Vídjó

Mariana er ellefu ára stúlka frá Bólivíu. Hún býr í fátækrahverfi í stórborginni Buenos Aires með foreldrum sínum. Á ári hverju flytja þúsundir manna til stórborgarinnar frá fátækum svæðum í Argentínu og nágrannalöndunum Bólivíu og Paragvæ. Fátækrahverfin eru oft fyrsti áfangastaðurinn.

 

Bayan er 17 ára piltur frá Vestur-Afríkuríkinu Gana. Hann æfir með unglingaliði argentínska fótboltaliðsins Boca Juniors. Foreldrar hans féllu árið 2005 í átökum tveggja þjóðarbrota. Bayan þurfti því að búa á hæli fyrir munaðarleysingja. Hann hafði heyrt nafn Maradona en vissi ekkert annað um Argentínu. En röð tilviljana leiddi til þess að Bayan býr núna í sömu stórborg og Mariana.

 

Myndbrotið hér að ofan er frá UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Í árlegri skýrslu stofnunarinnar, sem út kom í gær, er þemað börn í þéttbýli: Children in an Urban World. Á vefsíðu UNICEF á Íslandi segir:

Kastljósinu er beint að bitrum veruleika bláfátækra barna í fátækrahverfum en í skýrslunni kemur fram að hundruð milljóna barna í borgum og bæjum um víða veröld hafa engan aðgang að mikilvægri grunnþjónustu.

 

Ekki öll börn fá notið tækifæranna

Fjölgun fólks í þéttbýli er óhjákvæmileg. Innan fárra ára mun meirihluti barna í heiminum alast upp í þéttbýli. Þar býr nú þegar yfir einn milljarður barna.

 

Borgirnar bjóða upp á margvísleg tækifæri fyrir börn en þar er líka víða hrikalegan ójöfnuð að finna og langt í frá öll börn fá notið tækifæranna.

 

„Þegar við hugsum um fátækt er myndin sem kemur upp í hugann oftar en ekki af barni í litlu þorpi úti á landi,“ segir Anthony Lake, framkvæmdastjóri UNICEF.

 

Staðan í dag er hins vegar þannig að mörg börn sem búa í fátækrahverfum í borgum standa illa að vígi. Þau eru utan við samfélagið, ósýnileg, og á meðal þeirra berskjölduðustu í heimi.

 

Margir jarðarbúar búa í fátækrahverfum – raunar eru þau heimkynni þriðja hvers sem býr í þéttbýli.

 

Þar skortir oft nauðsynlega innviði og aðgangur að hreinu vatni og salernum er lítill sem enginn. Grunnþjónusta á borð við skóla og heilsugæslustöðvar getur vel verið til staðar en börnin engu að síður ekki haft aðgang að þeim sökum fátæktar og ójöfnuðar. Leiksvæði eru oft engin og börn fá ekki að vera börn.

 

Mörg þurfa auk þess að vinna erfiða vinnu og eru ekki í skóla.

 

Allra fátækustu börnin í borgunum búa oft á varasömum svæðum eins og í bröttum brekkum þar sem aurskriður skapa mikla hættu, við hlið lestarteina, eða við skelfilegar aðstæður á sorphaugum.

 

Í yfirfullum fátækrahverfum þar sem hreinlæti er ábótavant breiðast sjúkdómar auk þess auðveldar út en ella. Slíkir staðir eru engir staðir fyrir börn til að alast upp á.

 

Fátækustu börnin gleymast

Í skýrslunni sem út kemur í dag bendir UNICEF á að þegar horft sé á meðaltöl margvíslegra þátta sem varði börn í þéttbýli eigi þær við börn sem búi við afar ólíkar aðstæður – rík börn sem bláfátæk. Þegar slík meðaltöl séu notuð við skipulag og útdeilingu auðlinda sé auðvelt að horfa framhjá þörfum þeirra sárafátækustu.

 

UNICEF leggur áherslu á að þarfir þeirra barna sem verst standi að vígi séu settar í forgang og hugsað sé sérstaklega um fátækrahverfin. Samtökin hvetja yfirvöld um víða veröld til að bæta aðgengi barna í slíkum hverfum að nauðsynlegri grunnþjónustu og hafa þarfir barna miðlægar í öllu borgarskipulagi.

 

Hvernig kemur Ísland út?

 

UNICEF berst fyrir réttindum barna á heimsvísu. Á hverjum degi, hverri stundu, berjast samtökin fyrir bættum aðbúnaði barna um víða veröld.

 

UNICEF hefur í yfir þrjátíu ár gefið út skýrslur um stöðu barna í heiminum og greint ýmsa lykilþætti sem varða börn. Í skýrslunni í ár má sem dæmi sjá að tíðni barnadauða er hæst í Sómalíu, Malí og Búrkína Fasó en minnst á Íslandi, San Marínó og í Liechtenstein.

 

Gleðifréttirnar eru þær að á nokkrum árum hefur tíðni barnadauða á heimsvísu lækkað mjög mikið. Þetta er meðal annars rakið til nokkurra lykilinngripa á borð við bólusetningar, A-vítamíngjöf og dreifingu moskítóneta til að koma í veg fyrir malaríusmit.

 

UNICEF rekur allt sitt hjálparstarf með frjálsum framlögum og engu öðru. Mánaðarlegir styrktaraðilar UNICEF, svokallaðir heimsforeldrar, gegna lykilhlutverki í starfseminni og á Íslandi eru hlutfallslega flestir heimsforeldrar í heimi.

 

Nærri 18.000 manns eru heimsforeldrar í gegnum UNICEF á Íslandi!