Eyjan Madagaskar er frægust fyrir sitt einstaka og fjölbreytta dýralíf, enda er hún heimaland hinnar stórkostlegu dýrategundar, lemúra. Hinsvegar er landslag á eyjunni einnig með ólíkindum.

 

Tsingy de Bemaraha heitir náttúruverndarsvæði á vesturhluta Madagaskar. Svæðið er einnig þekkt sem „steinskógurinn“.

 

Svæðið er dæmi um svokallað karst-landslag. Grunnvatn sem flæðir undir sléttunni hefur grafið undan og holað kalksteinsklettana með þessum dramatísku afleiðingum. Orðið „tsingy“ á malagasí, tungumáli innfæddra á Madagaskar, ku þýða „þar sem ekki er hægt að ganga berfættur“. Enda er ‘skógurinn’ næsta ófær mönnum.

 

Aðrar skepnur en maðurinn láta þó ekki landslagið stöðva sig og í steinskóginum hefur þróast sérstakt plöntu- og dýralíf, fjarri mennskum afræningjum. Fjölmargar fuglategundir hafast einungis við í gljúfum og hellum í Tsingy de Bemaraha, og lemúrar stökkva á milli klettatrjánna eins og ekkert væri sjálfsagðara.