Árið 1955, á meðan kalda stríðið færðist æ í aukana, sprengdi Bandaríkjaher tugi kjarnorkusprengja í eyðimörk Nevada-fylkis í tilraunaskyni. Til þess að rannsaka hvaða áhrif sprengjurnar hefðu á mannabyggðir settu Bandaríkjamenn upp heilt þorp á Yucca-sléttu þar sem mikið af tilraunasprengingum fór fram.

 

Íbúar þorpsins á sléttunni voru gínur, klæddar í föt og stillt upp hér og þar um þorpið. Daginn eftir að sprengjan dundi á þessu óheppna þorpi komu svo vísindamenn hersins og rannsökuðu rústirnar. Skemmdir á gínunum voru notaðar til þess að áætla — ef þetta hefði nú verið í alvörunni, í raunverulegu þorpi með lifandi íbúum — hversu margir hafi þá látist og hversu margir hafi komist lífs af.

 

Sprengjan sem dundi á lífvana íbúum þessa litla þorps var gífurlega sterk, á við 35.000 tonn af sprengiefninu TNT. Sprengjan sem íbúar Hiroshima fengu að reyna á eigin skinni var á við 15.000 tonn af TNT. Sterkasta sprengjan sem Bandaríkjaher hefur undir höndum í dag er rúm 1.200.000 tonn.

 

Ljósmyndari tímaritsins LIFE heimsótti þorpið á Yucca-sléttu daginn eftir sprenginguna, vorið 1955, og tók þessar furðulegu myndir af eyðileggingunni og tilraunum hersins að bjarga íbúum sem enn voru taldir á ‘lífi’.