Svissneski læknirinn og alkemistinn Philippus Aureolus Theophrastus Bombastus von Hohenheim (1493–1541) skapaði sér sess í sögunni vegna kenninga sinna um lækningarmátt þungmálma, og svo fyrir að gefa málminum sínk nafn sitt, en hann nefndi hann zincum eftir þýska orðinu Zinke, sem þýðir „oddur“.  

 

Von Hohenheim var haldinn mikilmennskubrjálæði og uppfullur af hugmyndum um eigin vitsmunalega yfirburði.  Á miðöldum tíðkaðist það jafnan hjá germönskum fræðimönnum að taka upp latneskt heiti.  Von Hohenheim valdi sér nafnið Paraselsus, sem þýðir „jafnoki Selsusar“, en rómverski fjölfræðingurinn Aulus Kornelíus Selsus hafði 1500 árum áður fest á blað öll helstu fræði Rómverja á sviði lækninga.

 

Hinn sjálftitlaði Paraselsus hlaut doktorsnafnbót frá háskólanum við Ferrara á Ítalíu, en virðist hafa talið sig að mestu sjálflærðan.  Hann starfaði árum saman sem herlæknir og öðlaðist kunnáttu á sviði lækninga á vígvellinum jafnt sem í bókum.  Fyrir vikið fyrirleit hann fílabeinsturna háskólanna. Árið 1527, aðeins 35 ára gamall, var hann skipaður borgarlæknir í borginni Basel í Sviss, og gerður að prófessor í læknisfræðum við háskólann þar.  Af því tilefni flutti hann eftirfarandi ávarp til læknadeildar skólans:

 

Ég er Theophrastus, og ég er mikilfenglegri heldur en þeir sem þið berið mig saman við.  Ég er Theophrastus, og auk þess konungur læknisfræðinnar … ég get sannað fyrir ykkur það sem þið getið ekki með nokkru móti sannað … Ég mun verja minn málstað og sigra þá starfsbræður mína sem snúast gegn mér.  Þetta mun ég gera með minni miklu speki.  Það voru ekki stjörnurnar sem gerðu mig að lækni — það var Guð!

 

Ég þarf hvorki brynju né skjöld gegn ykkur, því þið hafið hvorki lærdóminn né reynsluna til þess að hrekja svo mikið sem eitt einasta orð eftir mig.  Ég vildi óska þess að ég gæti varið skallann minn gegn flugum jafn auðveldlega og ég ver konungdæmi mitt.  Og ég ver það ekki með orðgjálfri einu saman, heldur með mikilli stórspeki. En þið … þið verjið umdæmi ykkar með undirlægni og smjaðri.  Hversu lengi haldið þið að það gangi?

 

Leyf mér að segja ykkur þetta:  Hvert einasta hár á höfði mínu er lærðara heldur en þið og allir ykkar ritsveinar.  Skósylgjur mínar eru fróðari en ykkar Galen [forngrískur læknir] og Avicenna [persneskur læknir], og skeggið mitt býr yfir meiri reynslu heldur en allir ykkar merku háskólar.

 

Á einu bretti gerði Paraselsus þannig alla læknana í Basel að óvinum sínum.  Nemendur við háskólann uppnefndu hann í kjölfarið „Cacophrastus“ (cacare er latneska sögnin yfir að kúka).  Svo gríðarlegar óvinsældir bakaði hann sér að þegar helsti verndari hans í Basel lést síðar á árinu átti hann fáa kosti aðra en að flýja borgina.  Hann varð eftir þetta heimilislaus, og ferðaðist árum saman um Evrópu, Norður-Afríku og Litlu-Asíu, þar til hann lést að lokum í Salzburg árið 1541, einungis 48 ára að aldri.

 

 

Forsíðan á söfnuðum verkum Paraselsusar frá árinu 1605.