Í gær, þann 20. maí 2013, lést tónlistarmaðurinn og lagahöfundurinn Ray Manzarek, 74 ára að aldri.  Manzarek var einn af stofnendum rokkhljómsveitarinnar The Doors og setti sterkan svip á tónlist þeirra bæði sem lagahöfundur og orgelleikari.  Hjá The Doors er orgelið sjaldan fjarri og löngu orgelsóló Manzareks eru eitt af helstu einkennum sveitarinnar.

Manzarek ásamt félögum sínum í The Doors.

Manzarek ásamt félögum sínum í The Doors. Frá vinstri: Manzarek, Densmore, Morrison, Krieger.

The Doors stigu fyrst fram á sjónarsviðið 1965 og drógu nafn sitt frá bók Aldous Huxley, The Doors of Perception, sem segir frá tilraunum Huxleys með ofskynjunarefnið meskalín.

 

Hljómsveitina skipuðu Ray Manzarek, Jim Morrison, Robby Krieger og John Densmore. Þeir kumpánarnir skutust snarlega upp á stjörnuhimininn með fyrstu plötu sinni og þá sérstaklega laginu „Light My Fire“, sem komst á vinsældarlista víðsvegar um heiminn.

 

Félagarnir störfuðu saman fram til 1971, en þá liðaðist sveitin í sundur vegna andláts söngvarans Jim Morrison. Eftir standa sex breiðskífur sem hafa haft varanleg áhrif á rokksöguna.

 

Lemúrinn þakkar Ray Manzarek og The Doors fyrir margar góðar stundir og birtir hér nokkur myndbönd frá tónleikaferð sveitarinnar um Evrópu byltingarárið 1968.

 

Light My Fire (í Evrópu, 1968)

Vídjó

 

Love Me Two Times (Kaupmannahöfn, 1968)

Vídjó

 

When The Music’s Over (Kaupmannahöfn, 1968)

Vídjó