Vídjó

Síberskir hirðingjar syngja með barkanum og ná að mynda tvö hljóð í einu. Þeir eru af þjóðflokki sem telur álíka marga og Íslendingar. Þýski leikstjórinn Werner Herzog kvikmyndaði barkasöngvara árið 1993.

 

Í Suður-Síberíu, á milli Mongólíu og Rússlands, býr hirðingjaþjóðin Tuva. Tuvar eru um 300 þúsund talsins og búa á sjálfsstjórnarsvæði innan vébanda Rússlands.

 

Tuvar eru frægir fyrir undurfagran söng sinn – þeir syngja með barkanum. Í tuvönskum barkasöngi eru tveir eða fleiri tónar sungnir samtímis yfir grunntakti, sem býr til dáleiðandi og töfrandi hughrif. Það er engu líkara en að allir hlutar líkamans slá á strengi sína í einu.

 

Í hrjóstrugum landsvæðum Síberíu ferðast hljóðbylgjur ógnarlangt og það er kapp barkasöngvaranna að finna staði þar sem söngur þeirra nær réttum samhljómi við náttúruna. Söngvarar eiga til að ferðast langar leiðir í leit að hinum fullkomna árbakka eða fjallstindi.

 

Þýski verðlaunaleikstjórinn Werner Herzog gerði árið 1993 heimildarmyndina Klukknahljómur undirdjúpanna (Bells from the Deep) þar sem hann rannsakaði vítt og breitt andatrú og hindurvitni í Rússlandi.

 

Titill myndarinnar vísar í goðsögnina um hina týndu borg Kitezh. Íbúar borgarinnar lögðust á bæn og báðu um að verða bjargað frá Mongólum sem voru í þann mund að leggja hana undir sig. Guð heyrði bænirnar og kom borginni fyrir á djúpum botni stöðuvatns, þar sem hún er enn í dag. Sumir segja að þeir heyri enn í kirkjuklukkum Kitezh þegar þeir leggja eyrað að vatninu.

 

Klukknahljómur undirdjúpanna og barkasöngur Tuva við ísilögð fljótin í Suður-Síberíu:

Vídjó