Þýski leikarinn Thomas Kretschmann leikur oftast nasista. Hann hefur leikið nasista í meira en tíu myndum til þessa og má segja að stórmyndir um Þýskaland nasismans séu varla gerðar án þess að Kretschmann sé hafður með. Og nú er væntanleg þrívíddarmynd frá Rússlandi um orrustuna um Stalingrad með þessum sama leikara.

 

Thomas Kretschmann æfði sund þegar hann var unglingur í austur-þýsku borginni Dessau. Ólympíuráð kommúnistaríkisins valdi hann í sérstakt ólympíulið þegar hann var 17 ára.

 

Ólympíusundlið Austur-Þýskalands var yfirburðalið í áratugi og vann til fjölda verðlauna. Eftir hrun Berlínarmúrsins kom hins vegar í ljós að austur-þýsk íþróttayfirvöld höfðu kerfisbundið látið sundmenn og aðra íþróttamenn taka ólöglega stera til að auka getu þeirra í því skyni að glæstur árangur myndi nýtast í áróðri og eflingu þjóðarinnar. Ekki er vitað til þess að Thomas Kretschmann hafi tekið þátt í svindlinu en hann hætti snemma í sundliðinu og keppti aldrei á alþjóðlegu móti.

 

Einn daginn þegar hann var 19 ára, árið 1981, setti hann á sig bakpoka, skrapaði saman peningum og lagði af stað í langa göngu. Hann fór yfir fjöll og firnindi og komst við illan leik yfir til Vestur-Þýskalands eftir að hafa komið við í Ungverjalandi og Austurríki. Missti Kretschmann putta á leiðinni sem var græddur aftur á.

 

Sló fyrst í gegn sem nasisti

Kretschmann gerðist leikari í Vestur-Þýskalandi og fór brátt að leika í bíómyndum.

 

Ein fyrsta myndin var norsk, rómantíska stríðsmyndin Krigerens hjerte frá 1992. Kretschmann fer með hlutverk þýska liðsforingjans Maximilians Luedt sem stjórnar hersveit innan innrásarliðs nasista í Noregi í seinni heimsstyrjöldinni. Luedt liðsforingi verður ástfanginn af norsku stúlkunni Mari, hjúkrunarkonu sem hlúir að finnskum hermönnum í Vetrarstríði Finnlands og Sovétríkjanna.

 

Krigerens Hjerte.

 

Hann þótti standa sig mjög í kvikmyndinni Stalingrad frá 1993, en hún fjallar um ógnir og skelfingu orrustunnar í borginni. Kretschmann leikur Hans von Witzland, kornungan en bráðefnilegan liðsforingja sem sendur er með sveit sína til Stalingrad. Í stuttu máli fjallar myndin um ömurleg örlög hersveitarinnar og um leið upphafið að algjörum ósigri og hruni Þriðja ríkisins.

 

Thomas og félagar í Stalingrad frá 1993.

 

Los Angeles erfið Evrópumönnum

Næst ákvað Kretschmann að gerast Hollywood-leikari. Fyrst um sinn landaði hann hlutverkum í lélegum spennumyndum, B-myndum og sjónvarpsþáttum. Og það er víst ekki neitt einfalt mál að vera evrópskur leikari í Los Angeles. Góðir leikarar þurfa oft að taka við hlutverkum sem endurspegla sýn Bandaríkjamanna á Evrópumönnum og lék Kretschmann gjarnan harðsvíraða þýska fanta og talaði ensku með sterkum hreim.

 

Á tíunda áratugnum breyttist hins vegar allt til betri vegar hjá leikaranum þýska þegar hann tók upp þráðinn frá Krigerens hjerte og Stalingrad og klæddi sig aftur í nasistabúninginn. Kretschmann hefur leikið í hverri nasistamyndinni á fætur annarri síðustu ár og er með frægustu leikurum Þýskalands um þessar mundir.

 

Sá nasisti sem oftast bregður fyrir?

Hann lék nasistann Günther Wassner, skipstjóra á þýskum kafbáti, í bandarísku kafbátamyndinni U-571 árið 2000.  Þótti myndin ekki nema miðlungsgóð en næsta mynd átti hinsvegar eftir að slá í gegn.

 

U-571.

 

Árið 2002  lék Kretschmann í Óskarsverðlaunamyndinni Píanistanum eftir Roman Polanski. Þar fór hann með hlutverk nasistans Wilms Hosenfeld höfuðsmanns sem finnur gyðinginn og aðalpersónu myndarinnar, Wladyslaw Szpilman, í borgarrústum Varsjár og bjargar lífi hans eftir að heyra hann leika á píanóið.

 

The Pianist.

 

Í kjölfar Píanistans hefur Thomas Kretschmann leikið nasista í fimm bíómyndum. Hann lék nasistann Ludwig Cremer stýrimann á kafbátnum U-429 í kafbátamyndinni In Enemy Hands frá 2004 sem þótt illa heppnuð mynd þótt hún hefði skartað stórleikaranum William H. Macy auk Kretschmanns.

 

Der Untergang. Kretschmann lék Hermann Fegelein, undirmann Himmlers.

 

Sama ár lék hann nasista í þýsku stórmyndinni Der Untergang, þar sem hann fór með hlutverk SS-foringjans Hermanns Fegelein sem var mágur Evu Braun og svili Hitlers.

 

Head in the Clouds.

 

Í myndinni Head in the Clouds frá 2005, með leikkonunum Charlize Theron og Penélope Cruz leikur Kretschmann geðþekka nasistann Franz Bietrich majór sem heillar persónu Theron upp úr skónum.

 

Eichmann.

 

Kvikmyndin Eichmann frá 2007 segir frá síðustu dögum hins valdamikla nasista og SS-foringja Adolfs Eichmanns í haldi Ísrealsmanna árið 1962 og fer Thomas okkar Kretschmann með titilhlutverkið. Í kvikmyndinni Valkyrju frá 2008 birtist Kretschmann enn og aftur í nasistabúningi og nú í hlutverki Ottós Ernsts Remer majórs sem á stóran þátt í að koma í veg fyrir valdarán Stauffenbergs og félaga.

 

Valkyrie.

 

Og hann lék Karl Dönitz, flotaforingja Hitlers,  í BBC-sjónvarpsseríunni The Sinking of Laconia frá 2011.

 

Á þessu ári er væntanlega ný kvikmynd um orrustuna í Stalingrad – en eins og áður segir lék Kretschmann í mynd um sömu orrustu fyrir tveimur áratugum síðan. En þessi nýja mynd er rússnesk þrívíddarmynd sem spennandi verður að sjá.

 

Stalingrad 3D.

 

Góði nasistinn

Það er sammerkt með flestum nasistarullum Kretschmann að þar er hann í hlutverki góða nasistans, hins réttláta hermanns, sem lendir í þessu og kemur óvinum sínum eða jafnvel gyðingum óvænt til hjálpar. Að sjálfsögðu er hlutverk hans sem Adolf Eichmann undantekning þar á. En í Stalingrad leikur Kretschmann ungan og vel menntaðan hermann sem kemur rússneskri stúlku til hjálpar í skelfilegum hildarleik mestu orrustu allra tíma í borginni Stalíngrad árin 1942-43.

 

Hinn réttláti Wilm Hosenfeld úr Píanistanum er líklega frægasta hlutverk Thomasar Kretschmanns til þessa og má segja að persónan geri eitt mesta góðverk nokkurs nasista í kvikmyndasögunni þegar hann kemur hinum helsjúka píanista Szpilman til hjálpar.