Einfari sem starfaði á sjúkrahúsi í Chicago lést árið 1973. Þá uppgötvaðist að hann hafði skrifað stórmerkilegar skáldsögur og teiknað ódauðleg listaverk án þess að segja nokkrum manni frá.

 

Hlédrægi húsvörðurinn og einfarinn Henry Darger starfaði á sjúkrahúsi í Chicago-borg í Bandaríkjunum í marga áratugi og bjó einn í herbergisholu í stóru fjölbýlishúsi. Hann virtist lifa sáraeinföldu lífi, átti fáa sem enga vini og ávarpaði sjaldan fólk að fyrra bragði. Þegar hann lést fannst aragrúi handrita í íbúð Dargers og þar á meðal fimmtán þúsund blaðsíðna skáldsaga sem bar titilinn (sem hér er lauslega þýddur á íslensku) Saga Vivian-stelpnanna, þar sem heitir Konungsríki óraunveruleikans, sögusviði Glandeska-Angelínska stríðsstormsins, sem Barnaþrælauppreisnin olli.

 

Ólst upp á geðspítala

Henry Darger var fæddur í Chicago árið 1892 í apríl, en heimildum ber ekki saman um hvaða mánaðardag hann kom í heiminn. Móðir hans lést þegar hann var fjögurra ára og faðir hans nokkrum árum síðar. Darger var sendur á munaðarleysingjahæli og síðar á barnageðspítala, en algengt var að munaðarlaus börn væru send á slíkar stofnanir í þá daga.

 

Geðspítali þessi, sem var í uppsveitum Illinoisfylkis, var hrottafengin stofnun þar sem níðst var á börnunum í stað þess að hlúa að þeim. Nokkrum árum síðar var sama spítala lokað með skömm þegar hræðileg meðferð á sjúklingum stofnunarinnar kom í ljós. Henry Darger átti seinna eftir að nota hræðilegar minningar sínar af spítalanum sem innblástur í skrifum sínum.

 

darger1

 

Hlédrægur og viðkvæmur

Darger átti til að framkalla skringileg hljóð sem fóru í taugarnar á öðrum en líklegt er talið að hann hafi verið Tourette-sjúklingur. Hann var hlédrægur piltur og viðkvæmur en taldi sig kunna að lesa á milli línanna í tali fullorðna fólksins og svaraði því oftar en ekki með fullum hálsi. Darger var laminn til óbóta af nunnum og læknum á árunum sem hann dvaldi á stofnuninni.

 

Eftir ótal flóttatilraunir tókst honum loks að flýja geðveikrahælið árið 1908, 16 ára gamall. Hann gekk til Chicago, sem var nær 200 kílómetra löng leið, og varð vitni að skýstróki sem fór yfir sveitirnar með ægilegum krafti. Hann heillaðist af þessu náttúruundri sem tók sér ból í hugsunum hans. Darger var ráðinn til húsvörslustarfa á kaþólsku sjúkrahúsi í Chicago og gegndi starfinu til dauðadags. Tólf árum síðar flutti hann í herbergi í norðurhluta borgarinnar og skrifaði þar og teiknaði í öllum frístundum sínum þangað til hann lést árið 1973.

 

Vanafastur safnari

Á leið sinni til og frá vinnu safnaði hann gjarnan hinu og þessu úr ruslafötum, smáhlutum allskonar og myndum og dagblöðum. Hann klippti ljósmyndir úr dagblöðum og límdi saman. Darger var ákaflega vanafastur maður og fór daglega í messu í kaþólsku kirkjunni í hverfinu.

 

Herbergið troðfullt af listaverkum

Þegar Darger lést fór leigusali hans, ljósmyndarinn Nathan Lerner, í gegnum eigur hans. Herbergið var gjörsamlega troðfullt af handritum, teikningum, málverkum eftir Darger og óteljandi blaðaúrklippum og tímaritum. Hann hafði haldið veðurdagbók í 10 ár sem taldi mörg þúsund blaðsíður og skrifað sjálfsævisöguna Sögu lífs míns, sem taldi rúmar 5.000 blaðsíður.

 

Lerner veitti þó einni hillu í herbergi hins látna húsvarðar sérstaka athygli því í henni sat fimmtán binda þétt vélrituð skáldsaga, 15.145 síðna verk sem Darger virtist hafa unnið að í marga áratugi. Hún bar þennan sérstaka, áðurnefnda titil, Saga Vivian-stelpnanna, þar sem heitir Konungsríki óraunveruleikans, sögusviði Glandeska-Angelínska stríðsstormsins, sem Barnaþrælauppreisnin olli.

 

rm-19

 

Barnauppreisn

Sagan fjallar um sjö systur sem búa á gríðarstórri plánetu sem jörðin snýst í kring um líkt og fylgitungl. Þær eru prinsessur í kristna ríkinu Abbíeanníu sem hjálpa börnum til við uppreisn gegn ógnarstjórn illmennisins Johns Manley. Hann hefur með hjálp þjóðarinnar Glandelínum hneppt börnum í þrældóm. Börnin reyna að rísa upp gegn kvölurum sínum en er grimmilega refsað á eftir, pyntuð og jafnvel drepin. Ýmsar furðuverur, vængjaðir risar og hyrndir fuglar, fylgjast með börnunum og reyna að hjálpa þeim í baráttunni gegn óréttlætinu.

 

Ótrúlegt ímyndunarafl

Með handriti sögunnar fylgdu nokkur hundruð teikningar sem vandlega var raðað í ákveðna röð. Darger málaði með vatnslitum og límdi teikningar sínar saman við myndaúrklippur úr blöðum og tímaritum. Myndskreytingar þessar þykja bera vitni um einstætt og margbrotið ímyndunarafl.

 

Lerner fann einnig óklárað skáldverk, Geðveika húsið, sem Darger hafði skrifað á 10.000 síður. Þar voru systurnar og prinsessurnar sjö komnar til Chicago ásamt leynivini sínum og bróður Penrod. Þau eru send til að rannsaka dularfullt draugahús sem virðist búa yfir eigin vilja og lokkar börn til sín. Börn hverfa inn í húsið sem myrðir þau síðan á grimmilegan hátt.

 

darger_room

Herbergi Dargers hefur verið endurskapað hjá Intuit-stofnuninni í Chicago. Meira um það hér: http://www.art.org/collection/henry-darger/

 

Verndari allra nauðstaddra barna

Sjálfsævisagan Saga lífs míns hefst á minningarbrotum úr æsku Dargers í nokkur hundruð blaðsíður áður en við tekur æsileg frásögn á 4.672 blaðsíðum um skýstrók að nafni „Sweetie Pie“ sem væntanlega var byggður á skýstróknum sem Darger sá 16 ára gamall.

 

Ljóst þykir að hræðileg vistin á geðveikrahælinu á unglingsárum Darger hafði gífurleg áhrif á líf hans og ritstörf. Hann var sannur vinur barna og ól mikla stórmennskudrauma um að verða verndari og frelsari allra óhamingjusamra og nauðstaddra barna. Hið rólega fas og hlédrægni Dargers kom þó í veg fyrir að slíkir draumar gætu ræst. Þess í stað skrifaði hann og tjáði lífsskoðanir sínar í gegnum skáldskap.

 

Verkin sýnd á Íslandi

Eftir dauða Henrys Darger kynnti leigusalinn Lerner verk hans víða. Myndskreytingar hans hafa verið sýndar á mörgum stærstu listasöfnum Bandaríkjanna. The American Folk Art Museum í New York starfrækir sérstaka Henry Darger-stofu og hefur gefið út ritgerðarsöfn fræðifólks þar sem fjallað er ítarlega um ævistarf hans.

 

Árið 1993 var haldin sýning á verkum nokkurra utangarðslistamanna í Hafnarborg í Hafnarfirði, þar sem nokkur verk Dargers voru sýnd. Óskarsverðlaunaleikstjórinn Jessica Yu gerði árið 2004 heimildarmynd um ævi Henry Darger, sem ber nafnið In the Realms of the Unreal.

 

Vídjó

 

T310 PL 123-114

 

110252-050-F1ED1799

 

henry-darger-cath

 

1986.65.168A_1a