hafi gert það að veruleika.