Hvað er saga? Af hverju vitum við það sem við vitum? Þessu veltir Andri Þorvarðarson, meistaranemi í sagnfræði, fyrir sér og segir meðal annars: „Góð sagnfræði upphefur hvorki atburði eða persónur né gerir lítið úr þeim.“ Tilefni greinarinnar var ræða forsætisráðherra á 17. júní.

 

„Á undanförnum árum hafa hins vegar heyrst raddir sem telja óviðeigandi að gera mikið úr styrkleikum Íslands og vilja jafnvel gera lítið úr sögunni og afrekum fortíðar. Leiddar eru að því líkur að allt sem gerðist hafi verið nær óhjákvæmilegt. Of mikið hafi verið gert úr afrekum og of lítil áhersla lögð á það sem miður hafi farið. Þessu hefur svo jafnvel verið fylgt eftir með því að draga gildi fullveldisins í efa.“

 

Í þjóðhátíðardagsræðu sinni gagnrýndi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Evrópusambandið og lagði áherslu á það að best væri að þjóðin réði yfir auðlindum sínum og örlögum. Málsgreinin að ofan var inngangur að þessari röksemdarfærslu.

 

Beint eða óbeint var Sigmundur þó að ráðast á þá breytingu sem hefur orðið á söguskoðun meðal fræðimanna hér á landi undanfarna áratugi.

 

Því það hefur dregið úr þjóðernishyggju og Íslandssagan er ekki lengur jafn svarthvít líkt og áður var.

 

Það hefur kallað fram ýmsar áhugaverðar spurningar: Var þjóðveldistíminn sú mikla gullöld sem látið hefur vera? Sú pólitíska tilraun var vissulega stórmerkileg en hún var líka gölluð og endaði með því að valdið í landinu færðist á sífellt færri hendur. Tímabilið endaði með blóðbaði og hörmungum.

 

Var Gamli sáttmáli virkilega jafn hörmulegur eins og jafnan er sagt? Nútímahugmyndir um þjóðernishyggju voru einfaldlega ekki til á þeim tíma og Noregskonungur stóð við sitt: Friður komst á og blóðbaði Sturlungaaldar lauk. Mætti ekki jafnvel líta á þetta sem jákvæðan atburð í Íslandssögunni?

 

Hvað með íslensku miðaldabókmenntirnar? Eins merkilegar og þær eru þá er enginn maður eyland og þær urðu fyrir talsverðum erlendum áhrifum. Eigum við að láta eins og Íslendingasögurnar hafi sprottið upp úr algjöru tómarúmi?

 

Færum okkur nær nútímanum. Ættum við að vera stolt af því þegar við urðum sjálfstæð þjóð 17. júní 1944? Forsætisráðherra talaði um Sigurð Nordal í ræðu sinni en minntist ekki á að Sigurður var í hinum fámenna hóp lögskilnaðarmanna sem fannst ekki koma til mála að slíta samvistum við Dani meðan þeir væru undir járnhæl nasista.

 

Höfðu lögskilnaðarmenn kannski eitthvað til síns máls? Var ódrengilegt að slíta samvistum við Dani þegar þeir gátu ekkert um málið sagt? Hefði það breytt miklu hvort Ísland hefði lýst yfir sjálfstæði 17. júní 1945 í staðinn fyrir ári fyrr?

 

Hvað viðkemur Þorskastríðunum, voru Íslendingar alltaf í rétti? Þegar Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði að Íslendingar hefðu ekki rétt á 50 mílunum þá hunsuðu íslensk stjórnvöld þá ákvörðun.

 

Árið 1961 höfðu Íslendingar þó samþykkt að ef til frekari útfærslu kæmi mætti skjóta málinu til þessa dómstóls. Voru Íslendingar þarna réttilega að hunsa óréttlátta niðurstöðu eða var það réttlát andstaða gegn óréttlæti? Um 40 árum síðar töldu Íslendingar afstöðu alþjóðlegs dómstóls mikinn sigur þjóðar og réttlætis. Myndu ýmsir gárungar telja það kaldhæðnislegt.

 

Hér hafa verið bornar upp margar spurningar og við þeim eru ekki endilega auðveld svör. Á meðan Sigmundur Davíð myndi kannski telja greinarhöfund vera að gera lítið úr sögu Íslands þá er hann ekki að gera það.

 

Heldur er hann að spyrja: Af hverju vitum við það sem við vitum? Góð sagnfræði upphefur hvorki atburði eða persónur né gerir lítið úr þeim.

 

Hún snýst um að grafa upp staðreyndirnar hvar sem þær kunna að leynast og meta þær með eins hlutlausum hætti og mögulegt er.

 

Oft á tíðum er ekki eitt rétt eða rangt svar. Það að benda á gallana í söguskoðun fyrri tíðar jafngildir ekki að gera lítið úr afrekum fortíðar.

 

En að skrökva um atburði og fólk fortíðarinnar gerir hins vegar lítið úr Íslandssögunni.

 

Það er eitthvað sem forsætisráðherra væri hollt að muna um leið og hann stefnir að því að móta Íslandssögu komandi ára.

 

Ljósmyndin efst er tekin úr safni Ingimundar Guðmundssonar áhugaljósmyndara og sýnir ungt fólk á Ísafirði um 1925.