Grimmdarverk og þjóðarmorð Evrópumanna í Nýja heiminum eru mörgum kunnug. Spánverjar voru fyrstir til þess að koma upp nýlendum vestanhafs, á eyjunni Hispanjólu í Karíbahafi (í dag Haítí og Dóminíska lýðveldið). Þar níddust þeir miskunnarlaust á Arawak frumbyggjunum, gerðu þeim skylt að þræla í gullnámum, pyntuðu þá og nauðguðu, brenndu þá lifandi, sveltu þá, aflimuðu og myrtu í stórum stíl.

 

Frumbyggjakonur kæfðu nýfædd börn frekar en að láta þau í hendur evrópsku drottnara sinna, sem skemmtu sér sumir við að gefa þau hundunum. Arawakar frömdu margir hópsjálfsmorð til þess að flýja skelfilegt líf þrældóms og misþyrmingar.

 

Þeir sem lifðu þessa meðferð af urðu brátt evrópskum sjúkdómum að bráð. Á innan við tuttugu árum létu u.þ.b. 240,000 frumbyggjar lífið — það var 95% af þeim sem eyjuna byggðu.

 

Ítarlega er greint frá þessum andstyggilegu hermdarverkum Spánverja í Stuttri frásögn af eyðileggingu Indíu (1542) eftir dóminíska munkinn Bartolomé de las Casas. Eftirfarandi myndskreytingar eru úr latneskri þýðingu á verki þessu, og voru teiknaðar af hollendingnum Jean Théodore de Bry.