Matur og drykkur hefur verið eitt helsta hreyfiafl mannkynssögunnar. Mannskepnan þarf á næringu að halda og er því tilbúin að leggja mikið á sig til að afla hennar. Stríð eru þar ekki undanskilin. En hvað með gervinæringu og óþarfa vörur á borð við sælgæti? Skiptir sælgætið máli í gangi sögunnar?

 

Það gerði það svo sannarlega í Loftbrúnni til Berlínar, sem átti sér stað í 322 daga frá 1948 til 1949. Loftbrúin var til komin vegna þess að Sovétmenn höfðu lokað samgönguleiðum á landi til Vestur-Berlínar. Vesturveldin, undir forystu Lucius D. Clay, hófu því að flytja varning með flugvélum, en þar var langmest flutt af kolum til hins orkulausa vesturhluta borgarinnar. Matvörur sem fluttar voru til Vestur-Berlín héldu lífi í borgarbúum, en lítið meira en það. Það var fátt sem hægt var að brosa yfir þennan örlagaríka vetur.

 

Þá kom til sögunnar flugmaður, Gail Halvorsen að nafni. Hann ræddi eitt sinn við börn og unglinga sem fylgdust með flugvélunum lenda á Tempelhof flugvellinum og, að eigin sögn, sá hann vonarneista kvikna í augum þeirra þegar hann gaf þeim tvær plötur af Wrigley’s Doublemint tyggjói. Halvorsen datt í hug, að það myndi bæta stemningu borgarbúa umtalsvert, ef hægt væri að færa börnunum hamingju í formi sælgætis. Hann sagði börnunum að örvænta ekki, hann skyldi koma aftur með meira sælgæti – og að hann skyldi henda því út um flugstjóragluggann, þar sem sælgætið yrði bundið í litlar fallhlífar. „En hvernig þekkjum við þig?“ spurðu börnin. „Ég mun vagga vængjunum þegar ég flýg yfir,“ svaraði Halvorsen.

 

Halvorsen stóð við sitt og tókst að gleðja börnin í Vestur-Berlín. Heyra mátti fagnaðarlæti líkt og á rokktónleikum dagsins í dag, þegar Halvorsen vaggaði vængjunum yfir borginni. Fékk hann viðurnefnið Onkel Wackelflügel (bein þýð. frændi með vaggandi vængi) og þeir félagar hans sem tóku upp sömu siði voru kallaðir Rosinenbombers (rúsínusprengjurnar). Hernaðaryfirvöld áttuðu sig á mikilvægi sælgætisins í áróðursstríðinu milli vesturs og austurs og hvöttu Halvorsen til dáða, báðu hann í raun um að varpa á börnin eins miklu sælgæti og mögulegt var.

 

Það er ef til vill einföldun að segja að það hafi verið sælgætið sem sigraði áróðursstríðið, en þarna eignuðust vesturveldin (Bandaríkjamenn sérstaklega) fjölmarga aðdáendur í hópi barna og unglinga. Átti það sinn þátt í því að þessir nammifíklar áttu síðar meir eftir að flytja búferlum til vesturhlutans þegar þeir uxu úr grasi, enda lítið um sælgæti í Alþýðulýðveldinu.

 

Í öllu falli er Wrigley’s tyggjó og Hershey’s súkkulaði enn þann dag í dag með vinsælla sælgæti sem finnst í Berlín, sérstaklega í vesturhlutanum. Það er engin tilviljun.

 

Hér má að lokum sjá viðtal við Halvorsen, tekið árið 2008. Þar eru einnig mögnuð myndskeið sem Halvorsen tók sjálfur á 8 mm upptökuvél og sýna glöggt aðstæður í Berlín fyrir rúmum 60 árum síðan.

 

Vídjó