Hvað er svona sérstakt við kampavín? Það vita væntanlega þeir sem það hafa bragðað. „Hressir, bætir og kætir,“ er ágætis lýsing – en nær þó engan veginn að fanga þennan guðdómlega drykk. Á Íslandi hefur drykkurinn því miður beðið mikla álitshnekki, þar sem hann er og verður ætíð tengdur við hina misheppnuðu útrás og misheppnaðri útrásarvíkinga.

 

En kampavín er bara miklu betra en svo, að afglöp nokkurra einstaklinga eigi að skemma fyrir okkur hinum – okkur sem erum tilbúin til að gefa drjúga prósentu mánaðarlaunanna á altari Bakkusar. Eða þannig. Kampavín er í það minnsta ekki ókeypis, og því er um að gera að njóta þess í þau fáu skipti sem það býðst.

 

Það gerði Anton Tsékov, rússneska leikskáldið, á dánarbeðinu. Tsékov var búinn að þjást lengi af berklum og upplifði miklar kvalir. Er læknir hans sá að örlögin yrðu ekki umflúin bað hann um kampavín handa sjúklingnum, en ekkert lyf hafði þá náð að lina þjáningar meistarans. „Ég hef ekki bragðað kampavín lengi,“ voru lokaorð Tsékovs, sem sofnaði síðan svefninum langa með bros á vör.

 

Churchill vissi hvað hann söng þegar kom að djammi.

 

 

 

 

Winston Churchill kunni líka að meta kampavín, að sjálfsögðu. Hinn mikli drykkjumaður kunni enn fremur að berja mönnum kjark í brjóst. Hann gerði einmitt það þegar hann leiddi hina konunglegu 6. herdeild til orrustu á vesturvígstöðvunum í fyrri heimstyrjöld, árið 1915. „Munið það herramenn, að við erum ekki aðeins að berjast fyrir Frakkland – heldur fyrir kampavín!

 

 

 

 

Það er þó Lilly Bollinger, sem stýrði Bollinger-vínhúsinu til hæstu hæða, sem á heiðurinn af bestu kampavínstilvitnuninni: „Ég drekk kampavín þegar ég er glöð og ég drekk kampavín þegar ég er leið. Stundum drekk ég kampavín í einrúmi. Þegar gesti ber að garði er kampavín skylda. Ég leik mér að því þegar ég finn til svengdar og drekk það þegar ég er södd. Annars snerti ég það aldrei – nema þegar ég er þyrst.

 

Madame Lilly Bollinger á reiðhjóli í Champagne-héraði.