David Icke var fyrrum markvörður hjá Coventry City og talsmaður flokks græningja í Bretlandi.  Einn örlagaríkan dag fór hann til miðils sem sagði honum að hann væri sonur Guðs. Eftir að hann hafði það eftir henni í sjónvarpi varð Icke því miður að athlægi í Bretlandi.

 

Síðan hafa hugmyndir hans orðið enn fjarstæðukenndari.

 

Icke trúir því, í stuttu máli, að heiminum sé stjórnað af eðlumönnum. Eðlumennirnir eru blendingar sem urðu til fyrir 7.000 árum í Miðausturlöndum, þegar  geimverur í eðlulíki úr neðri fjórðu víddinni komu til jarðarinnar og eignuðust  afkvæmi með mönnum.

 

Eðlumannaættin sölsaði fljótt undir sig öll völd í hinum margvíslegu fornu menningu Miðausturlanda og breiddist þaðan út um allan heim. Nú er svo komið að langflestir þjóðarleiðtogar heims eru af eðlukyni, og jafnframt bankastjórar, trúarleiðtogar, Hollywood-stjörnur og aðrar mektarmanneskjur. Með hjálp forfeðra sinna úr neðri fjórðu víddinni hafa þessir menn yfirráð yfir öllu mannkyni.

 

Öll trúarbrögð eru runnin undan rifjum eðlukynsins, sem fann þau upp til að kúga mannfólkið og beita okkur hvert gegn öðru. Það voru því í raun eðlur sem stóðu að baki hryðjuverkaárásina 11. september 2001.

 

Icke heldur því fram að hann hafi hitt yfir hundrað manns um allan heim sem hefur séð fólk breytast í eðlur fyrir framan nefið á þeim.

 

Einn af hans helstu bandamönnum er Arizona Wilder, kona nokkur sem segist hafa verið æðstiprestur og móðurgyðja í hræðilegum helgiathöfnum eðlumannanna, og þjálfuð til þess hlutverks af sjálfum Josef Mengele, hinum illræmda lækni í Auschwitz-útrýmingarbúðunum.

 

Meðal þeirra sem tóku þátt í helgiathöfnum voru páfinn, breska konungsfjölskyldan, Bush-feðgar, Ronald Reagan, Clinton-hjónin og að sjálfsögðu gamanleikarinn Bob Hope.

 

Helgiathafnirnar einkenndust af mannfórnum, því án þess að drekka blóð manna geta eðlumennirnir ekki sýnt sitt rétta, hreistraða andlit. Oftast nægir eðlunum að skera fórnarlömbin á háls og drekka blóð þeirra, en Elísabet Englandsdrottning er sérstaklega hrottafengin og rífur tryllt í sig saklaus börn og étur þau.

 

Þrjár eðlur á góðri stundu. Reagan-hjónin og Bob Hope.

 

Illt eðlueðli Englandsdrottningar skín í gegn.